Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Voru gerðar litlar styttur af Jóni Sigurðsyni t.d fyrir heimili (1944)?
Í tilefni þess að 200 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar árið 2011 og 50 ár frá stofnun Seðlabanka Íslands stóð Myntsafn Seðlabanka Íslands og Þjóðminjasafn í samvinnu við Myntsafnarafélag Íslands og Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar að sýningu í forsal Seðlabankans um opinbera mynd Jóns Sigurðssonar. Á þessari sýningu var brugðið upp sýnishornum af margvíslegum gripum sem bera mynd Jóns Sigurðssonar. Hins vegar var engin lítil stytta af Jóni Sigurðssyni á sýningunni. Eina litla styttan af Jóni sem gerð hefur verið í örfáum eintökum var á sama tíma til sýnis í Stofu Jóns Sigurðssonar í Þjóðmenningarhúsinu, Safnahúsinu við Hverfisgötu, skammt frá Seðlabankanum (1. mynd).
1. mynd. Þriðja tillaga Einars Jónssonar myndhöggvara frá 1911 er eina litla styttan af Jóni Sigurðssyni, sem gerð var í nokkrum eintökum. Afsteypan er í eigu Listasafns Einars Jónssonar og var til sýnis í Stofu Jóns Sigurðssonar í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.
Þegar til stóð að fagna aldarafmælis Jóns Sigurðssonar forseta 1911 var ákveðið að reisa honum veglegan minnisvarða. Stofnað var því til minnisvarðanefndar á vegum Alþingis. Einari Jónssyni myndhöggvara var falið verkið. Einar, sem þá var búsettur í Danmörku, sendi í ársbyrjun 1911 tvær tillögur til Íslands. Litlar afsteypur af þessum tillögum eru nú í vörslu Þjóðminjasafns og eru myndir af þeim að finna í riti Páls Björnssonar, Jón forseti allur? Að beiðni minnisvarðanefndarinnar kom Einar til landsins til að vinna að frekari gerð líkneskisins. Einar kom með nýja tillögu og var afsteypa af þessu líkneski höfð til sýnis í verslunarglugga í Ingólfshvoli í Hafnarstræti um skeið og gátu bæjarbúar kveðið sinn dóm um ágæti tillögunnar. Þetta varð Benedikt Þorvaldssyni Gröndal (1870-1934) að yrkisefni og birtist ljóð hans í Skírni sama ár: „Jón Sigurðsson. Hugleiðingar út af líkneski E. Jónssonar, því er sýnt var í búðarglugga í Reykjavík veturinn 1911“. Á þessari afsteypu réttir Jón fram hægri höndina og í einu erindi skáldsins segir:
Útrétt var höndin, lýðinn til að leiða Leiðir til sigurs – veginn til að greiða Kynslóðum yngri‘, ef kraft og vit ei brysti, Að keppa‘ að því marki‘, er setti‘ „Hinn mesti og fyrsti“.
Af þessu líkneski voru gerðar gifsafsteypur, en ekki er vitað um fjölda þeirra. Í grein sem Valtýr Stefánsson ritstjóri skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins 1951 birtir hann mynd af sams konar líkneski, sem þá var í eigu frú Borghildar Björnsson.
Ekki voru allir sáttir við þetta líkneski af Jóni og var Einari því falið að koma með nýja útfærslu á standmyndinni. Sú tillaga fékk náð fyrir augun minnisvarðanefndarinnar og gifsafsteypa af þessu líkneski, Forseta-minnisvarðanum, var svo höfð til sýnis í Alþingishúsinu í nokkra daga og lokið á hana miklu lofsorði (Óðinn 1911).
Þó engin lítil stytta hafi verið gerð af Jóni í tilefni lýðveldisstofnunarinnar 1944 þá gerði Gestur Þorgrímsson (1920-2003) myndhöggvari brjóstmynd af Jóni Sigurðssyni. Hún var höfð til sýnis í verslunarglugga bókabúðar KRON og seldist vel. Gestur bauð hana í tveimur stærðum, sú minni (2. mynd) var hugsuð fyrir heimili, en sú stærri fyrir skrifstofur eða samkomustaði (Þjóðviljinn 1944).
