Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Við notum orð meðal annars til að tákna hluti og fyrirbæri í raunveruleikanum. Orðin hjálpa okkur að ná tökum á veröldinni.
Tökum lítið dæmi: Gunni og Geir búa saman og hafa gagn af því að nota orðin til að ræða málin og framkvæma hluti. Gunni segir við Geir: "Farðu með ruslapokann í ruslatunnuna," og Geir skilur hvað Gunni segir og fer með ruslapokann út i ruslatunnu. Ef hann gerði það ekki þá yrði kannski fýla á heimilinu innan tíðar.
Geir segir síðan við Gunna: "Þurrkaðu af borðinu," og Gunni gerir það án þess að mögla. Sambúð Geirs og Gunna gengur ágætlega af því að þeir nota tungumálið til að framkvæma nauðsynlega hluti á heimilinu.
En hvað gerðist nú ef Gunni og Geir færu að taka upp á því að vera ofurnákvæmir og nota mörg kórrétt hugtök yfir sömu hlutina?
Þegar Gunni biður Geir að fara út með ruslið í ruslatunnuna, hreyfir Geir hvorki legg né lið. Geir skoðaði nefnilega ruslatunnuna þegar hann kom heim og sá að hún var tóm. Hann er mótfallinn því að nota orðið ruslatunna yfir fyrirbærið sem stendur tómt fyrir neðan tröppurnar. Fyrir honum er það bara tunna. Hún verður ekki ruslatunna fyrr en rusl er komið í hana. Og það er kannski ekki ljóst að það megi setja rusl í tunnuna. Rusl á nefnilega bara að fara í ruslatunnur.
Sama á við þegar Geir biður Gunna að þurrka af borðinu eftir matinn. Hann gerir ekkert! Og af hverju? Jú fyrirbærið inni í eldhúsi er ekki lengur borð. Það var borð þegar þeir borðuðu við það en þar sem máltíðinni er lokið er það ekki lengur borð. Gunni getur þess vegna bara þurrkað af borðinu á meðan þeir eru að borða, en það eru ekki góðir borðsiðir!
Þessi saga af Geir og Gunna útskýrir fyrir okkur af hverju Geysir heitir enn þá Geysir þótt hann sé hættur að gjósa.
Það er nefnilega einfaldara fyrir okkur að kalla Geysi sama nafninu þótt hann gjósi ekki. Þá munum við líka eftir því að hann gaus einu sinni og tungumálið er gott tæki til að muna hluti.
Hvað ættum við til dæmis að kalla Geysi ef hann gýs stundum? Héti hann Geysir á því augnabliki sem hann gýs? Héti hann eitthvað annað þegar gosinu lyki? Til dæmis Gosloka-Geysir?
Hvað héti hann þegar gos væri í undirbúningi? Bráttgjósandi-Geysir? Hvað héti hann ef hann hætti að gjósa í mánuð? Lati-Geysir?
Þó að við viljum að tungumálið sé nákvæmt getur nákvæmnin farið út böndunum. Ef nákvæmnin flækir hlutina í stað þess að einfalda þá er best að sleppa henni. Þess vegna er eðlilegast og þægilegast fyrir okkur að kalla Geysi sínu nafni.
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju heitir Geysir enn sama nafni þótt hann gjósi ekki lengur?“ Vísindavefurinn, 6. október 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6267.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2006, 6. október). Af hverju heitir Geysir enn sama nafni þótt hann gjósi ekki lengur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6267
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju heitir Geysir enn sama nafni þótt hann gjósi ekki lengur?“ Vísindavefurinn. 6. okt. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6267>.