Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Walter Benjamin og hvert var framlag hans til hugvísindanna?

Benedikt Hjartarson

Walter Benjamin (1892-1940) var einn merkasti og sérstæðasti hugsuður á sviði hugvísinda á Vesturlöndum á 20. öld. Höfundarverk hans er margþætt og fjölbreytilegt og hann fékkst í skrifum sínum við jafn ólík viðfangsefni og borgarfræði, kvikmyndir, söguspeki, ljósmyndatækni, bókasöfn, frímerki og jurtir svo dæmi séu nefnd. Segja má að Benjamin hafi ekki látið neinar birtingarmyndir eða afurðir nútímamenningar vera sér óviðkomandi. Höfundarverk hans reynist ekki síður margbrotið ef horft er til þeirra ólíku hugmyndakerfa sem leidd eru saman í skrifum hans, því hér er á ferðinni afar sérstæður bræðingur marxískrar þjóðfélagsgreiningar, gyðinglegrar dulhyggju, hugleiðinga um hversdagsmenningu, þýskrar hughyggjuhefðar og söguskoðunar á forsendum andrökhyggju.

Walter Benjamin (1892-1940).

Starfsferill Benjamins var á margan hátt óvenjulegur í vísindalegu tilliti, að því leyti að hann lá utan akademíunnar. Benjamin varði raunar doktorsritgerð sína, sem fjallaði um hugtak listgagnrýninnar í þýskri rómantík, við háskólann í Bern í Sviss árið 1919 og lauk í framhaldinu við síðari doktorsritgerð sína, sem hann lagði fram við háskólann í Frankfurt am Main árið 1925. Þá ritgerð dró hann aftur á móti til baka eftir að hafa lent í vandræðum með að fá hana samþykkta. Þar með yfirgaf Benjamin hina hefðbundnu framabraut innan háskólasamfélagsins, en segja má að akademískt starfsumhverfi þessa tíma hafi hentað starfsaðferðum hans og fjölskrúðugum hugðarefnum fremur illa.

Síðari doktorsritgerð Benjamins fjallar um hefð þýska sorgarleiksins frá barokktímabilinu og þar fæst hann við ýmis viðfangsefni sem síðar áttu eftir að verða honum hugleikin. Í verkinu má sjá skýr ummerki pólitískrar vitundarvakningar og Benjamin leggur grunn að þeirra söguspeki sem myndar einn meginþráðinn í höfundarverki hans. Í miðpunkti greiningarinnar liggur ímynd rústanna og táknsögur eða allegoríur í þýska sorgarleiknum, sem Benjamin lítur á sem ummerki sögulegs rofs og lifandi nærveru glataðrar fortíðar, sem þannig heldur gildi sínu í samtímanum. Í greiningu Benjamins verða rústirnar að einskonar fleyg úr fortíðinni sem rýfur hið slétta yfirborð sögunnar.

Slíkar söguspekilegar hugleiðingar urðu áleitnar í síðari skrifum Benjamins og á nokkuð þverstæðukenndan hátt má segja að þær hafi ekki síst sett mark sitt á könnun hans á birtingarmyndum, tækni og afurðum nútímamenningar. Þannig er viðamesta verk hans, sem kallast Das Passagen-Werk, helgað „bogagöngum“ (fr. „passages“) eða yfirbyggðum verslunargötum sem byggðar voru á 19. öld í París – þeirri borg sem lengi var starfsvettvangur Benjamins og hann kallaði höfuðborg 19. aldar. Benjamin vann að verkinu frá miðjum þriðja áratugnum og fram í andlátið, honum lánaðist þó ekki að ljúka því og kom það út að honum látnum.

Frá sjónarhorni Benjamins birtist umhverfi nútímastórborgarinnar sem einskonar rústir þeirrar borgaralegu menningar sem er að líða undir lok. Hversdagslegt lífsumhverfi nútímans veitir innsýn í hnignun hins borgaralega markaðssamfélags og svikin fyrirheit þeirrar menningar sem á því er reist. Hugmyndin um framfarir gegnir hér lykilhlutverki, enda má lýsa henni sem sjálfum drifkrafti hugmyndarinnar um nútímann, er gegnsýri allar menningarafurðir tímabilsins. Hér má sjá glitta í það andartak sem fræðikonan Margaret Cohen hefur kennt við „hinn messíanska snúning“ í hugsun Benjamins; því hryllilegri og martraðarkenndari sem samtíminn er, þeim mun sterkari er vonin og staðfestingin á því að endurlausnin sé í vændum.

