Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Réttarvenja, eða venjuréttur, er ein réttarheimilda lögfræðinnar. Réttarheimildir eru skilgreindar sem þau viðmið – gögn, sú háttsemi, þær hugmyndir og hvaðeina annað – sem almennt er viðurkennt að nota skuli eða nota megi til rökstuðnings þegar réttarreglu er slegið fastri eða hún notuð almennt eða í ákveðnu tilfelli.
Til réttarheimilda teljast:
Settur réttur, það er lög.
Réttarvenja.
Fordæmi.
Lögjöfnun (álitamál er hvort lögjöfnun sé réttarheimild eða aðferð við lögskýringu).
Kjarasamningur.
Meginreglur laga.
Eðli máls.
Kenningar fræðimanna.
Almenn réttarvitund.
Þjóðréttarreglur.
Nauðsyn er lögum ríkari.
Samningar þjóðfélagsþegnanna.
Venja er háttsemi sem hefur verið fylgt í tiltekinn tíma. Venja er almennt talin elsta réttarheimildin, þar sem fólk mótaði háttsemi sem var fylgt í samskiptum sín á milli áður en reglur voru lögfestar með lagasetningu. Nú á tímum eru venjur ekki eins áberandi í ljósi þess að lagareglur og stjórnvaldsfyrirmæli eru nú mun fyrirferðarmeiri í réttarkerfinu. Réttarvenja er réttlægri heimild en sett lög. Með því er átt við að venja getur ekki þokað fyrirmælum laga til hliðar, nema í undantekningartilfellum.
Venja getur orðið bindandi réttarheimild sem dómarar geta lagt til grundvallar í dómum sínum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sá sem ætlar að bera fyrir sig venju, til að mynda í dómsmáli, verður að sanna að venjan hafi myndast. Verða hér talin upp nokkur atriði sem eðlilegt er að miða við þegar meta á hvort venja geti talist bindandi réttarheimild.
Venja er ein þeirra réttarheimilda sem dómarar geta lagt til grundvallar í dómum sínum.
Aldur venju skiptir máli, en að jafnaði eru meiri líkur á að venja verði talin réttarheimild því eldri og fastmótaðri sem hún er. Ekki eru þó til reglur um það hversu gömul venjan skuli vera svo hún geti talist bindandi heldur fer það eftir aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Í dómum Hæstaréttar er víða notað orðalag á borð við „um langt skeið“, „löng og athugasemdalaus venja“, „frá forni fari“ eða „um langan aldur“ til að undirstrika aldur og þar með gildi venju.
Einnig skiptir stöðugleiki venju máli. Það þýðir að venjunni þarf að hafa verið fylgt stöðugt og ekki getur verið um einstakan atburð að ræða svo hann teljist til venju. Þá verður venja að vera sanngjörn, réttlát og haganleg. Hún má þannig ekki fara gegn skoðunum almennings um hvernig eigi að skipa málum og verður að vera skynsamleg og eðlileg í framkvæmd.
Ekki má rugla venju saman við vana, það er eitthvað sem fólk gerir af vana og svo það sem kalla má réttarvenju. Venjulega er talað um að venja geti aðeins átt við um atriði á þeim sviðum sem almennt þykir nauðsynlegt að skipa með lögum.
Vísað getur verið til venju í lagaákvæðum. Til að mynda er í 3. gr. laga um lausafjárkaup (nr. 50/2000) kveðið á um að ákvæði laganna eigi ekki við "þegar annað leiðir af samningi, fastri venju milli aðila, viðskiptavenju eða annarri venju sem telja verður bindandi millum aðila" [áherslubreyting höfundar]. Þetta er dæmi um viðskiptavenju en á þær reynir langmest í framkvæmd. Oft er vísað til þeirra í lögum, líkt og í lögum um lausafjárkaup en einnig er algengt að vísað sé til þeirra í samningum og í sumum tilvikum eiga þær hvorki stoð í lögum eða samningum heldur standa algerlega sjálfstæðar.
Heimild og mynd:
Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði – Grundvöllur laga – Réttarheimildir, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykajvík 2003.
Lena Mjöll Markusdóttir. „Hvað er réttarvenja í lögfræði?“ Vísindavefurinn, 11. júlí 2014, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63633.
Lena Mjöll Markusdóttir. (2014, 11. júlí). Hvað er réttarvenja í lögfræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63633
Lena Mjöll Markusdóttir. „Hvað er réttarvenja í lögfræði?“ Vísindavefurinn. 11. júl. 2014. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63633>.