Nú hef ég heyrt að tunglið snúi alltaf sömu hlið að jörðinni, þ.e. snúist ekki um möndul sinn. Einnig hef ég heyrt að einn sólarhringur á tunglinu sé 29 dagar, sem þýðir að tunglið snýst um möndul sinn. Getur verið að sú saga hafi komist á kreik að tunglið sneri alltaf sömu hliðinni að jörðu vegna þess hve sólarhringurinn þar er langur? Hvað er satt og rétt í þessu máli?Stutta svarið við spurningunni er bæði já og nei; tunglið snýst eða snýst ekki um möndul sinn allt eftir því við hvað er miðað. Samt er kjarni máls ekki flókinn. Aðalatriðið er að öll hreyfing er afstæð sem kallað er, það er að segja að hún miðast við afstöðu annarra hluta eða svokallað viðmiðunarkerfi (e. system of reference). Þegar sagt er að maður sé kyrr þarf að tiltaka við hvað er miðað: Jörðina, bílinn, lestina, flugvélina, sólina og svo framvegis. Þegar við segjumst vera á hreyfingu þurfum við á sama hátt að tiltaka viðmiðið, nema þá að það sé greinilega undirskilið. Þetta á bæði við um hreyfingu úr stað og snúning hlutar um sjálfan sig án þess að hann hreyfist úr stað sem heild. Þá getur verið að hann snúist miðað við tiltekinn annan hlut, en ekki miðað við þann þriðja.
Myndin sýnir hvernig „snúningi“ tunglsins er háttað. Við sjáum athuganda sem stendur á þeim stað á tunglinu sem snýr sífellt að jörðinni, en hreyfingin er einmitt þannig að þessi staður er ávallt hinn sami. Manninum sýnist jörðin alltaf vera í hvirfilpunkti (e. zenith), það er að segja lóðrétt fyrir ofan sig. Okkur sem horfum á þetta ofan frá, eins og myndin gefur til kynna, virðist tunglið snúast um möndul um leið og það færist eftir brautinni. Athuganda á jörðinni sýnist tunglið í rauninni ekki snúast; Það snýr alltaf sömu hlið að honum. Hreyfing af þessu tagi kallast bundinn snúningur (e. synchronous rotation).