Af hverju verða hnífar bitlausir ef þeir eru þvegnir með sápu eða settir í uppþvottavélar? (Fannar Andrason) Verða góðir hnífar bitlausir og lélegir á því að fara í uppþvottavél og ef svo er hvað veldur því að uppvask fer ekki jafn illa með þá? (Dagur Fannar Magnússon) Ég hef heyrt reynslumiklar konur segja að ekki skuli setja beitta matreiðsluhnífa í uppþvottavélina. Hvað er það sem uppþvottavélin gerir öðruvísi en uppþvottaburstinn og sápan? (Tinna Björk Aradóttir) Af hverju verða hnífar bitlausir ef þeir eru settir í uppþvottavél? Á þessu eru oft skiptar skoðanir í atvinnueldhúsum. (Guðbjartur Einar Sveinbjörnsson)Hnífar verða bitlausir í uppþvottavél einfaldlega vegna þess að þar er hætt við að þeir skrölti um og sláist utan í leirtau og önnur stáláhöld í hnífaparabakkanum. Ef þeir eru settir í diskarekka og hnífseggin látin snúa upp og þess vandlega gætt að ekkert geti slegist utan í þá, þá verða þeir ekki bitlausir í uppþvottavél. Hitt er svo annað mál að það er afar auðvelt að þrífa hnífa í vaskinum og strjúka svo af þeim. Þá er líka engin hætta á því að þeir fari illa í uppþvottavél. Þess vegna er eindregið mælt með þeirri aðferð við góða hnífa.

Hnífar verða bitlausir í uppþvottavél einfaldlega vegna þess að þar er hætt við að þeir skrölti um og sláist utan í leirtau og önnur stáláhöld í hnífaparabakkanum.

Mælt er með því að þvo góða hnífa í vaskinum og strjúka svo af þeim. Yfirborðsvirk sápuefni hafa alls engin efnafræðileg eða eðlisfræðileg áhrif á stálið í hnífum.
- The Worst Things to Put In Your Dishwasher - Reviewed.com Dishwashers. (Sótt 12.04.2016).
- File:Different Chef Knives.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 12.04.2016).
Varðandi bitlausa hnífa og uppþvottavélar mætti bæta við svarið að erlendis er oft mjög hátt kalk innihald í vatninu sem sest á eggina og étur niður bitið. Þetta er því erlent vandamál sem er orðið að almannaróm á Íslandi.Um þetta er það að segja að kalkútfellingar ná eingöngu að safnast fyrir á hníf eftir endurteknar skolanir þar sem hnífurinn er ekkert notaður á milli. Þegar hnífurinn er notaður eftir þvott nuddast útfellingin í burtu. Kalkútfellingar geta haft einhver áhrif á bit hnífa en þau áhrif eru hverfandi miðað við venjulega notkun á hnífunum.