Nemendur þurfa að fá tækifæri til að skýra hugsun sína um stærðfræðileg viðfangsefni með því að ræða við aðra, bæði kennara og aðra nemendur, um viðfangsefni sín og lausnaleiðir og læra þannig að nota tungumál stærðfræðinnar. Þeir þurfa að læra að gera grein fyrir niðurstöðum sínum, bæði munnlega og skriflega ... Enn fremur þurfa nemendur að þjálfast í að hlusta á aðra, taka þátt í samræðum og túlka upplýsingar frá öðrum (Áfangamarkmið við lok 4. bekkjar, bls. 21). Við allt nám er það mikilvæg krafa að nemendur komi hugsunum sínum í skiljanlegan búning ... Liður í því að þjálfa nemendur í að skilja hvað þeir eru að gera er að deila skilningnum með öðrum og hlusta á hugmyndir annarra. Við það skerpist og agast hugsun nemandans sjálfs og skilningurinn dýpkar (Áfangamarkmið við lok 7. bekkjar, bls. 57). Vinnubrögð sem þjálfa nemendur í að hlusta, lesa, skrifa og tala um stærðfræði, [ættu] að vera samofin stærðfræðináminu. Nemendur ættu að öðlast leikni í að finna svör og sýna útreikninga á skipulegan hátt en þeir þurfa enn fremur að geta tjáð sig um úrlausnir og hlustað á sjónarmið annarra og á þann hátt dýpkað skilning sinn á eðli viðfangsefnanna (Áfangamarkmið við lok 10. bekkjar, bls. 92).Þegar viðfangsefnið hefur verið rætt og íhugað í samskiptum við aðra og það liggur ljóst fyrir þarf að velja verkfærin, aðferðirnar, aðgerðirnar og formúlurnar, til að leysa það. Þar eru samskipti einnig mikilvæg, en það tefur og truflar að nota rangar aðferðir eða aðgerðir og því gott að ráðgast við aðra áður en ráðist er í verkið. Að lokum er gagnlegt að ræða um úrlausnina, að gera öðrum og um leið sjálfum sér skiljanlegt hver niðurstaðan er, hvernig hún er fengin, hversu traust hún er og hve víðtækt gildi hún hefur. Einnig er fróðlegt að hugleiða þessa spurningu út frá notkun stærðfræði í vísindum yfirleitt, hvort sem er í raunvísindum eða félagsvísindum. Margir líta þá á stærðfræðina sem eins konar tungumál eða öllu heldur hluta af tungumáli vísindanna. Með öðrum orðum er stærðfræðin þarna greinilega í hlutverki samskiptatækis eða -miðils. Margir vísindamenn telja líka að stærðfræðin hjálpi mönnum til að komast að niðurstöðum sem við mundum annars ekki finna. Sömuleiðis má nefna að hægt er að nota stærðfræðilega rökfræði til að segja til um hvað eigi að taka gilt í samskiptum í vísindum. Þannig má líta á rökfræðina sem eins konar leikreglur um samskipti. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Kennarinn minn segir að í stærðfræði séu engar undantekningar frá útreikningsaðferðum, er það rétt? eftir Rögnvald G. Möller
- Hver fann upp stærðfræðina? eftir Kristínu Bjarnadóttur
- Til hvers þarf maður að læra stærðfræði þegar við getum notað reiknitölvu? eftir Rögnvald G. Möller