Verk Benjamins um bogagöngin í París er ekki síst sérstætt vegna byggingar þess. Það samanstendur í grunninn af tilvitnunum og textabrotum sem Benjamin hafði sankað að sér á löngu tímabili og tengt innbyrðis. Söfnunaráráttan er raunar eitt megineinkennið á skrifum Benjamins og hann helgaði fjölmarga texta því viðfangsefni. Í hans huga er safnið ekki aðeins safn dauðra muna, heldur tilheyra þessir munir lifandi menningu sem er horfin en getur sprottið óvænt fram á tilteknum andartökum og orðið uppspretta nýs skilnings og sjálfsvitundar. Þannig verða tilvitnanirnar í Das Passagen-Werk að svipmyndum líðandi stundar og gegna hlutverki menningarlegra rústa sem geta opnað lesandanum leið inn í mannlega reynslu, þjáningu og þrár fortíðarinnar. Sjálf bygging verksins er þannig um margt lýsandi fyrir aðferð Benjamins í víðara samhengi. Menjar fortíðarinnar gegna ekki aðeins mikilvægu hlutverki sem vitnisburður um liðinn tíma, heldur geta þær um leið opnað þeim sem kannar þær leið inn í annan tíma, þær leiða ekki aðeins inn í fortíðina heldur vísa um leið til framtíðar. Ástráður Eysteinsson lýsir þessu andartaki á knappan hátt í inngangi sínum að greinasafninu Fagurfræði og miðlun eftir Benjamin: „Hið messíanska rof er í senn sögulegur, tilvistarlegur og fagurfræðilegur þáttur í viðhorfum Benjamins; það vísar til þess augnabliks þegar nýr og ófyrirséður tilverugrundvöllur verður til, ný sköpun möguleg og þar með ný sýn, allt eins þótt hún sé að hluta til komin úr gleymdri fortíð okkar“ (s. 28). Hér skipta ekki síst máli tengslin við fortíðina. Sýnin á nýja framtíð byggir jafnan á óvæntum skilningi á liðinni reynslu sem brýst fram eins og leiftur og verður jafnvel skilin í fyrsta sinn úr þessari sögulegu fjarlægð – þetta er andartak óvæntrar uppljómunar, þegar fortíðin, samtíðin og framtíðin mætast og samband þeirra verður hugverunni skynjanlegt. Þannig felst verkefni söguritarans, að mati Benjamins, í því „að strjúka sögunni á móti háralaginu“ (eins og hann kemst að orði í greinum sínum um söguspeki) og kalla þannig fram það sem leynist undir sléttum feldinum.

Angelus Novus eftir Paul Klee.

Hugmynd Benjamins um hið messíanska andartak kallast með margvíslegum hætti á við þá fagurfræði sem einkenndi bókmenntasköpun í samtíma hans og hann ritaði fjölda greina um lykilhöfunda evrópskra nútímabókmennta. Á meðal þekktra ritsmíða hans um nútímabókmenntir eru greinar sem eru helgaðar Bertolt Brecht, Franz Kafka, súrrealismanum, Marcel Proust og fleiri höfundum. Það er ekki síst hin margbrotna samræða við fortíðina í verkum þessara höfunda sem fangar athygli Benjamins. Í túlkun hans á þessum verkum reynist hugmyndin um hinn fagurfræðilega nútíma fela í sér söguskoðun sem brýst undan ríkjandi framfarahyggju. Eitt þekktasta dæmið um slíka greiningu í verkum Benjamins er þó ekki sótt í bókmenntir heldur myndlist. Í greinum sínum um söguspeki frá árinu 1940 lýsir Benjamin verki eftir Paul Klee, sem ber heitið Angelus Novus, og lýsir engli sögunnar, sem segja má að hafi orðið að einskonar táknmynd fyrir söguhyggju Benjamins:
Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann og teygja sig til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur (s. 30-31).
Í textanum, sem Benjamin skrifaði skömmu áður en hann tók sitt eigið líf á flótta undan nasismanum, birtist sannarlega nokkuð myrk sýn á söguna, en á einhvern annarlegan hátt geymir sagan einnig í sér vísi að nýjum tíma. Þarna liggur hin sérstæða blanda marxískrar söguskoðunar og dulhyggju í skrifum Benjamins, því útópísk framtíðin sem tekur við er í senn andartak pólitískrar umbyltingar og trúarlegrar endurlausnar. Og trúin á umskiptin sem hér er lýst og byggir á staðfastri greiningu á lögmálum sögunnar, er um leið grunnurinn að þeirri lifandi gagnrýni á þjóðfélagsgerð og menningarlega þverbresti nútímans sem er mikilvægasta framlag Benjamins til vestrænnar fræðahefðar.

