Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað felst í drengskaparheiti, hefur það til dæmis eitthvert gildi í ráðningarsamningi?

Maren Albertsdóttir

Hugtakið drengskaparheit er notað í lögfræði og merkir loforð gefið að viðlögðum drengskap. Drengskapur hefur sömu merkingu í lögfræði og í almennri málnotkun, það er veglyndi, göfuglyndi eða heiður. Ef einhver heitir einhverju við drengskap sinn þá heitir sá hinn sami því að drengskapur hans sé í hættu ef hann efnir ekki loforðið.

Þýðing þess að heita einhverju við drengskap sinn í samningum fer eftir atvikum hverju sinni. Í ráðningarsamningum eru svokölluð samkeppnisákvæði nokkuð algeng. Þau geta meðal annars falið í sér að starfsmanni sé óheimilt að starfa í ákveðinni starfsgrein í tiltekinn tíma og megi ekki starfa í samkeppni við viðkomandi fyrirtæki. Almennt má ætla að það hafi ekki grundvallarþýðingu hvort slíkt loforð sé gefið að viðlögðum drengskap eða ekki, heldur frekar orðalag og umfang skyldunnar sem starfsmaður gengst undir í ráðningarsamningi.

Í ráðningarsamningum, eins og öðrum samningum, þarf að hafa í huga að grunnregla íslensks samningaréttar er að samninga skuli halda. Jafnframt er mikilvæg meginreglan um samningsfrelsi en í henni felst meðal annars heimild vinnuveitanda til að semja við starfsmann um að hann ráði sig ekki í vinnu hjá öðrum í framhaldi af ráðningartímanum. Gert er ráð fyrir slíkum samningsákvæðum í lögum hér á landi, samanber 37. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þar eru jafnframt settar ákveðnar skorður þar sem kveðið er á um að við tilteknar aðstæður séu slík samningsákvæði óskuldbindandi, það er ef skuldbindingin er víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess er tók skylduna á herðar.

Almennt má ætla að í ráðningarsamningum hafi það ekki grundvallarþýðingu hvort loforð sé gefið að viðlögðum drengskap eða ekki, heldur frekar orðalag og umfang skyldunnar sem starfsmaður gengst undir í samningnum.

Fyrirtæki getur því stefnt starfsmanni ef það telur viðkomandi hafa brotið gegn samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi. Niðurstaða málsins fer eftir heildarmati dómsins á ráðningarsamningnum og atvikum hverju sinni. Dómstólar hér á landi hafa kveðið upp dóma þar sem slík samkeppnisákvæði teljast gild. Hins vegar hafa þeir einnig fellt slík ákvæði úr gildi í heild eða hluta ef þeir hafa talið þau víðtækari en ástæða er til. Niðurstaðan ræðst af ýmsum þáttum, til dæmis stöðu starfsmannsins hjá fyrirtækinu og hversu víðtækar skuldbindingarnar eru. Sem dæmi má nefna að ef starfsmaður hefur gegnt lykilstöðu í fyrirtæki og laun og önnur starfskjör tekið mið af því þá má ráða af dómum að hann geti þurft að sætta sig við víðtækari samningsákvæði en almennur starfsmaður.

Ef starfsmaður er talinn hafa brotið samkeppnisákvæði getur hann þurft að greiða fyrirtækinu bætur. Sífellt algengara er að sett séu inn í ráðningarsamninga ákvæði um févíti sem kveða á um að starfsmaður skuli greiða tiltekna fjárhæð ef hann brýtur samkeppnisákvæði samningsins. Dómstólar geta tekið mið af slíkum ákvæðum við fjárhæð bótanna að teknu tilliti til annarra atvika. Jafnframt getur verið litið til ávinnings starfsmanns af nýja starfinu eða stofnun fyrirtækis, launa hans sem og hagsmuna fyrirtækisins og þess tjóns sem það varð fyrir, svo dæmi sé tekið.

