Hvaðan kemur nafn Golfstraumsins? Hvers vegna heitir hann Golfstraumur?Golfstraumurinn er hlýr hafstraumur í Norður-Atlantshafi. Hann er upprunninn fyrir norðan miðbaug í vestlægum hafstraumum sem fara um Karíbahaf, inn í Mexíkóflóa og út um Flórídasund. Golfstraumurinn dregur nafn sitt af Mexíkóflóa sem nefnist á ensku 'Gulf of Mexico'. Enska orðið gulf merkir 'flói' eða 'breiður fjörður'. Það er algengt í örnefnum á ensku, til dæmis, Persian Gulf (Persaflói), Gulf of Alaska (Alaskaflói), Gulf of Florida (Flórídasund) og Gulf of Mexico (Mexíkóflói). Enska orðið 'gulf' er myndað eftir orðinu 'golf' í miðaldafrönsku. Golfstraumur er þess vegna 'straumur sem kemur úr flóa', nánar tiltekið Mexíkóflóa. Heimild og mynd:
- Online Etymology Dictionary. (Skoðað 20.11.2014).
- Gulf Stream - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 20.11.2014).