Íslenska fuglsheitið rjúpa er æði gamalt í málinu, kemur þegar fyrir á 13. öld, í Snorra-Eddu. En önnur heiti þessarar tegundar eru m.a. fjall(a)rjúpa, háfjallarjúpa, heiðarjúpa og snærjúpa. Á meðal rjúpnaskyttna er stundum notað orðið hvítlóa. Karlfuglinn er að auki nefndur hróker(r)i, karri, ker(r)i, rjúp(u)karri, rjúp(u)ker(r)i og ropkarri.Í grein Helga Hálfdanarsonar, „Kynferði orða“, sem birtist í Morgunblaðinu 6. júlí 1995 stendur:
Aftur á móti er tegundarheitið rjúpa kvenkyns og þá er kvenfuglinn einnig nefndur rjúpa, en karlfuglinn öðru heiti, karri, ef taka þarf fram að um karlkynið sé að ræða.Þá er kvenfuglinn einnig kölluð hæna líkt og algengt er með fugla af ættbálki hænsnfugla. Nokkur dæmi fundust þá um að hún væri nefnd kolla, meðal annars í grein Jochums M. Eggertssonar, „Rjúpur“ í Lesbók Morgunblaðsins frá 14. febrúar 1960. Eftirfarandi heiti eru þess vegna notuð um rjúpur:
- Bæði kyn: Rjúpa, fjall(a)rjúpa, háfjallarjúpa, heiðarjúpa og snærjúpa (og hvítlóa).
- Karlfugl: Karri, hrókeri, hrókerri, rjúp(u)keri, rjúp(u)kerri, rjúpkarri, ropkarri, keri og kerri.
- Kvenfugl: Rjúpa, hæna (og kolla).
- Vefútgáfa Íslenskrar orðabókar.
- „Rjúpan og þjóðtrúin“ eftir Sigurð Ægisson. Morgunblaðið 24. desember 2000.
- „Kynferði orða“ eftir Helga Hálfdanarson. Morgunblaðið 6. júlí, 1995.
- „Rjúpur“ eftir Jochum M. Eggertsson. Lesbók Morgunblaðsins 14. febrúar 1960.
- www.aves.is - Fuglaljósmyndun. (Sótt 25.06.2012). Myndina tók Jakob Sigurðsson og hún er birt á Vísindavefnum með góðfúslegu leyfi hans.