Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jöns Gerekesson Lodehat, eða Jón Gerreksson eins og Íslendingar hafa jafnan kallað hann, var danskur aðalsmaður, fæddur um 1378. Um þrítugt varð hann erkibiskup í Uppsölum í Svíþjóð, vafalaust að undirlagi Danakonungs, Eiríks af Pommern, sem ríkti þá jafnframt yfir Svíþjóð, því að vinátta var með þeim konungi og Jóni. Svíum var aldrei vel við að fá yfir sig danska embættismenn, og kann það að hafa valdið einhverju um að Jón lenti í deilum við heimamenn, og lauk svo að páfi setti hann af embætti árið 1422 og dæmdi hann óhæfan til allrar æðri klerklegrar þjónustu, meðal annars vegna ítrekaðra brota á skírlífisreglum kirkjunnar. Eftir það var hann nokkur ár í þjónustu Eiríks konungs uns páfi veitti honum biskupsembættið í Skálholti árið 1426 með þeim ummælum að ekki væri mikið í húfi því að íbúar biskupsdæmisins væru nánast villimenn (á latínu: inter gentes quasi barbaras).
Jón mun ekki hafa komið til biskupsstóls síns fyrr en á árinu 1430. Þremur árum síðar, vorið 1433, var hann drepinn í Skálholti með öllum sveinum sínum sem náðist til. Þeir biskupsmenn sem ekki náðust, danskir og íslenskir menn, rændu ensku fiskiskipi og flúðu á því burt frá landinu. Um þetta er vitað vegna þess að til er umsókn frá eiganda skipsins til leyndarráðs Englandskonungs um að mega sigla til Íslands af því að ránsmennirnir hafi lofað að bæta sér tjónið þar. Þetta er eina samtímaheimildin um morð biskups, en frá því er síðan sagt í íslenskum annálum meira en hundrað árum yngri. Elstur er Gottskálksannáll, skráður á síðari hluta 16. aldar. Þar segir að Magnús kæmeistari (yfirbryti) í Skálholti, sem sumir segi hafa verið son Jóns biskups, hafi viljað ganga að eiga Margréti Vigfúsdóttur hirðstjóra en ekki fengið hennar. Þá hafi hann farið fyrir mönnum sem skutu Ívar, bróður Margrétar, til bana og brenndu bæ hans, Kirkjuból í Höfnum, en Margrét hafi sloppið úr brennunni. Hún hafi þá heitið því að giftast engum manni öðrum en þeim sem hefndi bróður síns. Þorvarður Loftsson hafi gert það með því að „deyða biskup Jón í Skálholti í Brúará.“ Þessi frásögn kemur heim við traustari heimildir að því leyti að Margrét Vigfúsdóttir hirðstjóra var kona Þorvarðs Loftssonar á Möðruvöllum í Eyjafirði, mikils jarðeignamanns.
Næstelsta frásögnin er í Biskupa-annálum Jóns Egilssonar sem hann skráði árið 1605. Þar er sveinum biskups kennt um fjandskap manna við hann og sagt að biskup hafi litlu ráðið fyrir þeim. Sveinarnir hafi tekið íslenska ríkismenn til fanga, haldið þeim nauðugum í Skálholti og látið þá berja harðfisk, sem þótti meðal lítilmótlegustu starfa. Meðal þeirra hafi verið Þorvarður Loftsson og Teitur Gunnlaugsson sem var líka þekktur stóreignamaður og átti eftir að verða lögmaður. Þeir hafi sloppið vegna þess að gæslumenn þeirra drukku sig fulla á páskum og týndu lyklunum að fjötrum þeirra. Vinnukona á staðnum fann þá og fékk föngunum. Þeir sammæltust um að gera árás á Skálholt í hefndarskyni, handtóku biskup í kirkjunni, stungu honum í poka, bundu stein við og hentu honum í Brúará sem rennur skammt frá staðnum. Sveina biskups hafi þeir drepið með vopnum í kirkjunni eftir því sem náðist til þeirra. Vinnukonan sem hafði fundið lyklana fékk 20 hundraða jörð fyrir og var gift ríkum manni, segir Jón Egilsson.
570 árum áður en þessi mynd var tekin var Jóni Gerrekssyni biskup í Skálholti drekkt í Brúará. Skálholt sést í bakgrunni lengst til vinstri en Brúará er í forgrunni.
Í Íslandssögu var þessi frásögn lengi túlkuð sem dæmi um ókosti þess fyrir landsmenn að hafa útlenda menn yfir sér. „Jón Gerreksson er einna illræmdastur erlendra ævintýrabiskupa sem hér sátu,“ skrifaði Þórleifur Bjarnason í námsbók handa börnum. En um leið og þjóðernishyggja fór að dvína í íslenskri sagnfræði á síðari hluta 20. aldar var tekið að leita annarra skýringa á morði biskups. Skarphéðinn Pétursson, guðfræðingur og síðar prestur, hélt því fram í grein árið 1959 að Eiríkur konungur hljóti að hafa staðið að baki því vegna þess að forystumenn árásarliðsins, Þorvarður og Teitur, hafi aldrei hlotið neina refsingu fyrir og annar þeirra jafnvel fengið lögmannsstöðu. Ekki vissi Skarphéðinn hvað biskup hefði unnið til saka við konung. En á 15. öld voru Englendingar umsvifamiklir á Íslandi, fiskuðu mikið við landið og keyptu skreið af landsmönnum, oft í leyfisleysi konungs því að konungsvaldið vildi halda viðskiptum við skattlönd Noregskonungs í höndum kaupmanna innan konungsríkisins. Giskar Skarphéðinn á að biskup hafi verið staðinn að einhverju leynimakki við Englendinga í trássi við konung.
