Þegar maður les nótur (ég spila t.d. á píanó og les nóturnar þegar ég spila) hvort skynjar maður þær með vinstra eða hægra heilahvelinu?Spurningin er væntanlega sprottin af því að lestur og önnur úrvinnsla tungumáls fer aðallega fram í vinstra heilahveli hjá flestu fólki en tónlist er fremur talin vekja upp virkni í hægra heilahveli. Þetta er þó ekki algilt og bendir sumt til þess að vanir tónlistarmenn noti vinstra heilahvelið í meira mæli við hlustun tónlistar. Þetta hefur verið túlkað á þá leið að óvanir skynji tónlist fremur sem eina heild og að slík skynjun sé háðari hægra heilahveli, en að æfðir hlustendur greini tónlistina niður og að slíkt reyni fremur á vinstra heilahvelið. Schön og félagar (2002) leituðu svars við þeirri spurningu hvort hugar- og heilaferli að baki nótnalesti væru óháð orða- og talnalestri. Í tilrauninni voru notaðar þrenns konar aðferðir til að skrifa nótur: Tölur (1, 2, 3, 4, 5), orð (do, re, mí, fa, so) eða hefðbundin nótnaskrift í G-lykli (sjá mynd). Heilavirkni tónlistarmanna var mæld með starfrænni segulómmyndun (e. fMRI) á meðan þeir leystu tiltekin verkefni. Annars vegar áttu þeir að lesa nótnaskriftina og spila eftir henni á hljómborð. Hins vegar áttu þeir einfaldlega að ýta á tiltekinn hnapp í hvert sinn sem tölur, orð eða venjuleg nótnatákn birtust. Heilavirkni þeirra í þessum verkefnum var svo borin saman.
Nótnaskrift sem sýnir C-dúr skrifaðan í G-lykli. Með því að smella á myndina má hlusta á tónstigann.
Svæði í hægra hvirfilblaði voru þó frekar notuð í venjulegri nótnaskrift en þegar nótur voru táknaðar með orðum eða tölum. Höfundar túlka þessa niðurstöðu þannig að í venjulegri nótnaskrift skipti staðsetning nótnanna höfuðmáli, en að svo sé ekki þegar nótur eru táknaðar með orðum eða tölum. Hægra heilahvel er einmitt talið taka meiri þátt í rúmskynjun en vinstra heilahvel. Miðað við niðurstöður Schön og félaga er því svarið við upphaflegu spurningunni að bæði heilahvelin koma að nótnalestri, en mismikið eftir því hvernig nóturnar eru táknaðar. Venjuleg nótnaskrift virðist vekja upp meiri virkni í hægra heilahveli en þegar nótur eru táknaðar með orðum eða tölum. Þó verður að hafa þann fyrirvara á niðurstöðunum að tilraunin var gerð á vönum tónlistarmönnum. Ekki er hægt að fullyrða að fólk sem ekki er vant því að lesa nótur noti til þess sömu heilasvæði og æfðir tónlistarmenn. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hverjir hönnuðu nótnaskrift upphaflega og hvernig hefur hún breyst síðan? eftir Karólínu Eiríksdóttur.
- Aldís Guðmundsdóttir og Jörgen Pind (2003). Almenn sálfræði: Hugur, heili, hátterni. Reykjavík: Mál og menning.
- Schön, D., Anton, J. L., Roth, M. og Besson, M. (2002). An fMRI study of music sight-reading. NeuroReport, 13, 2285-2289.
- Hljóð: Image:CDEFGABC.MID. Wikipedia : The Free Encyclopedia.
- Mynd: Image:C maj.png. Wikimedia Commons.