Þess má geta að hugtakið „drengskaparheit“ hefur ákveðna þýðingu í réttarfari þar sem það er notað yfir sérstaka staðfestingu vitnis á framburði þess fyrir dómi. Sú staðfesting er fólgin í því að vitnið leggur við drengskap sinn að hafa sagt satt og rétt frá fyrir dóminum. Drengskaparheit hefur í þessu sambandi sömu þýðingu og eiður að lögum. Eiður er notaður ef vitnið lýsir því yfir að það trúi á guð en annars drengskaparheit.

Heimildir:
  • Íslensk orðabók. Tölvutæk gerð: www.snara.is. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík 2007.
  • Lögfræðiorðabók með skýringum. Ritstjóri Páll Sigurðsson. Reykjavík 2008.
  • Páll Sigurðsson: Samningaréttur. Yfirlit um meginreglur íslensks samningaréttar. Reykjavík 1987.
  • Viðar Már Matthíasson: „Trúnaðarskyldan við gerð, framkvæmd og slit samninga“. Úlfljótur, 2 tbl. 2000, bls. 190-216.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svo:
Hver er lagaleg skilgreining á hugtakinu „drengskaparloforð“ eða „drengskaparheit“? Hefur það eitthvert gildi að gefa slíkt loforð í ráðningarsamningi þar sem kveðið er á um að starfsmaður megi ekki starfa í ákveðinni starfsgrein í tiltekinn tíma eða starfa í beinni samkeppni við fyrirtækið? Getur fyrirtæki stefnt starfsmanni fyrir brot á slíku ákvæði og ef svo er, hvaða afleiðingar getur það haft?

Höfundur

lögfræðingur

Útgáfudagur

25.4.2012

Spyrjandi

Ingunn Þóra

Tilvísun

Maren Albertsdóttir. „Hvað felst í drengskaparheiti, hefur það til dæmis eitthvert gildi í ráðningarsamningi?“ Vísindavefurinn, 25. apríl 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62336.

Maren Albertsdóttir. (2012, 25. apríl). Hvað felst í drengskaparheiti, hefur það til dæmis eitthvert gildi í ráðningarsamningi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62336

Maren Albertsdóttir. „Hvað felst í drengskaparheiti, hefur það til dæmis eitthvert gildi í ráðningarsamningi?“ Vísindavefurinn. 25. apr. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62336>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað felst í drengskaparheiti, hefur það til dæmis eitthvert gildi í ráðningarsamningi?
Hugtakið drengskaparheit er notað í lögfræði og merkir loforð gefið að viðlögðum drengskap. Drengskapur hefur sömu merkingu í lögfræði og í almennri málnotkun, það er veglyndi, göfuglyndi eða heiður. Ef einhver heitir einhverju við drengskap sinn þá heitir sá hinn sami því að drengskapur hans sé í hættu ef hann efnir ekki loforðið.

Þýðing þess að heita einhverju við drengskap sinn í samningum fer eftir atvikum hverju sinni. Í ráðningarsamningum eru svokölluð samkeppnisákvæði nokkuð algeng. Þau geta meðal annars falið í sér að starfsmanni sé óheimilt að starfa í ákveðinni starfsgrein í tiltekinn tíma og megi ekki starfa í samkeppni við viðkomandi fyrirtæki. Almennt má ætla að það hafi ekki grundvallarþýðingu hvort slíkt loforð sé gefið að viðlögðum drengskap eða ekki, heldur frekar orðalag og umfang skyldunnar sem starfsmaður gengst undir í ráðningarsamningi.

Í ráðningarsamningum, eins og öðrum samningum, þarf að hafa í huga að grunnregla íslensks samningaréttar er að samninga skuli halda. Jafnframt er mikilvæg meginreglan um samningsfrelsi en í henni felst meðal annars heimild vinnuveitanda til að semja við starfsmann um að hann ráði sig ekki í vinnu hjá öðrum í framhaldi af ráðningartímanum. Gert er ráð fyrir slíkum samningsákvæðum í lögum hér á landi, samanber 37. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þar eru jafnframt settar ákveðnar skorður þar sem kveðið er á um að við tilteknar aðstæður séu slík samningsákvæði óskuldbindandi, það er ef skuldbindingin er víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess er tók skylduna á herðar.

