
Grundartangi. Sýrumannavik hefur af kortum að dæma verið þar sem uppfyllingin endar lengst til hægri á myndinni.

Mysa eða sýra þótti góður svaladrykkur fyrr á tímum.
Munnmæli herma, að bændur úr Hvalfirði hafi eitt sinn brotið bát sinn og farist þar allir, þegar þeir voru að koma með sýru til Innra-Hólms. Einnig var að sögn tíðkað af Suðurnesjamönnum að koma í land á þessum slóðum og kaupa sýru (sbr. einnig Sýrumannavik í Klafastaðalandi og Sýrupart í Skaganum). (bls. 44-45)Í örnefnalýsingu Klafastaða segir að utan við Sýrumannavik sé smá klettarið og utanhallt við það Lending, beint niður af gamla Grundarbænum. Það styður þá sögn að sýrukaup og sýruflutningar hafi átt sér stað á þessum slóðum að lending er nærri Sýrumannavikinu. Það er því ekki eingöngu örnefnaskýringasaga sem hér er á ferð. Við Sundahöfn í Reykjavík er enn stakur klettur sem nefndur var Sýruklettur eða aðeins Klettur. Árni Óla blaðamaður skrifaði um hann í Lesbók Morgunblaðsins 5. okt. 1969 og fjallar þar um mjólkursýru almennt og sýruker, og segir meðal annars:
Sýran var líka verzlunarvara og fengu bændur gott verð fyrir hana. Var það ekkert smáræði af sýru sem flutt var árlega úr sveitum til verstöðvanna. Fengu bændur hana venjulega goldna með fiskæti. (bls. 14)Það gæti því vel staðist að sýrumenn væru til dæmis Suðurnesjamenn að sækja sér sýru til bænda í Skilmannahreppi. Önnur örnefni þar sem „menn“ koma við sögu eru, til dæmis Síldarmannagötur og Sölvamannagötur, þar sem flutningur á varningi er annars vegar. Gunnlaugur Haraldsson gefur sjálfur aðra skýringu á Sýrumanna-örnefninu, þar sem hann telur hugsanlegt að Akurnesingar hafi kallað enska fiskimenn, sem stunduðu skreiðarkaup í flestum verstöðvum við Faxaflóa á 15. og 16. öld, „sýrumenn“ vegna orðsins shire (skíri), sem þeim hafi verið tamt að nota (bls. 431). Þessari skýringu verður að taka með miklum fyrirvara og líta á sem hverja aðra hugdettu. Heimildir:
- Árni Óla 1969. Sýruklettur. Lesbók Morgunblaðsins 5. október.
- Gunnlaugur Haraldsson 2011. Saga Akraness I. Frá landnámstíð til 1700. Akranesi.
- Íslandsatlas. Reykjavík 2006.
- Íslensk orðabók Eddu. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík 2005.
- Orðabók um slangur. Ritstjóri Mörður Árnason o.fl. Reykjavík 1982.
- Þjóðviljinn 1973. Timarit.is.
- Örnefnaskrá Klafastaða í Skilmannahreppi. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- kryr.blogcentral.is/blog/2006/2/23/humm/.
- Mynd frá Grundartanga: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. Sótt 15.03.2012.
- Mysa: Vefur mjólkursamsölunnar. Sótt 15.03.2012.
Örnefnið Sýrumannavík er skammt vestan við Grundartanga. Hverjir voru þessir sýrumenn?