2. mynd. Brjóstlíkan Gests Þorgrímssonar myndlistarmanns af Jóni forseta 1944.
Hér skal og getið nokkurra lágmynda af Jóni Sigurðssyni sem framleiddar voru í misstóru upplagi af ýmsum aðilum í upphafi lýðveldistímans. Þjóðhátíðarnefndin 1944 sem stóð fyrir samkeppni um gerð minjagripa fól Guðmundi Einarssyni frá Miðdal (1895-1963) að gera þjóðhátíðarskjöld – lágmynd af Jóni Sigurðssyni, sem brenndur var í leir en einnig voru nokkur eintök eirhúðuð. (3. mynd).
3. mynd. Þjóðhátíðarskjöldur Guðmundar Einarssonar frá Miðdal.
Annar myndhöggvari, Guðmundur Elíasson (1925-1998), steypti stóran eirsköld með lágmynd af Jóni árið 1945 (4. mynd).
Ein algengasta lágmyndin, sem gerð var árið 1944, er gifsplatti úr gifsmunagerð Vagns Jóhannssonar (1906-1971) (5. mynd). Vagn sagði sjálfur, að hann hefði farið út í kirkjugarð og tekið afsteypu af lágmynd norska myndhöggvarans B. Bergsliens, sem er á leiði þeirra hjóna Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.
5. mynd. Gifsplatti Vagns Jóhannssonar.
Einn plattanna með lágmynd af Jóni lét Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn steypa í brons 1944, að undirlagi Einars Olgeirssonar (1902-1993), til að fagna lýðveldinu og fjármagna flokksstarfið (6. mynd).
6. mynd. Lýðveldisplatti Sósíalista var í þessum dúr.
Þær lágmyndir af Jóni Sigurðssyni sem hér er getið að framan tengjast allar stofnun lýðveldisins. Öðru hverju á undanförnum áratugum hafa komið fram nýjar gerðir af lágmyndum af Jóni, oftast byggðar á eldri lágmyndum en tilurð þeirra verður ekki rakin hér.
Eins og getið er hér í upphafi hafa ýmsir minjagripir verið framleiddir er bera mynd Jóns Sigurðssonar. Fyrir utan þá muni sem hér getið að fram má nefnda ýmsar útgáfur frímerkja, peningaseðla, myntar, barmmerkja og fleira, en hér verður látið staðar numið.
Heimildir og myndir:
Benedikt Þ. Gröndal 1911: Jón Sigurðsson. Hugleiðingar út af af líkneski E. Jónssonar, því er sýnt var í búðarglugga í Reykjavík veturinn 1911. Skírnir 85 ár; bls, 302-303.
Brjóstlíkan af Jóni Sigurðssyni 1944: Þjóðviljinn 128. tbl. bls 8.
Forsetaminnisvarðinn 1911: Óðinn, 7 ár. 1. blað, bls 8.
Páll Björnsson 2011: Jón Sigurðsson allur? Sögufélag Reykjavík. Myndir af fyrstu tveimur tillögum Einar Jónssonar í vörslu Þjóðminjasafns Íslands, bls. 128.
[Sigfús A. Schopka] 2011: Opinber mynd. {Sýningarskrá}. Myntsafnarafélag Íslands, Seðlabanki Íslands og Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar.
Valtýr Stefánsson 1951: Endurminningar frá 17. júní 1911. Þegar Íslendingar eignuðust þjóðhátíðardag. Lesbók Morgunblaðsins. 26. árg. 23. tbl. bls. 317-324.
Sigfús A. Schopka. „Voru gerðar litlar styttur af Jóni Sigurðssyni árið 1944?“ Vísindavefurinn, 17. júní 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62797.
Sigfús A. Schopka. (2019, 17. júní). Voru gerðar litlar styttur af Jóni Sigurðssyni árið 1944? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62797
Sigfús A. Schopka. „Voru gerðar litlar styttur af Jóni Sigurðssyni árið 1944?“ Vísindavefurinn. 17. jún. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62797>.