Almennt má ætla að í ráðningarsamningum hafi það ekki grundvallarþýðingu hvort loforð sé gefið að viðlögðum drengskap eða ekki, heldur frekar orðalag og umfang skyldunnar sem starfsmaður gengst undir í samningnum.

Fyrirtæki getur því stefnt starfsmanni ef það telur viðkomandi hafa brotið gegn samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi. Niðurstaða málsins fer eftir heildarmati dómsins á ráðningarsamningnum og atvikum hverju sinni. Dómstólar hér á landi hafa kveðið upp dóma þar sem slík samkeppnisákvæði teljast gild. Hins vegar hafa þeir einnig fellt slík ákvæði úr gildi í heild eða hluta ef þeir hafa talið þau víðtækari en ástæða er til. Niðurstaðan ræðst af ýmsum þáttum, til dæmis stöðu starfsmannsins hjá fyrirtækinu og hversu víðtækar skuldbindingarnar eru. Sem dæmi má nefna að ef starfsmaður hefur gegnt lykilstöðu í fyrirtæki og laun og önnur starfskjör tekið mið af því þá má ráða af dómum að hann geti þurft að sætta sig við víðtækari samningsákvæði en almennur starfsmaður.

Ef starfsmaður er talinn hafa brotið samkeppnisákvæði getur hann þurft að greiða fyrirtækinu bætur. Sífellt algengara er að sett séu inn í ráðningarsamninga ákvæði um févíti sem kveða á um að starfsmaður skuli greiða tiltekna fjárhæð ef hann brýtur samkeppnisákvæði samningsins. Dómstólar geta tekið mið af slíkum ákvæðum við fjárhæð bótanna að teknu tilliti til annarra atvika. Jafnframt getur verið litið til ávinnings starfsmanns af nýja starfinu eða stofnun fyrirtækis, launa hans sem og hagsmuna fyrirtækisins og þess tjóns sem það varð fyrir, svo dæmi sé tekið.

Þess má geta að hugtakið „drengskaparheit“ hefur ákveðna þýðingu í réttarfari þar sem það er notað yfir sérstaka staðfestingu vitnis á framburði þess fyrir dómi. Sú staðfesting er fólgin í því að vitnið leggur við drengskap sinn að hafa sagt satt og rétt frá fyrir dóminum. Drengskaparheit hefur í þessu sambandi sömu þýðingu og eiður að lögum. Eiður er notaður ef vitnið lýsir því yfir að það trúi á guð en annars drengskaparheit.

Heimildir:
  • Íslensk orðabók. Tölvutæk gerð: www.snara.is. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík 2007.
  • Lögfræðiorðabók með skýringum. Ritstjóri Páll Sigurðsson. Reykjavík 2008.
  • Páll Sigurðsson: Samningaréttur. Yfirlit um meginreglur íslensks samningaréttar. Reykjavík 1987.
  • Viðar Már Matthíasson: „Trúnaðarskyldan við gerð, framkvæmd og slit samninga“. Úlfljótur, 2 tbl. 2000, bls. 190-216.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svo:
Hver er lagaleg skilgreining á hugtakinu „drengskaparloforð“ eða „drengskaparheit“? Hefur það eitthvert gildi að gefa slíkt loforð í ráðningarsamningi þar sem kveðið er á um að starfsmaður megi ekki starfa í ákveðinni starfsgrein í tiltekinn tíma eða starfa í beinni samkeppni við fyrirtækið? Getur fyrirtæki stefnt starfsmanni fyrir brot á slíku ákvæði og ef svo er, hvaða afleiðingar getur það haft?

...