Út á hvað gengur þetta með að láta til skarar skríða? Hver er uppruni máltækisins „að láta til skarar skríða“?Nafnorðið skör hefur fleiri en eina merkingu, til dæmis ‘rönd, brún, kantur, pallbrún, sköruð súð á bát ... ’. Orðasambandið að láta til skarar skríða ‘leggja til atlögu við einhvern, láta koma til úrslita’ kemur fyrir í fornu máli, til dæmis í Svarfdæla sögu en þar segir í 28. kafla (stafsetningu breytt):
Þegar byri gaf, siglir Karl til Írlands og hefir frétt af, hvar Skíði var; hann hafði þá unnið undir sig mikinn hluta af Írlandi. Karl kom þar að landi, sem Skíði var fyrir; hann var þá genginn á land að berjast við Íra og ætlaði, að þá skyldi til skarar skríða með þeim. (ÍF IX:205).Elsta dæmi úr síðari alda máli er samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans frá 17. öld úr Morðbréfabæklingi Guðbrands biskups Þorlákssonar:
vilda eg heldur það skyldi skríða til skarar en að liggja niðri.Þarna er merkingin að ‘útkljá e-ð’. Í Ritmálssafninu eru ýmsar gerðir af orðasambandinu, til dæmis e-ð er til skarar gengið, e-ð skríður til skara, láta e-ð skríða til skara en sú algengasta í yngra máli allt frá miðri 19. öld er að láta til skarar skríða.
- HH 1969 = Halldór Halldórsson. Íslenzkt orðtakasafn. II I–Ö. Íslenzk þjóðfræði. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- ÍF IX = Svarfdæla saga. Íslensk fornrit. IX bindi. Eyfirðinga sögur. Jónas Kristjánsson gaf út. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík MCMLVI [1956].
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Önnur útgáfa. Aukin og endurbætt. Mál og menning, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 4.1.2023).
- Mynd: GetArchive. (Sótt 19.2.2023).