Nokkrar heimildir:
  • Benjamin, Walter. Fagurfræði og miðlun. Safn greina og bókakafla, ritstj. Ástráður Eysteinsson, aðalþýð. Benedikt Hjartarson. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008.
  • Benjamin, Walter. „Um söguhugtakið. Greinar um söguspeki“, þýð. Guðsteinn Bjarnason. Hugur, 2005, s. 27-36.
  • Cohen, Margaret. „Benjamin’s Phantasmagoria. The Arcades Project“. The Cambridge Companion to Walter Benjamin, ritstj. David S. Ferris. Cambridge: Cambridge University Press, 2004, s. 199-220.
  • Sigrún Sigurðardóttir. „Magðalenukökur: um fortíð og framtíð í sagnfræði samtímans“. Frá endurskoðun til upplausnar, ritstj. Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon. Reykjavík: Miðstöð einsögurannsókna, ReykjavíkurAkademían, 2006, s. 329-347.
  • Witte, Bernd. Walter Benjamin, mit Selbstzeugnissen und Dokumenten. Reinbek bei Hamburg: Rowohlt, 1985.

Myndir:

Höfundur

aðjúnkt í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

19.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Benedikt Hjartarson. „Hver var Walter Benjamin og hvert var framlag hans til hugvísindanna?“ Vísindavefurinn, 19. desember 2011, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61526.

Benedikt Hjartarson. (2011, 19. desember). Hver var Walter Benjamin og hvert var framlag hans til hugvísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61526

Benedikt Hjartarson. „Hver var Walter Benjamin og hvert var framlag hans til hugvísindanna?“ Vísindavefurinn. 19. des. 2011. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61526>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Walter Benjamin og hvert var framlag hans til hugvísindanna?
Walter Benjamin (1892-1940) var einn merkasti og sérstæðasti hugsuður á sviði hugvísinda á Vesturlöndum á 20. öld. Höfundarverk hans er margþætt og fjölbreytilegt og hann fékkst í skrifum sínum við jafn ólík viðfangsefni og borgarfræði, kvikmyndir, söguspeki, ljósmyndatækni, bókasöfn, frímerki og jurtir svo dæmi séu nefnd. Segja má að Benjamin hafi ekki látið neinar birtingarmyndir eða afurðir nútímamenningar vera sér óviðkomandi. Höfundarverk hans reynist ekki síður margbrotið ef horft er til þeirra ólíku hugmyndakerfa sem leidd eru saman í skrifum hans, því hér er á ferðinni afar sérstæður bræðingur marxískrar þjóðfélagsgreiningar, gyðinglegrar dulhyggju, hugleiðinga um hversdagsmenningu, þýskrar hughyggjuhefðar og söguskoðunar á forsendum andrökhyggju.

Walter Benjamin (1892-1940).

Starfsferill Benjamins var á margan hátt óvenjulegur í vísindalegu tilliti, að því leyti að hann lá utan akademíunnar. Benjamin varði raunar doktorsritgerð sína, sem fjallaði um hugtak listgagnrýninnar í þýskri rómantík, við háskólann í Bern í Sviss árið 1919 og lauk í framhaldinu við síðari doktorsritgerð sína, sem hann lagði fram við háskólann í Frankfurt am Main árið 1925. Þá ritgerð dró hann aftur á móti til baka eftir að hafa lent í vandræðum með að fá hana samþykkta. Þar með yfirgaf Benjamin hina hefðbundnu framabraut innan háskólasamfélagsins, en segja má að akademískt starfsumhverfi þessa tíma hafi hentað starfsaðferðum hans og fjölskrúðugum hugðarefnum fremur illa.

