- Timbur. Það er gífurleg eftirspurn eftir harðviði í heiminum og mikið af honum kemur úr regnskógum. Því miður eru mörg dæmi um að regnskógaviður rati inn í íslenskar timburverslanir og þar með inn á íslensk heimili og í aðrar byggingar. Í sumum tilfellum gerir fólk sér ekki grein fyrir því hvernig timbur það er að selja og kaupa og því er gott að vera vel á verði og kanna uppruna alls timburs og pappírs sem er keyptur. Ef vörurnar eru merktar sem Forest Stewardship Council (FSC) er yfirleitt hægt að treysta því að þær séu ekki úr regnskógaharðviði heldur úr sjálfbærum skógum. Svonefndur grænþvottur er mjög algengur í dag en þá eru vörur auglýstar sem umhverfisvænar þrátt fyrir að vera það ekki. Þess vegna er nauðsynlegt að fylgjast vel með og passa hvað maður kaupir.
- Pálmaolía. Olíupálmi (Elaeis guineensis) er fljótvaxinn hitabeltispálmi upprunninn frá Vestur- og Suðvestur-Afríku. Einn hektari af olíupálma gefur af sér um 3000 kg af pálmaolíu og 250 kg af pálmakjarnaolíu. Þessar afurðir eru í dag notaðar í mikinn hluta af því sem fólk á Vesturlöndum, og í vaxandi mæli í Asíu, notar og kaupir á hverjum degi, til að mynda í snyrtivörur, sápur, súkkulaði, brauð, kökur, kex, eldsneyti og fleira. Pálmaolía er ein ódýrasta olían á markaðinum í dag. Eftirspurn eftir henni hefur aukist mikið undanfarna áratugi og til þess að anna henni ryðja menn mikið af landi regnskóganna. Í dag er langmestur hluti pálmaolíu á markaðnum ósjálfbær og valdur að eyðingu regnskóga. Flestir yrðu hissa á því hve hátt hlutfall af uppáhaldsvörunum þeirra hefur einhvern tímann valdið regnskógaeyðingu. Margir fela sig bak við samtökin Roundtable on Sustainable Palm Oil en þau eru því miður þekkt fyrir að gefa út falskar vottanir og hafa því brugðist hlutverki sínu, að minnsta kosti eins og staðan er í dag. Það er því mikilvægt að forðast þær vörur sem innihalda pálmaolíu og senda athugasemdir á þá aðila sem selja þær. Annað vandamál tengt pálmaolíu er að hún er oft ekki merkt á umbúðir, stundum stendur bara jurtaolía og ómögulegt að átta sig á því hvaða olía átt er við. Það er því nauðsynlegt að þrýsta á að pálmaolía sé rétt merkt á vöruumbúðum.
- Soja. Sojabaunir eru upprunnar í Austur-Asíu. Í dag er ræktun á sojabaunum sívaxandi vandamál í hitabeltisregnskógum af sömu ástæðum og pálmaolían. Miklu minna af soja fæst á hvern hektara miðað við pálmaolíu og sojaplönturnar sjálfar eru margfalt smærri en olíupálmarnir. Stór hluti soja sem framleiddur er í heiminum er framleiddur í Bandaríkjunum og eyðir því ekki regnskógum en mest allt soja sem framleitt er í Suður-Ameríku fer í fóður sem notað er í kjötframleiðslu um allan heim. Í regnskógum Suður-Ameríku er að mestu notað erfðabreytt afbrigði sem þolir illgresiseyði. Allt líf á sívaxandi plantekrunum er því drepið með skordýra- og illgresiseyði og eftir standa ófrjósamar sojaplantekrur. Örugg leið til að koma í veg fyrir að menn borði soja sem hefur verið ræktað á regnskógalandi er að hætta að borða kjöt af skepnum sem hafa fengið sojafóður. Kjöt af skepnum sem fær gras eða fóður úr heimabyggð ætti að vera öruggt en það sakar ekki að spyrjast fyrir. Það er því nauðsynlegt að lesa innihaldslýsingar og finna út hvar sojabaunirnar hafa verið ræktaðar.
- Forest Stewardship Council - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 9.01.2014).
- FSC Forest Stewardship Council ® · Home (Skoðað 09.01.2014).
- Elaeis guineensis - Wikipedia, the free encyclopedia (Skoðað 09.01.2014).
- Soybean - Wikipedia, the free encyclopedia (Skoðað 09.01.2014).
- Deforestation in the Democratic Republic of the Congo - Wikipedia, the free encyclopedia (Skoðað 09.01.2014).
- http://www.flickr.com/photos/phuonglovejesus2782010/5729248188/ (Skoðað 09.01.2014).