
Lengi vel voru tíðir í íslensku taldar átta en nú telja málfræðingar tíðirnar aðeins tvær, nútíð og þátíð.
1. a) Ég les bók (núna) (nt.) b) Ég las bók (í gær) (þt.) c) Ég les bók (á morgun) (frt.)Eins og sést í dæmum 1 a)-c) eru aðeins tvær myndir sagnarinnar að lesa, les og las, en tíminn sem þær tákna er þrenns konar; nútíð (eitthvað sem gerist núna), þátíð (eitthvað sem hefur gerst) og framtíð (eitthvað sem á eftir að gerast). Auðvitað getum við gert annars konar grein fyrir tíma í íslensku. Það gerum við til dæmis með því að nota hjálparsagnir, sem eru ýmist í nútíð eða þátíð, auk aðalsagnar sem getur staðið í ýmsum háttum (nafnhætti, lýsingarhætti og svo framvegis).
2. a) Ég hef lesið bók (nt. + lh. þt.) b) Ég hafði lesið bók (þt. + lh. þt.) c) Ég mun lesa bók (nt. + nh.)Eins og sést eru hjálparsagnirnar ýmist í nútíð (hef, mun) eða þátíð (hafði). Aðalsagnirnar eru hins vegar í lýsingarhætti þátíðar (lesið) í dæmum 2 a)-b) en í nafnhætti í dæmi 2 c). Þetta er það sem kallað hefur verið núliðin tíð (2a), þáliðin tíð (2b) og framtíð (2c). Nú má spyrja hvort það þjóni einhverjum tilgangi að „þvinga“ íslensku að kerfi annarra mála, eins og til dæmis latínu, og hvort það auki skilning okkar og þekkingu á eiginleikum hennar. Ef nemendur eru meðvitaðir um að íslenskar sagnir hafi einungis tvær ólíkar tíðir, en að annars konar tímaskynjun sé táknuð með öðru móti, ættu þeir að geta nýtt sér þá þekkingu þegar þeir leggja stund á annað tungumálanám. Fyrir áhugasama má benda á tvær greinar eftir Höskuld Þráinsson:
- Höskuldur Þráinsson. Hvað eru margar tíðir í íslensku og hvernig vitum við það? (í Íslensku máli 1999: 181-224).
- Höskuldur Þráinsson. Um nafngiftir hjálparsagnasambanda (í Íslensku máli 2001: 229-252).
- Guðrún Kvaran. Íslensk tunga II (2005).
- Björn Guðfinnsson. Íslensk málfræði (til dæmis 5. útgáfa frá 1958).
- Looking Into The Past Project | funny pictures at Demotivational Posters | Funny Pictures | Funny signs. (Sótt 26.04.2012).
Hvers vegna er ekki kennd meiri málfræði í íslensku við framhaldsskóla? Þá á ég við til dæmis skildagatíð, atburðaþátíð, lýsingaþátíð og fleira. Myndi það ekki gagnast fólki sem hyggst læra önnur mál, til dæmis spænsku eða frönsku?