Hversu gamalt er og hvað merkir orðið gyðingur? Er samsvarandi orð um júða til í öðrum tungumálum? Geri ráð fyrir að orðið júði samsvari jew eða Jude.Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvers vegna er orðið júði niðrandi? Í dönsku og þýsku eru notuð nauðalík orð um gyðinga sem ekki eru niðrandi.
Júði ‘gyðingur’ er tökuorð í íslensku ættað úr miðlágþýsku, jude, jode, jodde. Það orð er aftur fengið úr latínu jūdaeus sem komið er úr hebresku Jehūdî ‘maður af Júdaættkvísl’. Í dönsku er orðið jøde, í þýsku Jude, í ensku jew og eiga þau öll sama upprunann. Neikvæða merkingin í júði á líklegast rætur að rekja til þess að gyðingar sem stunduðu viðskipti víða um heim á síðari öldum, þóttu erfiðir viðfangs, nískir okurkarlar og efnuðust oft vel. Þetta litu aðrir hornauga og farið var að nota jew, jøde, júði í neikvæðum tón um kaupsýslumenn af gyðingaættum. Hin neikvæða merking sem Jude fékk í Þýskalandi á árunum milli stríða og í síðari heimsstyrjöldinni er af öðrum toga og var tímabundin. Hún náði yfir allt fólk af gyðingaættum, ekki aðeins kaupsýslumenn.
Hér sjást krossfarar sveifla sverðum yfir gyðingum. Myndin er úr franskri Biblíu frá miðri 13. öld.
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, Orðabók Háskólans, Reykjavík, 1989.