Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vissulega er hægt að nota orðið þverfaglegt án þess að skýra það frekar. Í sumum tilvikum gæti útskýring jafnvel spillt fyrir, til dæmis ef einhver vildi nota orðið til að slá um sig í þeirri von að viðmælendur vissu ekki hvað orðið þýddi. En vilji maður nota það til að gera sig skiljanlegan þá er eins víst að útskýring þurfi að fylgja, því orðið virðist notað í afar margvíslegri merkingu.
Á vef Háskóla Íslands segir á einum stað: „Við Háskóla Íslands er í vaxandi mæli hægt að stunda svokallað þverfaglegt nám sem er samsett úr námsgreinum sem kenndar eru í samstarfi fleiri en einnar deildar eða skorar.“ Hér er það því skipulag Háskólans, en ekki námið sem slíkt, sem gerir tiltekið nám þverfaglegt.
Á vef ReykjavíkurAkademíunnar stendur að tilgangur hennar sé meðal annars: „að vera aflvaki fræðilegra rannsókna og miðlunar þeirra, með sérstakri áherslu á þverfaglegar rannsóknir“. Hér virðist það vera inntak rannsóknanna sem gerir þær þverfaglegar frekar en skipulag þeirrar stofnunar sem hýsir fræðimennina.
Sumarið 2005 komu Dorthe Højland og hljómsveit til Hornafjarðar og héldu hljómleika þar. Hljómleikarnir voru kynntir sem „þverfaglegt verkefni milli náttúruljósmynda og djasstónlistar“. Hér virðist þverfaglegt eðli verkefnisins ráðast af hinum ólíku miðlum: Tónlist og ljósmyndum.
Raunar er ekkert orð skiljanlegt óháð samhengi. Hæglega má hugsa sér samhengi þar sem hvaða orð sem er þarfnast sérstakrar útskýringar; jafnvel rótgróin og hversdagsleg orð geta þannig tekið á sig nýja merkingu.
Litlaus græn hugmynd?
Bandaríski málvísindamaðurinn Noam Chomsky gaf eitt sinn dæmi um setningu sem væri örugglega merkingarlaus. Hún er svona: „Litlausar grænar hugmyndir sofa tryllingslega“ (e. colorless green ideas sleep furiously).
Í fljótu bragði verður ekki séð hvernig nokkuð geti í senn verið bæði grænt og litlaust, hvað þá að hugmyndir hafi þessa eiginleika. Enn síður virðist nokkurt vit í því að hugmyndir sofi, eða að þær sofi tryllingslega.
Í námskeiði um sköpunarmátt mannlegs máls tók Þorsteinn Gylfason þessa setningu sem prýðilegt dæmi um lifandi og kvika merkingu orða. „Getur ekki verið“ sagði Þorsteinn, „að þessar litlausu grænu hugmyndir séu fremur daufar hugmyndir græningja, sem liggja lengst af í dvala en brjótast svo upp á yfirborðið endrum og sinnum og þá með miklum látum? Mætti ekki segja um slíkar hugmyndir að þar svæfu litlausar grænar hugmyndir tryllingslega?“
Meðferð Þorsteins á dæmi Chomskys sýnir að jafnvel hversdagslegt orð eins og „grænt“ getur þurft á útskýringu að halda. Og þá skyldi nú engan undra þótt orð eins og „þverfaglegt“ þurfi að styðjast við skýringar endrum og sinnum. Ef vel er að gáð er jafnvel skilgreining á hvað sé „fag“ frekar óljós, enn síður er ljóst hvers vegna fag eins og umhverfisfræði er sagt vera „þverfaglegt“ á meðan annað fag, til dæmis fornleifafræði, er ekki þverfaglegt og sækir fornleifafræðin þó í mörg önnur fög.
Mynd:Green Idea. Flickr.com. Höfundur myndar er Rishon-lezion. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
Ólafur Páll Jónsson. „Er hægt að nota orðið "þverfaglegt" án allra útskýringa?“ Vísindavefurinn, 13. september 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6187.
Ólafur Páll Jónsson. (2006, 13. september). Er hægt að nota orðið "þverfaglegt" án allra útskýringa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6187
Ólafur Páll Jónsson. „Er hægt að nota orðið "þverfaglegt" án allra útskýringa?“ Vísindavefurinn. 13. sep. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6187>.