Björn Þorsteinsson hélt fyrirlestur um biskupsmorðið á norrænu sagnfræðingaþingi í Uppsölum 1974 og færði rök að því að Englendingar hefðu staðið á bak við morðið til að styrkja verslunarhagsmuni sína á Íslandi. Á Hólum sat þá enskur biskup, Jón Vilhjálmsson Craxton, og vitað er að hann stóð í verslunarviðskiptum við enska kaupmenn hér á landi. Báðir foringjar árásarliðsins samkvæmt íslenskum annálum, Þorvarður og Teitur, komu norðan úr biskupsdæmi hans. Eftir fall Jóns Gerrekssonar fékk Jón Craxton veitingu fyrir Skálholtsstóli, þótt hann kæmist aldrei til að nýta sér hana. Björn gekk ekki svo langt að saka hann beinlínis um að hafa látið myrða embættisbróður sinn, en hann gefur það sterklega í skyn. Refsileysi morðingjanna skýrir Björn meðal annars með því að Eiríkur konungur hrökklaðist frá völdum árið 1436, og mikill misbrestur var á því á þessum árum að dönsk stjórnvöld hefðu stjórn á málum á Íslandi.
Guðrún Ása Grímsdóttir vann upp úr ófullgerðu efni eftir Björn Þorsteinsson um þetta tímabil í Sögu Íslands. Kaflann þar sem saga Jóns Gerrekssonar er rakin frumsamdi hún og hafði efasemdir um túlkun Björns, og Skarphéðins Péturssonar, á dauða biskups. Hún skrifaði: „[E]f til vill er óþarfi að leita ráðbana hans í útlöndum. Hefðarklerkar jafnt sem embættismenn konungs og ríkisbændur riðu með alvopnuð sveinalið um héruð á Íslandi og beittu oddi og egg til þess að ná undir sitt vald jörðum og góssi …“. Og á það verður að fallast að í rauninni er engin heimild til þess að eigna neinum öðrum en Íslendingum morðið á biskupi. Íslensku annálunum ber saman um að komið hafi upp heiftarleg rimma á milli íslenskra stórbokka og sveinaliðs biskups, þótt þeir segi ólíkar sögur af tildrögum hennar. En einmitt það að tildrögum rimmunnar er lýst svona ólíkt í Gottskálksannál og Biskupa-annálum sýnir að þetta er ekki ein og sama sagan; um þetta hljóta að hafa gengið ólík munnmæli, og það bendir til að sá kjarni sagnanna sem er sameiginlegur sé sannur, meðal annars að morðin í Skálholti hafi verið hefnd fyrir misgerðir biskupssveina við íslenska yfirstéttarmenn.
Þegar fræðimenn hafa túlkað aftöku Jóns Gerrekssonar sem lið í millilandadeilum stafar það kannski að einhverju leyti af því að þeim hafi þótt ótrúleg bíræfni af Íslendingum að taka sjálfan Skálholtsbiskup af lífi. En þess verður að gæta að þetta gerðist á miklu niðurlægingarskeiði kaþólsku kirkjunnar í Evrópu vegna sundrungar og spillingar innan hennar. Mikinn hluta aldarinnar á undan höfðu páfarnir haft aðsetur í Avignan í Frakklandi og verið afar háðir Frakkakonungum. Á árabilinu 1378–1415 höfðu setið bæði í Róm og Avignon menn sem töldu sig páfa og bannfærðu hvor annan á víxl. Þótt Íslendingar væru fjarri þessum sviptingum hafa þær spillt virðingu kirkjunnar hér sem annars staðar.
Heimildir
Björn Þorsteinsson: Á fornum slóðum og nýjum. Greinasafn gefið út í tilefni sextugsafmælis höfundar 20. mars 1978. Reykjavík, Sögufélag, 1978.
Björn Þorsteinsson: „Samtíðarheimild um fall Jóns biskups Gerrekssonar komin í leitirnar.“ Saga VIII (1970), 297–98.
Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir: „Enska öldin.“ Með viðaukum eftir Sigurð Líndal. Saga Íslands V (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1990). 1–216.
Gunnar Karlsson og sagnfræðinemar Háskóla Íslands: Samband við miðaldir. Námsbók í íslenskri miðaldasögu, um 870–1550, og sagnfræðilegum aðferðum. Reykjavík, Mál og menning, 1989.
Skarphéðinn Pétursson: „Um Jón Gerreksson.“ Skírnir CXXXIII (1959), 43–80.
Þórleifur Bjarnason: Íslandssaga I. Fjórða prentun. Reykjavík, Námsgagnastofnun, 1984.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju var Jón Gerreksson biskup drepinn og hver var þar að verki?“ Vísindavefurinn, 25. febrúar 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63596.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2013, 25. febrúar). Af hverju var Jón Gerreksson biskup drepinn og hver var þar að verki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63596
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju var Jón Gerreksson biskup drepinn og hver var þar að verki?“ Vísindavefurinn. 25. feb. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63596>.