Þessar hreyfingar á jarðskorpunni verða því til þess að með tíð og tíma rofnar samband eldfjallanna við uppruna sinn, það er kvikuframleiðsluna, og þau kólna hægt og rólega niður.Það nýja berg sem kemur upp í gosbeltunum rekur til austurs og vesturs. Af þeim sökum má finna elsta berg á Íslandi á Austfjörðum og Vestfjörðum og er það um 14-16 milljóna ára gamalt. Það kann að virðast hár aldur en í raun er Ísland með jarðfræðilega yngstu löndum heims. Með elstu virku eldfjöllum landsins eru Öræfajökull og Snæfellsjökull. Snæfellsjökull gaus síðast áður en land byggðist, eða fyrir um 2200 árum. Síðasta gos í Öræfajökli var árið 1727 og þar áður árið 1362. Gosið 1362 var einstaklega stórt og lagði nálæga sveit í eyði. Sveitin hét áður Litla-Hérað en heitir nú Öræfasveit. Höfundur þakkar Níelsi Erni Óskarssyni, sérfræðingi hjá Jarðvísindastofnun Háskólans, fyrir veittar upplýsingar. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hversu gamlir eru mismunandi hlutar Íslands? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvað er vitað um eldstöðina í Öræfajökli? eftir Ármann Höskuldsson.
- Hvað eru miklar líkur á því að Snæfellsjökull gjósi? eftir Pál Einarsson.
- Hvaða hlutar Reykjavíkur væru í hættu ef flóðbylgja kæmi vegna eldgoss í Snæfellsjökli? eftir Ármann Höskuldsson.
- Stækkar Ísland að flatarmáli vegna landreks eða minnkar það vegna sjávarrofs? eftir Sigurð Steinþórsson.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.