Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar er Örtugadalur sem einnig er nefndur Örskotsteigadalur og hvaðan koma örnefnin?

Svavar Sigmundsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Örskotsteigadalur eða Örtugadalur er lítið dalverpi sem gengur út úr Galtardal á Fellsströnd í Dalasýslu.

Nafnið Örtugadalur er þekkt úr eldri heimild en Örskotsteigadalur, það er úr riti Árna Magnússonar Chorographica Islandica frá byrjun 18. aldar þar sem hann er að lýsa ýmsum reiðleiðum: „Oddrúnarbrekkur upp hjá Krossdal á Skarðsströnd og ofan Örtugadal út úr Galtardal.“ (90). Örskotsteigadalur kemur fyrst fyrir í falsbréfi um landamerki Galtardalstungu um 1775: Ørskotzteigadalsgil (DI XIII:401). (Sjá Einar G. Pétursson 1992: 32).

Í lýsingu Hvammsprestakalls 1839 er dalverpið nefnt Örtugardalur (Dalasýsla, 83) og í sóknarlýsingu Skarðsþinga frá 1846 segir Friðrik Eggerz: „Örtugadalur er nú kallaður þar sem áður hér Örskotsteigadalur“ (Dalasýsla, 117). Í landamerkjalýsingu Litla-Galtardals í Landamerkjabók Dalasýslu 1884 er nafnið Örskotsteigadalur. Þannig er nafnið einnig á kortum. Nafnið er enn í dag, samkvæmt tilkynningu um fjallskil 2008, Örskotsteigadalur, „2. leit Klofningsfjall að Örskotsteigadal“ (Álagning fjallskila á Fellsströnd 2008).

Í örnefnalýsingu frá 1929 er eingöngu nefndur Örskotsteigadalur: „Örskotsteigadalur að norðanverðu liggur undir Litla-Galtardal; hann er girtur hamrabeltum, og er víða illt uppgöngu.“ (Ólafur Guðfinnsson, Örnefnaskrá 1929) en í örnefnalýsingu 1953 segir Gestur Sveinsson þetta: „Dalurinn og gilið er þó aldrei kallað fullu nafni. Það þykir of erfitt að bera það allt fram, og er því venjulegast sagt Örtugadalur (14) og Örtugadalsgil (15).“ Gestur Guðfinnsson drepur á þetta í Árbók Ferðafélagsins 1977:
En það örnefnið sem olli kannski mestum heilabrotum og vangaveltum með heimamönnum í Galtardal á sínum tíma var nafn á afdal sem verður norðaustur úr aðaldalnum: Örskotsteigadalur. Örtugadalur í daglegu tali. En niðurstaða fékkst aldrei í því máli. (53)
Svavar Gestsson alþingismaður tók málið upp í svarbréfi við fyrirspurnum Örnefnastofnunar 1992 og segir þar:
Dalurinn heitir í daglegu tali Örtugadalur. Mér var sagt vestra að dalurinn héti Örskotsteigadalur. Ég hef alltaf talið að það heiti væri skýringartilraun, og ég hef með sjálfum mér lengi giskað á að hið rétta nafn sé Örkotsteigadalur en ekki Örskotsteigadalur. … Það má geta þess um dal þennan að hann er eiginlega falinn í fjöllunum séð frá dalbæjunum tveimur, það er svo sem eitt örskot að komast þangað. Kindin sem hleypur frá túninu í Litla-Galtardal týnist á örskotsstundu. En þar gæti líka verið örkot. Svo mikið er að minnsta kosti víst að enginn íbúi sveitarinnar skilur orðið Örtugadalur sem gæti þó verið rétta nafnið! (Bréf til Örnefnastofnunar 11. des. 1992).

Á kortinu sést Örskotsteigadalur.

Orðið örkot er ekki þekkt úr heimildum, aðeins örreytiskot! Ekki er heldur vitað til að þarna hafi verið búseta.

