Ísland byggðist fyrst úr Norvegi á dögum Haralds hins hárfagra, Halfdanarsonar hins svarta, í þann tíð ... er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung; en það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans.Íslendingabók, samin um 1130, er elsta heimild okkar um að Haraldur hárfagri hafi verið konungur í Noregi. Sögur Noregskonunga sem ritaðar voru á 12.-14. öld höfðu fyrir satt að Haraldur hafi sameinað Noreg í eitt ríki. Eldri frásagnir af Haraldi voru tiltölulega knappar og fáorðar, en síðan tók sagan á sig fyllri mynd. Sú saga af Haraldi sem líklega er kunnust almenningi kemur fyrir í fjórum sögum: Hinni sérstöku Ólafs sögu helga, Heimskringlu, Egils sögu og Þætti af Haraldi Dofrafóstra í Flateyjarbók. Haraldur birtist ekki í ritheimildum fyrr en 250 árum eftir að hann er sagður hafa sameinað Noreg og rýrir það heimildargildi sagnaritunar um hann. Á svo löngum tíma geta sögur breyst og skekkst, svo erfitt getur verið að meta hvað sé satt og hvað logið. En hvaða kjarni getur þá verið að baki frásögnum um Harald hárfagra? Hvaða eldri heimildir eru til sem persóna Ara fróða gæti verið byggð á? Haraldur er nefndur í tveimur dróttkvæðum: Haraldskvæði og Glymdrápu. Á þessum heimildum eru þrír veigamiklir gallar. Í fyrsta lagi eru þær ekki varðveittar nema sem hluti af konungasögum og því ekki óháðar heimildir. Í öðru lagi er uppruni kvæðanna óljós og gætu þau verið samsett úr mörgum kvæðum, jafnvel eftir ólíka höfunda. Haraldskvæði, sem fræðimenn á 20. öld telja eina heild, er til dæmis eignað mismunandi höfundum í mismunandi sögum eða jafnvel í sömu sögunni. Í þriðja lagi er erfitt að túlka kvæðin nema með hliðsjón af konungasögunum. Í kvæðunum kemur í raun ekki annað fram um Harald hárfagra en nafnið og að hann hafi verið konungur. Í sögu Vilhjálms frá Malmesbury um Englandskonunga er nefndur „Haroldus quidam, rex Noricorum“. Rit Vilhjálms er frekar ungt, samið um svipað leyti og Íslendingabók Ara fróða, en það er þó óháð heimild fyrir því að í upphafi 10. aldar hafi verið til Noregskonungur sem nefndist Haraldur.
Haraldur Hárfagri tekur við konungdómi. Úr Flateyjarbók.
- Var óánægjan með Harald hárfagra eina ástæðan fyrir landnámi Íslands? eftir Gunnar Karlsson.
- Hvað eru hálfdanarheimtur? eftir Guðrúnu Kvaran
- Image:Flateyjarbok Haraldr Halfdan.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Upphaflega fengið hjá Stofnun Árna Magnússonar.
- Boulhosa, Patricia Pires 2005. Icelanders and the Kings of Norway. Mediaeval Sagas and Legal Texts. The Northern World. North Europe and the Baltic, c. 400-1700 AD. Peoples, Economies and Cultures, 17 (Leiden-Boston, 2005).
- Fidjestøl, Bjarne, „ Skaldekvad og Harald Hårfagre“,Rikssamlingen og Harald Hårfagre. Historisk seminar på Karmøy 10. og 11. juni 1993 (Karmøy kommune 1993).
- Jesch, Judith, „Norse Historical Traditions and the Historia Gruffud vab Kenan: Magnús berfœttr and Haraldr hárfagri,“ Grufudd ap Cynan. A Collaborative Biography. Studies in Celtic History, 16, ritstj. K. L. Maund (Woodbridge, Suffolk, 1996), 117–47.
- Krag, Claus, „Norge som odel i Harald Hårfagres ætt. Et møte med en gjenganger,“ Historisk tidsskrift, 3 (1989), 288–302.
- Kreutzer, Gert, „Das Bild Harald Schönhaars in der altisländischen Literatur,“ Studien zum Altgermanischen. Festschrift für Heinrich Beck. Ergänzungsbände zum Reallexikon der Germanischen Altertumskunde, 11 ritstj. Heiko Uecker (Berlin-New York, 1994), 443–461.
- Sawyer, Peter H., „Harald Fairhair and the British Isles,“ Les Vikings et leurs civilisations. Problèmes actuels, ritstj. Régis Boyer. École des hautes études en sciences sociales. Bibliothèque Arctique et Antararctique, 5, (París, 1976), 105–109.
- Sverrir Jakobsson, „„Erindringen om en mægtig Personlighed“: Den norsk-islandske historiske tradisjon om Harald Hårfagre i et kildekritisk perspektiv“, Historisk tidsskrift, 81 (2002), 213-30.
- Sverrir Jakobsson, „Óþekkti konungurinn. Sagnir um Harald hárfagra“, Ný saga, 11 (1999), 38–53.
- Sverrir Jakobsson, „Yfirstéttarmenning eða þjóðmenning? Um þjóðsögur og heimildargildi í íslenskum miðaldaritum“, Úr manna minnum. Greinar um íslenskar þjóðsögur, ritstj. Baldur Hafstað og Haraldur Bessason (Reykjavík, 2002), 449-61.
Hver var Haraldur hárfagri? Var hann ekki norskur, heldur Haraldur harði? Eða var hann bara ekki til heldur uppspuni Snorra Sturlusonar?