Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sigg er húð sem orðið hefur þykk og hörð vegna núnings, þrýstings eða ertingar. Nánar tiltekið er hér um að ræða þykknun á hyrnislagi yfirhúðarinnar. Það myndast til að vernda vefi sem liggja dýpra í húðinni. Ef núningurinn er mikill myndast blaðra frekar en sigg. Sigg á fótum myndast oftast við miklar göngur eða ef skór passa ekki vel á fæturna. Sigg er ekki hættulegt en getur stundum leitt til sýkinga eða sára.
Líkþorn er sérstök gerð af siggi sem vex í keilulaga formi með oddinn inn í fótinn. Þau eru yfirleitt mun minni að umfangi en venjulegt sigg en jafnframt þykkari. Ólíkt siggi sem sjaldan veldur óþægindum geta líkþorn verið sársaukafull. Til eru bæði hörð og mjúk líkþorn. Hörð líkþorn eru oftast smá og myndast þar sem er að finna þétta, harða húð – svæði þar sem húðin er þykk eða sigg hefur myndast. Þau eru algengust á ilinni þar sem hún er þykkust og mestur þungi líkamans hvílir á, og á beinaberum svæðum ofan á tám, til dæmis utan á litlutá þar sem hún nuddast utan í skó. Mjúk líkþorn eru gjarnan hvít á lit og eru gúmmíkennd en ekki hörð. Þau myndast aðallega á mjúkum, sveittum stöðum, oftast á húðinni milli táa, gjarnan á milli fjórðu og fimmtu táar.
Hörð líkþorn eru algengust á ilinni þar sem húðin er þykkust og mestur þungi líkamans hvílir á og á beinaberum svæðum ofan á tám, til dæmis utan á litlutá. Mjúk líkþorn myndast oftast á húðinni milli táa.
Líkþorn og sigg eru algengari meðal kvenna en karla. Helsta orsök myndunar siggs og líkþorna er skór sem passa illa en of þröngir skór eða saumar í skóm eða sokkum geta valdið miklum núningi sem getur endað með þessum afleiðingum. Fótavandamál eins og hamartá eða beinútbunganir geta einnig aukið hættu á myndun siggs og líkþorna. Það sama gildir um þá sem standa mikið við vinnu sína.
Líkþorn „batnar“ ekki án ráðstafana eða hverfur að sjálfu sér. Til að losna við sigg og líkþorn er mælt með því að heimsækja fótaaðgerðafræðing sem kann að meðhöndla slíkt. Einnig er hægt að fá mjúk innlegg í skó, hlífar yfir tær og táspelkur í apótekum. Þá eru til svokölluð vörtumeðul sem leysa upp siggið. Þau innihalda öll virka efnið salisýlsýru sem leysir upp prótínið hyrni sem er aðaluppistaðan í bæði siggi og líkþornum. Þessi efni koma í mismunandi formi - áburði, dropum, plástrum og púðum. Ef þau eru notuð samkvæmt leiðbeiningum verður líkþornið á endanum mjúkt og hvítt en þá er auðvelt að fjarlægja dauðu húðina lag fyrir lag. Það er þó ekki mælt með því að fólk sem er með sykursýki noti efni sem innihalda salisýlsýru.
Ekki er ráðlagt að hamast mikið á siggi heima við með þartilgerðum steini eða raspara, því fylgir ávallt hætta á sýkingu. Ef sýking kemur fram ber alltaf að leita til læknis. Í sumum tilfellum er líkþorn skorið burt með skurðaðgerð. Til þess að ná árangri er hins vegar mikilvægt að finna út hvað það er sem veldur myndun líkþornsins, hvort sem það er þrýstingur, núningur eða eitthvað annað, og komast fyrir orsökina því annars er alltaf hætta á að líkþornið myndist aftur.
Stundum myndast líkþorn á fingrum. Það er erfiðara að átta sig á hvað veldur myndun þeirra en endurtekin notkun verkfæra, hljóðfæra eða áhalda sem valda þrýstingi á tiltekið svæði húðar, getur leitt til myndunar þeirra.
Heimildir og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað eru líkþorn og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn, 17. apríl 2013, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63113.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2013, 17. apríl). Hvað eru líkþorn og hvað veldur þeim? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63113
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað eru líkþorn og hvað veldur þeim?“ Vísindavefurinn. 17. apr. 2013. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63113>.