Spurningin er enn opin: hvort er upprunalegra í örnefninu, örskot(steigur) eða örtug? Hvort er Örtugadalur stytting á hinu eða Örskotsteigardalur lenging á Örtugadal? Ólíklegt er að Örtugadalur sé stytting á Örskotsteigardalur. Þá hefði s-ið átt að haldast í styttra nafninu. Því er líklegra að Örtugadalur sé upphaflegra nafn.

Orðið örskot var sem mælieining 240 faðmar, samkvæmt Grágás. Teigur af þessari lengd hefði þá átt að vera í dalnum. Annars er orðið örskotsteigur ekki til í heimildum og ólíklegt er að sláttuteigur hafi verið í dalnum þar sem undirlendi er lítið. (Munnleg heimild: Einar G. Pétursson). Teigur getur þó líka merkt ‚grasgeiri í fjalli‘. (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989).

Orðið örtug merkti '1/3 eyris' að fornu (Baugatal Grágásar). Í Jónsbók er einungis talað um örtug í ákvæðum sem tekin voru upp úr norskum lögum. Á 14. og 15. öld er örtug metið á „20 vegna penninga“ sem kemur heim og saman við norskt verðgildi. Örtug virðist annars ekki hafa verið notað hérlendis að neinu marki, sem Jakob Benediktsson telur stafa af því að mynt hafi yfirleitt í litlum mæli verið notuð hér á landi (KLNM 21, d. 19). Í Alþingisbók frá 1636 er dæmt í sök „til 13 marka og 8 örtuga“ (Alþingisbækur V:435). Í dómi yfir Mála-Snæbirni á Mýraþingi 1729 er sökunautur dæmdur til að greiða sömu sekt, „átta örtygi og þrettán mörk“ (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1960:82).

Hugsanlegt er að Örtugadalur merki dal sem leigður var til beitar og með örtug sé átt við leigugreiðsluna. Í Jarðabók Árna og Páls er talað um að ábúendur í Innri-Galtardal leyfi „stundum nokkrum mönnum lamba upprekstur á sumardag og þiggja betalíng fyrir“ (114). Hér er að vísu átt við Stóra-Galtardal en ekki Litla-Galtardal. Í Noregi er til bæjarnafnið Ørtugen í Verdal. Þar er það talið eiga við verðeiningu fyrir landskuld. (Oluf Rygh, Norske Gaardnavne 15:140).

Ástæðan fyrir því að nafnið Örtugadalur hélst ekki sem opinbert nafn gæti verið að orðið örtug var sjaldgæft hér á landi og hefur því snemma orðið fyrir endurtúlkun. Ör- hefur orðið örskot og -tug að teig í máli manna, tveir liðir sem gefa merkingu hvor um sig þó að orðið örskotsteigur sé ekki þekkt annars staðar. En upphaflega nafnið hefur þó lifað meðfram í daglegu tali manna.

Heimildir:
  • Alþingisbækur Íslands V. Reykjavík 1922, 1925-1932.
  • Árni Magnússon: Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2. Reykjavík 1955.
  • Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók. VI. bindi. Kaupmannahöfn 1938.
  • Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 5. ár 1960.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
  • Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Einar G. Pétursson sá um útgáfuna. Reykjavík 2003.
  • DI = Íslenskt fornbréfasafn XIII. Reykjavík 1933-1939.
  • Einar G. Pétursson: Fellsstrandarhreppur. Afmælisrit Búnaðarfélags Fellsstrandarhrepps. Ritstj. Einar G. Pétursson, Halldór Þ. Þórðarson. 1992.
  • Heggstad, Leiv, Finn Hødnebø, Erik Simensen: Norrøn ordbok. 3. utg. Oslo 1975.
  • KLNM = Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder. 21. København 1977.
  • Rygh. Oluf: Norske Gaardnavne 15. Kristiania 1903.


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Svavar Sigmundsson

fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar

Útgáfudagur

10.4.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Svavar Sigmundsson. „Hvar er Örtugadalur sem einnig er nefndur Örskotsteigadalur og hvaðan koma örnefnin?“ Vísindavefurinn, 10. apríl 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62956.

