Hvort er rétt að skrifa híbýli eða hýbýli? Af hverju kemur hí/hý í þessu orði?
Í fornu máli er orðið híbýli/hýbýli ýmis skrifað með í eða ý. Í stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar (1994) er tekið fram að rétt sé að skrifa það á hvorn veginn sem er en í nýju Stafsetningarorðabókinni er einungis gefinn rithátturinn híbýli. Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er vísað úr híbýli í hýbýli og fjallað er um upprunann undir myndinni með -ý- sem bendir til að Ásgeir hafi talið þann rithátt nær upprunanum. Orðið er gamalt í norrænum málum. Í fornsænsku kemur fyrir orðið hỹbỹle* ‘húsakynni’ og í nútímasænsku hybble í sömu merkingu. Forliðurinn hý merkir í raun ‘heimilisfólk, fjölskylda’ og er nátengdur orðunum hjón og hjú ‘vinnufólk’. Uppruninn bendir fremur til -ý- og þannig eru elstu dæmi í seðlasafni Orðabókar Háskólans skrifuð en algengara er í seinni tíð að skrifa orðið með -í-, það er híbýli. Báðir rithættir eru réttir.
*Y í þessu orði á í raun að vera með láréttu striki yfir en sá stafur fannst ekki í þeirri leturgerð sem notuð er hér.