Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Heimsstyrjöldin fyrri hófst 28. júlí 1914 og henni lauk 11. nóvember 1918. Evrópa var meginvettvangur hernaðarátakanna en einnig var barist í Miðausturlöndum, Afríku, Austur-Asíu og á höfum úti. Tiltölulega fá ríki báru hitann og þungann af átökunum. (Sjá svar sama höfundar við spurningunni Hversu margir dóu í heimsstyrjöldinni fyrri?).
Tvær andstæðar fylkingar tókust á: miðveldin og bandamenn.
Miðveldin voru Þýskaland, Austurríki-Ungverjaland, Tyrkjaveldi og Búlgaría. Tvö fyrstnefndu ríkin höfðu lengi verið í bandalagi en styrjöldin hófst með því að Austurríkismenn, studdir af Þjóðverjum, sögðu Serbum stríð á hendur. Tyrkir gengu til liðs við miðveldin í nóvemberbyrjun 1914, Búlgarar í október 1915.
Höfuðríki bandamanna voru í fyrstu þrjú: Bretland, Frakkland og Rússland. Mörg ríki slógust síðar í hópinn, þar af fjögur þegar á fyrstu vikum ófriðarins: Belgía, Japan, Serbía og Svartfjallaland. Japanir létu þó ekki mikið til sín taka, gerðu sig ánægða með að hrifsa nokkur yfirráðasvæði af Þjóðverjum í Asíu og styrkja stöðu sína sem stórveldi þar eystra. Síðar bættust við Ítalía (1915), Rúmenía (1916), Portúgal (1916), Bandaríkin (1917) og Grikkland (1917). Portúgalir beittu sér fyrst og fremst gegn nýlendum Þjóðverja í Afríku.
Einn frægasti hermaður fyrri heimsstyrjaldarinnar, góði dátinn Svejk. Hann tók þó ekki þátt í neinum bardögum heldur er hugarfóstur tékkneska rithöfundarins Jaroslav Hasek (1883-1923).
Önnur ríki bandamanna voru Andorra, Brasilía, Gvatemala, Haíti, Hondúras, Líbería, Nikaragúa, Kosta Ríka, Kína, Kúba, Nepal, Panama og Tæland. Herlið þessara ríkja börðust þó ekki í stríðinu, ef undan eru skildir hermenn frá Nepal sem þjónuðu í indverskum hersveitum undir stjórn Breta. Framlag Kínverja fólst einkum í því að senda um 150 þúsund kínverska verkamenn til starfa í Belgíu og Norður-Frakklandi.
Hér hefur einungis verið minnst á sjálfstæð ríki. En miklu fleiri þjóðir tóku þátt í stríðinu.
Í fyrsta lagi verður að nefna bresku sjálfstjórnarlöndin Ástralíu, Nýja-Sjáland, Kanada, Nýfundnaland og Suður-Afríku. Ríflega 400 þúsund ástralskir og um hundrað þúsund nýsjálenskir hermenn börðust í heimsstyrjöldinni. Annáluð er hlutdeild ANZAC (Australian and New Zealand Army Corps) í árás bandamanna á stöðvar Tyrkja á Gallipoliskaga við Hellusund. Hún fór reyndar út um þúfur en þátttakan í stríðinu styrkti mjög þjóðarvitund Ástrala og Nýsjálendinga. Svipaða sögu er að segja af Kanadamönnum en um 600 þúsund hermenn frá Kanada og Nýfundnalandi tóku þátt í bardögum á vesturvígstöðvunum, þar af um 1.250 Vestur-Íslendingar. (Sjá svar svar sama höfundar við spurningunni Dóu Vestur-Íslendingar í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar?). Á annað hundrað þúsund Suður-Afríkubúar lögðu Bretum lið í hernaðarátökum.
Í öðru lagi tók fjöldi hermanna úr nýlendum Breta og Frakka þátt í orrustum í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku. Um ein og hálf milljón Indverja gegndi herþjónustu í breska hernum. Langflestir voru sendir á vígvöllinn í Miðausturlöndum en 150 þúsund börðust á vesturvígstöðvunum í Belgíu og Norður-Frakklandi. Alls munu um 650 þúsund innfæddir nýlendubúar hafa barist í Evrópu. Þeir voru langflestir úr nýlendum Frakka í Afríku, arabar og blökkumenn. Bretar létu afríska hermenn ekki taka þátt í bardögum í Evrópu. Nokkur hundruð þúsund verkamenn úr nýlendunum störfuðu einnig fyrir bandamenn að baki víglínunnar í Evrópu.
Hluti indverskrar reiðhljólahersveitar í Somme í Frakklandi 1916 en um ein og hálf milljón Indverja gegndi herþjónustu í breska hernum.
Í þriðja lagi nutu margar Evrópuþjóðir ekki sjálfstæðis á þessum árum. Ríki Evrópu voru 25 árið 1914 en eru nú, einni öld síðar, tvöfalt fleiri. Í herjum allra stórveldanna mátti því finna hermenn af ólíku þjóðerni. Einkum var her Austurríkis-Ungverjalands fjölþjóðlegur. Þar fylktu saman liði Austurríkismenn, Ungverjar, Tékkar, Slóvakar, Pólverjar, Úkraínumenn, Króatar, Slóvenar, Bosníumenn og fleiri. Rússland og Tyrkjaveldi voru einnig fjölþjóðaríki og Þýskaland var fjarri því að geta talist einsleitt þjóðríki. Í þýska hernum börðust til dæmis hátt í 30 þúsund hermenn úr danska minnihlutanum í Slésvík. Af þeim týndu meira en fjögur þúsund lífi. Rúmlega 200 þúsund Írar börðust í Bretaher en Írland varð ekki sjálfstætt ríki fyrr en að stríði loknu.
Norrænu ríkin þrjú (Danmörk, Noregur og Svíþjóð) gættu hlutleysis í heimsstyrjöldinni fyrri. Önnur hlutlaus Evrópuríki voru Holland, Liechtenstein, San Marínó, Spánn og Sviss. Varla þarf að minna á að Íslendingar voru danskir þegnar á þessum árum. Finnar lutu stjórn Rússa við upphaf stríðs en öðluðust sjálfstæði í desember 1917. Þá er einungis eftir að geta tveggja fullvalda Evrópuríkja árið 1914, Albaníu og Lúxemborgar, en þau voru bæði hersetin á stríðsárunum. Þjóðverjar hernámu Lúxemborg á fyrstu dögum ófriðarins en Austurríkismenn lögðu undir sig stærsta hluta Albaníu.
Heimildir, lesefni og myndir:
Christensen, Claus Bundgård, Danskere på Vestfronten 1914–1918, Kaupmannahöfn 2012.
Enzyklopädie Erster Weltkrieg, ritstj. Gerhard Hirschfeld, Gerd Krumeich og Irina Renz, aukin og endurbætt útgáfa, Paderborn, München, Vínarborg og Zürich 2009.
Gunnar Þór Bjarnason. „Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 9. júlí 2014, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64169.
Gunnar Þór Bjarnason. (2014, 9. júlí). Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64169
Gunnar Þór Bjarnason. „Hverjir tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 9. júl. 2014. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64169>.