Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiHvaða þýðingu hefur það að haka í reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“ á skattframtali?
Þeir sem haka í reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“ á skattframtali í byrjun árs teljast slysatryggðir við heimilisstörf.
Kveðið er á um slysatryggingu við heimilisstörf í 30. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Þar segir að þeir sem stundi heimilisstörf geti tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá í skattframtal í byrjun hvers árs ósk þar að lútandi. Nánar er kveðið á um hvað felst í umræddri tryggingu í reglugerð nr. 670/2012, um slysatryggingar við heimilisstörf.
Huga þarf að nokkrum atriðum við afmörkun á því hvað getur fallið undir slysatryggingu við heimilisstörf. Í því sambandi þarf meðal annars að skoða hvar slysið átti sér stað, hvernig það kom til og við hvaða störf.
Þeir sem haka í reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“ á skattframtali í byrjun árs teljast slysatryggðir við heimilisstörf. Heildarmat þarf að fara fram á atvikum hverju sinni þegar metið er hvort réttur til slysabóta sé til staðar.
Slysatryggingin nær til heimilisstarfa sem innt eru af hendi hér á landi á heimili hins tryggða og í sumarbústað þar sem hinn tryggði dvelur. Sama á við um heimilisstörf sem stunduð eru í bílskúr, geymslum, afmörkuðum garði og í innkeyrslu umhverfis heimili eða sumarbústað hins tryggða.
Heimilisstörf eru í þessu sambandi skilgreind sem eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða:
Hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif.
Umönnun sjúkra, aldraðra og barna.
Viðhaldsverkefni og viðgerðir.
Hefðbundin garðyrkjustörf.
Ákveðin slys eru sérstaklega undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf en það eru annars vegar slys sem hinn tryggði verður fyrir við ýmsar persónulegar daglegar athafnir sem ekki teljast til hefðbundinna heimilisstarfa, svo sem að klæða sig, baða og borða. Hins vegar falla slys sem hinn tryggði verður fyrir á ferðalögum, svo sem í tjaldi, hjólhýsi og á hóteli utan tryggingarinnar.
Jafnframt skal hafa í huga að „slys“ er sérstaklega skilgreint í reglugerð nr. 670/2012. Með slysi er þar átt við „skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans“. Eins og leiða má af orðalagi þess hefur það töluvert þrengri merkingu hér en í almennri málnotkun. Tryggingaverndin nær því ekki til allra atvika, óhappa eða meiðsla sem geta átt sér stað við heimilisstörf. Almennt er þá miðað við að atvik þurfi að vera óviðkomandi tjónþola og eiga rót að rekja til aðstæðna eða atvika sem eru fyrir utan líkama tjónþola sjálfs. Sem dæmi má nefna að ef maður fellur um stól við að skúra og meiðist gæti slíkt fallið undir slysahugtakið. Ef maður hins vegar misstígur sig við skúringarnar og meiðist, án þess að nokkur utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað eða valdið því, gæti slíkt fallið utan tryggingaverndar. Hins vegar þarf heildarmat að fara fram á atvikum hverju sinni þegar metið er hvort réttur til slysabóta sé til staðar. Maður sem slasast við skúringar getur mögulega átt rétt á bótum úr slysatryggingunni þar sem hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif, falla undir trygginguna. Réttur til slysabóta getur því skapast í slíkum tilfellum ef önnur skilyrði tryggingarverndar eru uppfyllt.
Tryggingaverndin nær ekki til allra atvika. Sem dæmi má nefna að ef maður fellur um stól við að skúra og meiðist gæti slíkt fallið undir slysahugtakið. Ef maður hins vegar misstígur sig við skúringarnar og meiðist, án þess að nokkur utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað eða valdið því, gæti slíkt fallið utan tryggingaverndar.
Þess má geta að þær reglur sem hér hafa verið raktar byggja á nýrri reglugerð nr. 670/2012, um slysatryggingar við heimilisstörf, sem tók gildi 1. ágúst 2012. Með henni var tryggingavernd aukin og öll viðhaldsstörf og viðgerðir í og við heimili, sem ekki eru liðir í atvinnustarfsemi, felld undir slysatrygginguna. Áður féllu eingöngu einföld og almenn viðhaldsverkefni undir trygginguna. Einnig var gerð sú breyting að ekki er útilokað að athafnir eins og símsvörun og það að sækja póst falli undir trygginguna, séu önnur skilyrði tryggingaverndar uppfyllt. Um slys sem áttu sér stað fyrir 1. ágúst 2012 gildir eldri reglugerð sem veitir ekki eins rúman rétt til slysabóta.
Að lokum má benda á að slys skal tilkynna til Sjúkratrygginga Íslands og þarf tilkynning að hafa borist innan árs frá því slys varð. Með tilkynningu um slys þarf að fylgja læknisvottorð vegna slyss, það er áverkavottorð, frá fyrsta lækni sem leitað var til eftir slys.
Slysatryggingin gildir frá 1. ágúst það ár sem skattframtali er skilað til 31. júlí árið eftir enda hafi skattframtalinu verið skilað til skattayfirvalda innan lögbundins frests. Ekki er unnt að óska eftir slysatryggingu við heimilisstörf eftir að skattayfirvöld hafa móttekið skattskýrslu.
Heimildir:
Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. (Skoðað 19.11.2012).
Reglugerð nr. 670/2012, um slysatryggingar við heimilisstörf. (Skoðað 19.11.2012).
Reglugerð nr. 280/2005, um slysatryggingar við heimilisstörf. (Skoðað 19.11.2012).
Álit umboðsmanns Alþingis frá 15. mars 2012 í máli nr. 6539/2011. (Skoðað 19.11.2012).
Hvaða þýðingu hefur það að haka í reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“ á skattframtali? Ef við tökum dæmi um mann sem er að skúra og rennur til og brýtur sig.
Maren Albertsdóttir. „Hvaða þýðingu hefur það að haka í reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“ á skattframtali?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2012, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62084.
Maren Albertsdóttir. (2012, 21. nóvember). Hvaða þýðingu hefur það að haka í reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“ á skattframtali? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62084
Maren Albertsdóttir. „Hvaða þýðingu hefur það að haka í reitinn „slysatrygging við heimilisstörf“ á skattframtali?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2012. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62084>.