Bílduhóll er bær á Skógarströnd í Snæfellssýslu, í daglegu tali nefndur Bíldhóll. (Bílduhvoll DI III:286 og víðar). Jörðin er nefnd í gjafabréfi frá árinu 1374. Í örnefnaskrá sem Lúðvík Kristjánsson skráði stendur: “Í túninu austur frá bænum er dagmálahóll, og halda sumir, að nafnið Bílduhóll sé dregið af klettaskoru þeirri, sem er í hólnum og líkist mjög bíldi.” Í skrá Gísla Sigurðssonar á Dröngum segir, að innan túns á Bíldhóli sé “hóll eða öllu heldur klettaborg, er Bílduhóll heitir. Af honum dregur jörðin nafn, talið, að þar hafi fyrr búið kerling, er Bílda hét.” Lúðvík getur þeirrar kerlingar líka en það er algeng skýring á örnefnum þegar annað þrýtur að kenna til karla eða kerlinga sem fyrst hafi búið á staðnum. Í Noregi var staðarheitið Bíldin (nú Bilden) dregið af tilbúna orðinu bíld-vin, og segir Ásgeir Blöndal Magnússon í orðsifjabók sinni að forliður nafnsins gæti átt við oddlaga landsvæði (bls. 55). (Sjá Oluf Rygh, Norske Gaardnavne IV,2:171-172). Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðasifjabók. Reykjavík 1989.
- Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Edda. Reykjavík 2002.
- Ordbog over det norröne prosasprog. 2: ban-da. Udg. af Den arnamagnæanske kommission. Kbh. 2000.
- Oluf Rygh, Norske Gaardnavne IV,2. Kristiania 1902.
- Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson, Landið þitt Ísland. I. Reykjavík 1984.
- Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund