Þá fóru menn og konur í ýmsa leiki úti. Var byrjað á “Fram, fram, fylking, forðum okkur hættu frá” o.s.frv. Sá leikur var þá nýþekktur þar.Á 19. öld, áður en texti Ara breiddist út léku Reykjavíkurbörn leikinn við afbökun á danska textanum. Enn eldri er þó leikurinn sjálfur: að tvö börn taki saman báðum höndum og hin marseri undir hendurnar í halarófu þangað til einn er fangaður. Þess háttar leikir eru þekktir víða, og má sem dæmi nefna enska leikinn “London Bridge”. Textarnir “Bro bro brille” og “London Bridge” eiga það sameiginlegt að í þeim er minnst á brú, og í fleiri Evrópulöndum hafa textar um brú fylgt þessum leik, til dæmis “Ziege durch die goldne Bröke” í Þýskalandi og “Is de steenen brug gemaakt” í Hollandi. Í samræmi við það voru leikir af þessu tagi oft kallaðir brúarleikir. Hægt er að rekja þá til 16. aldar að minnsta kosti. Sennilega hefur leikurinn sprottið af því að algengt var að menn þyrftu að greiða toll til þess að fá að fara yfir brýr. Í leiknum er tollurinn greiddur með einum af mönnunum sem fara yfir brúna. Það styrkir þessa skýringu að samkvæmt bók Thyregod, Børnenes Leg (1907), er beinlínis spurt: “Har I Bropenge” (Hafið þið brúarpeninga?) í dönsku gerðinni af leiknum, og hinir svara með því að bjóða fram þann síðasta í röðinni, “annars fáið þið ekkert”. Í textanum “Fram, fram fylking” er ekkert minnst á brú, en hann er líka miklu yngri en erlendu textarnir. Fyrr á öldum tíðkaðist hins vegar leikur á Íslandi sem kallaður var brúarleikur og hófst á orðunum “Flyttu mig yfir brú brú breiða”. Hann virðist ekki hafa verið sunginn, en textinn var engu að síður í bundnu máli. Samkvæmt lýsingum virðist brúarleikur hafa verið mjög líkur leiknum “Fram, fram fylking”, en notað var band í stað handanna. Brúarleikur er meðal annars nefndur í Crymogæu-þýðingu frá 17. öld og Jón Ólafsson frá Grunnavík (1705–1779) hefur hann í orðabók sinni frá miðri 18. öld. Í bók Ólafs Davíðssonar (1862-1903) og Jóns Árnasonar (1819-1888), Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur má finna ýmsar gerðir af brúarleik og Jón Árnason segir skemmtilega þjóðsögu um uppruna leiksins. Samkvæmt henni á leikurinn að hafa orðið til þegar Jón Loftsson í Odda átti í illdeilum við Þorlák biskup helga á 12. öld. Jón sat þá einhverju sinni fyrir biskupi við brú nokkra. Lét hann tvo menn sína strengja band yfir brúarsporðinn og áttu þeir að hleypa fylgdarmönnum biskups undir bandið, en bregða því utan um biskup þegar hann nálgaðist og handsama hann. Helstu heimildir og mynd:
- Ásmundur Helgason. Á sjó og landi. Reykjavík 1949.
- Bach Goldberg Variations. Richard Egarr, semball. Geislaplata útg. hjá Harmonia mundi 2006.
- Halldóra Bjarnadóttir. Kvæði og leikir handa börnum. Kristjaníu 1917.
- Holst, Elling og Nielsen, Eivind. Norsk Billedbok for Barn. Osló 1888, 1945.
- Jón Ólafsson úr Grunnavík. Orðabókarhandrit. 433 fol. Afrit varðveitt hjá Orðabók Háskólans.
- Opie, Iona og Peter. The Singing Game. Oxford og New York 1985.
- Ólafur Davíðsson og Jón Árnason. Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur I-IV. Kaupmannahöfn 1887-1903.
- Thyregod, S.T. og O. Børnenes Leg. Gamle danske Sanglege. Kaupmannahöfn 1907.
- Una Margrét Jónsdóttir. Allir í leik I. Reykjavík 2009.
- Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Sótt 19. 1. 2012.
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn?