Þegar horft er á veraldarkortið með tímabeltunum merktum inn á, þá virðist í fljótu bragði rökrétt miðað við legu Íslands, að landið ætti í raun að vera einni klst. á eftir GMT. Væri fróðlegt að vita hvenær og hverjir ákváðu að GMT skuli vera tíminn á Íslandi og hver rökin hafi verið fyrir þeirri ráðstöfun.Greenwich-tíminn var tekinn upp sem staðaltími á Íslandi þann 7. apríl 1968 með staðfestingu Alþingis á lögum um tímareikning á Íslandi. Í fyrstu og einu grein laganna segir:
Hvarvetna á Íslandi skal telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich.Í rúm sextíu ár á undan, frá árinu 1907, voru í gildi lög um samræmdan tíma á Íslandi sem kváðu á um að alls staðar á landinu skyldu klukkur fylgja tíma sem var einni klukkustund á eftir Greenwich-tíma (GMT -1). Áður hafði þetta verið nokkuð breytilegt þannig að klukkan á Akureyri var til dæmis ekki nákvæmlega það sama og klukkan í Reykjavík. Með lögum frá árinu 1917 varð heimilt að flýta klukkunni um allt að eina og hálfa klukkustund á sumrin. Var það gert á árunum 1917-1918 og 1939-1968. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna um tímareikning frá 1968 kemur fram að frumvarpið hafi verið samið að fengnum tillögum stjarnfræðinganna dr. Trausta Einarssonar prófessors og dr. Þorsteins Sæmundssonar. Í greinargerð þeirra eru taldir upp eftirfarandi ókostir við þágildandi fyrirkomulag:
- Færsla klukkunnar tvisvar á ári veldur ruglingi á áætlunartímum flugvéla í millilandaflugi og er bæði flugfélögum og farþegum til ama.
- Tvisvar á ári verður að endurstilla allar stimpilklukkur og móðurklukkukerfi á landinu. Þetta verður að gerast á skömmum tíma og er mikið verk.
- Breytingarnar valda sífelldri rangtúlkun á hvers kyns tímatöflum svo sem flóðtöflum, sem út eru gefnar í almanökum.
- Ýmsar rannsóknir og mælingar, þar á meðal veðurathuganir, verða að fara fram á óbreyttum tímum árið um kring. Færsla klukkunnar raskar því vinnutilhögun á rannsóknarstofnunum og athugunarstöðvum og veldur stundum mistökum, jafnvel hjá æfðum starfsmönnum.
- Færsla klukkunnar raskar svefnvenjum margra, sérstaklega ungbarna. Eru kvartanir um þetta mjög algengar.
- Flýtt klukka gildir nú þegar meira en helming ársins (203-210 daga). [Frá fyrsta sunnudegi í apríl til fyrsta sunnudags í vetri].
- Flýtta klukkan samsvarar miðtíma Greenwich, sem einnig nefnist heimsmiðtími (Universal Time, Temps Universel) og hafður er til viðmiðunar í margs konar alþjóðlegum viðskiptum. Til dæmis má nefna, að í allri flugstjórn, innanlands sem utan, er miðað við þennan tíma bæði sumar og vetur...
- Breytingin myndi færa Ísland klukkutíma nær meginlandi Evrópu í tíma, og er það veigamikið atriði fyrr símasamband, þar eð verulegur munur er á vökutíma, og þá sérstaklega skrifstofutíma, dregur mjög úr notagildi símasambandsins...
- Dagsbirtan myndi nýtast enn betur. Með núgildandi reglum um sumartíma hefur tekizt að fækka myrkurstundum á vökutíma um 8 af hundraði. Sú tala hækkar í 11 af hundraði, ef flýtt klukka er notuð allt árið.
- 1968 nr. 6 5.apríl/Lög um tímareikning á Íslandi. (Skoðað 4.12.2014).
- 0255. Frumvarp til laga um tímareikning á Íslandi. (Lagt fyrir Alþingi á 88. löggjafarþingi, 1967-68). (Skoðað 4.12.2014).
- Sumartími. (Skoðað 9.12.2014).
- Almanak Háskóla Íslands - Seinkun klukkunnar. (Skoðað 9.12.2014).
- Shepherd Gate Clock - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 4.12.2014).