Svavar Sigmundsson. (2013, 10. apríl). Hvar er Örtugadalur sem einnig er nefndur Örskotsteigadalur og hvaðan koma örnefnin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62956

Svavar Sigmundsson. „Hvar er Örtugadalur sem einnig er nefndur Örskotsteigadalur og hvaðan koma örnefnin?“ Vísindavefurinn. 10. apr. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62956>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar er Örtugadalur sem einnig er nefndur Örskotsteigadalur og hvaðan koma örnefnin?
Örskotsteigadalur eða Örtugadalur er lítið dalverpi sem gengur út úr Galtardal á Fellsströnd í Dalasýslu.

Nafnið Örtugadalur er þekkt úr eldri heimild en Örskotsteigadalur, það er úr riti Árna Magnússonar Chorographica Islandica frá byrjun 18. aldar þar sem hann er að lýsa ýmsum reiðleiðum: „Oddrúnarbrekkur upp hjá Krossdal á Skarðsströnd og ofan Örtugadal út úr Galtardal.“ (90). Örskotsteigadalur kemur fyrst fyrir í falsbréfi um landamerki Galtardalstungu um 1775: Ørskotzteigadalsgil (DI XIII:401). (Sjá Einar G. Pétursson 1992: 32).

Í lýsingu Hvammsprestakalls 1839 er dalverpið nefnt Örtugardalur (Dalasýsla, 83) og í sóknarlýsingu Skarðsþinga frá 1846 segir Friðrik Eggerz: „Örtugadalur er nú kallaður þar sem áður hér Örskotsteigadalur“ (Dalasýsla, 117). Í landamerkjalýsingu Litla-Galtardals í Landamerkjabók Dalasýslu 1884 er nafnið Örskotsteigadalur. Þannig er nafnið einnig á kortum. Nafnið er enn í dag, samkvæmt tilkynningu um fjallskil 2008, Örskotsteigadalur, „2. leit Klofningsfjall að Örskotsteigadal“ (Álagning fjallskila á Fellsströnd 2008).

Í örnefnalýsingu frá 1929 er eingöngu nefndur Örskotsteigadalur: „Örskotsteigadalur að norðanverðu liggur undir Litla-Galtardal; hann er girtur hamrabeltum, og er víða illt uppgöngu.“ (Ólafur Guðfinnsson, Örnefnaskrá 1929) en í örnefnalýsingu 1953 segir Gestur Sveinsson þetta: „Dalurinn og gilið er þó aldrei kallað fullu nafni. Það þykir of erfitt að bera það allt fram, og er því venjulegast sagt Örtugadalur (14) og Örtugadalsgil (15).“ Gestur Guðfinnsson drepur á þetta í Árbók Ferðafélagsins 1977:
En það örnefnið sem olli kannski mestum heilabrotum og vangaveltum með heimamönnum í Galtardal á sínum tíma var nafn á afdal sem verður norðaustur úr aðaldalnum: Örskotsteigadalur. Örtugadalur í daglegu tali. En niðurstaða fékkst aldrei í því máli. (53)
Svavar Gestsson alþingismaður tók málið upp í svarbréfi við fyrirspurnum Örnefnastofnunar 1992 og segir þar:
Dalurinn heitir í daglegu tali Örtugadalur. Mér var sagt vestra að dalurinn héti Örskotsteigadalur. Ég hef alltaf talið að það heiti væri skýringartilraun, og ég hef með sjálfum mér lengi giskað á að hið rétta nafn sé Örkotsteigadalur en ekki Örskotsteigadalur. … Það má geta þess um dal þennan að hann er eiginlega falinn í fjöllunum séð frá dalbæjunum tveimur, það er svo sem eitt örskot að komast þangað. Kindin sem hleypur frá túninu í Litla-Galtardal týnist á örskotsstundu. En þar gæti líka verið örkot. Svo mikið er að minnsta kosti víst að enginn íbúi sveitarinnar skilur orðið Örtugadalur sem gæti þó verið rétta nafnið! (Bréf til Örnefnastofnunar 11. des. 1992).

Á kortinu sést Örskotsteigadalur.

Orðið örkot er ekki þekkt úr heimildum, aðeins örreytiskot! Ekki er heldur vitað til að þarna hafi verið búseta.

Spurningin er enn opin: hvort er upprunalegra í örnefninu, örskot(steigur) eða örtug? Hvort er Örtugadalur stytting á hinu eða Örskotsteigardalur lenging á Örtugadal? Ólíklegt er að Örtugadalur sé stytting á Örskotsteigardalur. Þá hefði s-ið átt að haldast í styttra nafninu. Því er líklegra að Örtugadalur sé upphaflegra nafn.

Orðið örskot var sem mælieining 240 faðmar, samkvæmt Grágás. Teigur af þessari lengd hefði þá átt að vera í dalnum. Annars er orðið örskotsteigur ekki til í heimildum og ólíklegt er að sláttuteigur hafi verið í dalnum þar sem undirlendi er lítið. (Munnleg heimild: Einar G. Pétursson). Teigur getur þó líka merkt ‚grasgeiri í fjalli‘. (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989).

Orðið örtug merkti '1/3 eyris' að fornu (Baugatal Grágásar). Í Jónsbók er einungis talað um örtug í ákvæðum sem tekin voru upp úr norskum lögum. Á 14. og 15. öld er örtug metið á „20 vegna penninga“ sem kemur heim og saman við norskt verðgildi. Örtug virðist annars ekki hafa verið notað hérlendis að neinu marki, sem Jakob Benediktsson telur stafa af því að mynt hafi yfirleitt í litlum mæli verið notuð hér á landi (KLNM 21, d. 19). Í Alþingisbók frá 1636 er dæmt í sök „til 13 marka og 8 örtuga“ (Alþingisbækur V:435). Í dómi yfir Mála-Snæbirni á Mýraþingi 1729 er sökunautur dæmdur til að greiða sömu sekt, „átta örtygi og þrettán mörk“ (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1960:82).

Hugsanlegt er að Örtugadalur merki dal sem leigður var til beitar og með örtug sé átt við leigugreiðsluna. Í Jarðabók Árna og Páls er talað um að ábúendur í Innri-Galtardal leyfi „stundum nokkrum mönnum lamba upprekstur á sumardag og þiggja betalíng fyrir“ (114). Hér er að vísu átt við Stóra-Galtardal en ekki Litla-Galtardal. Í Noregi er til bæjarnafnið Ørtugen í Verdal. Þar er það talið eiga við verðeiningu fyrir landskuld. (Oluf Rygh, Norske Gaardnavne 15:140).

Ástæðan fyrir því að nafnið Örtugadalur hélst ekki sem opinbert nafn gæti verið að orðið örtug var sjaldgæft hér á landi og hefur því snemma orðið fyrir endurtúlkun. Ör- hefur orðið örskot og -tug að teig í máli manna, tveir liðir sem gefa merkingu hvor um sig þó að orðið örskotsteigur sé ekki þekkt annars staðar. En upphaflega nafnið hefur þó lifað meðfram í daglegu tali manna.

Heimildir:
  • Alþingisbækur Íslands V. Reykjavík 1922, 1925-1932.
  • Árni Magnússon: Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2. Reykjavík 1955.
  • Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók. VI. bindi. Kaupmannahöfn 1938.
  • Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 5. ár 1960.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
  • Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Einar G. Pétursson sá um útgáfuna. Reykjavík 2003.
  • DI = Íslenskt fornbréfasafn XIII. Reykjavík 1933-1939.
  • Einar G. Pétursson: Fellsstrandarhreppur. Afmælisrit Búnaðarfélags Fellsstrandarhrepps. Ritstj. Einar G. Pétursson, Halldór Þ. Þórðarson. 1992.
  • Heggstad, Leiv, Finn Hødnebø, Erik Simensen: Norrøn ordbok. 3. utg. Oslo 1975.
  • KLNM = Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder. 21. København 1977.
  • Rygh. Oluf: Norske Gaardnavne 15. Kristiania 1903.


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

...