Ég heiti Máni og er 8 ára. Mig langar til að vita hvers vegna mér verður kalt þegar ég kem upp úr sundlauginni. Amma segir að þið vitið allt.Það er nú ekki skrýtið að þér skuli verða kalt þegar þú kemur upp úr sundlauginni. Vatn í sundlaugum hér á Íslandi er nokkuð heitt eða 25-30°C og þá er átt við sundlaugarvatnið sem fólk syndir í. Vatnið í barnalaugum er enn heitara eða um 35°C. Lofthitinn hér á landi er aftur á móti oftast á bilinu 0-15°C og því eru það mikil viðbrigði fyrir líkamann að koma upp úr heitri lauginni í kalt loftið. Áhrifin eru enn meiri ef það er vindur eins og oft vill verða á eyjunni okkar. Þá verður kælingin nefnilega örari.
En aðalástæðan fyrir því að manni verður kalt þegar komið er upp úr vatni er samt sú að húðin kólnar þegar vatn á yfirborði hennar gufar upp. Til þess að vatn gufi upp þarf mikla orku. Sú orka kemur meðal annars frá líkama okkar og við þennan orku- eða varmaflutning kólnar okkur. Þess vegna getur okkur líka orðið kalt þegar við komum upp úr volgum sjó í sjóðheitt loft í sólarlöndum þó að loftið sé þá oft hlýrra en sjórinn. En einmitt þess vegna hlýnar okkur fljótt aftur þar sem sólin og loftið eru fljót að hita okkur upp. Nánar er hægt að lesa um varmaflutning í öðrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis:
- Ef ég væri staddur úti í hita, gæti ég þá sett flösku ofan á blautt handklæði til að kæla hana? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig stendur á því að við brennum okkur á 80-100°C heitu vatni en getum setið í jafnheitu gufubaði án þess að brenna okkur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hver eru áhrif hita og kulda á mannslíkamann? eftir Stefán B. Sigurðsson
- Er ekki til vindhitun þegar lofthiti fer yfir 37 stig, líkt og vindkæling annars? eftir Stefán B. Sigurðsson og Þorstein Vilhjálmsson