Síðari doktorsritgerð Benjamins fjallar um hefð þýska sorgarleiksins frá barokktímabilinu og þar fæst hann við ýmis viðfangsefni sem síðar áttu eftir að verða honum hugleikin. Í verkinu má sjá skýr ummerki pólitískrar vitundarvakningar og Benjamin leggur grunn að þeirra söguspeki sem myndar einn meginþráðinn í höfundarverki hans. Í miðpunkti greiningarinnar liggur ímynd rústanna og táknsögur eða allegoríur í þýska sorgarleiknum, sem Benjamin lítur á sem ummerki sögulegs rofs og lifandi nærveru glataðrar fortíðar, sem þannig heldur gildi sínu í samtímanum. Í greiningu Benjamins verða rústirnar að einskonar fleyg úr fortíðinni sem rýfur hið slétta yfirborð sögunnar.

Slíkar söguspekilegar hugleiðingar urðu áleitnar í síðari skrifum Benjamins og á nokkuð þverstæðukenndan hátt má segja að þær hafi ekki síst sett mark sitt á könnun hans á birtingarmyndum, tækni og afurðum nútímamenningar. Þannig er viðamesta verk hans, sem kallast Das Passagen-Werk, helgað „bogagöngum“ (fr. „passages“) eða yfirbyggðum verslunargötum sem byggðar voru á 19. öld í París – þeirri borg sem lengi var starfsvettvangur Benjamins og hann kallaði höfuðborg 19. aldar. Benjamin vann að verkinu frá miðjum þriðja áratugnum og fram í andlátið, honum lánaðist þó ekki að ljúka því og kom það út að honum látnum.

Frá sjónarhorni Benjamins birtist umhverfi nútímastórborgarinnar sem einskonar rústir þeirrar borgaralegu menningar sem er að líða undir lok. Hversdagslegt lífsumhverfi nútímans veitir innsýn í hnignun hins borgaralega markaðssamfélags og svikin fyrirheit þeirrar menningar sem á því er reist. Hugmyndin um framfarir gegnir hér lykilhlutverki, enda má lýsa henni sem sjálfum drifkrafti hugmyndarinnar um nútímann, er gegnsýri allar menningarafurðir tímabilsins. Hér má sjá glitta í það andartak sem fræðikonan Margaret Cohen hefur kennt við „hinn messíanska snúning“ í hugsun Benjamins; því hryllilegri og martraðarkenndari sem samtíminn er, þeim mun sterkari er vonin og staðfestingin á því að endurlausnin sé í vændum.

Verk Benjamins um bogagöngin í París er ekki síst sérstætt vegna byggingar þess. Það samanstendur í grunninn af tilvitnunum og textabrotum sem Benjamin hafði sankað að sér á löngu tímabili og tengt innbyrðis. Söfnunaráráttan er raunar eitt megineinkennið á skrifum Benjamins og hann helgaði fjölmarga texta því viðfangsefni. Í hans huga er safnið ekki aðeins safn dauðra muna, heldur tilheyra þessir munir lifandi menningu sem er horfin en getur sprottið óvænt fram á tilteknum andartökum og orðið uppspretta nýs skilnings og sjálfsvitundar. Þannig verða tilvitnanirnar í Das Passagen-Werk að svipmyndum líðandi stundar og gegna hlutverki menningarlegra rústa sem geta opnað lesandanum leið inn í mannlega reynslu, þjáningu og þrár fortíðarinnar. Sjálf bygging verksins er þannig um margt lýsandi fyrir aðferð Benjamins í víðara samhengi. Menjar fortíðarinnar gegna ekki aðeins mikilvægu hlutverki sem vitnisburður um liðinn tíma, heldur geta þær um leið opnað þeim sem kannar þær leið inn í annan tíma, þær leiða ekki aðeins inn í fortíðina heldur vísa um leið til framtíðar. Ástráður Eysteinsson lýsir þessu andartaki á knappan hátt í inngangi sínum að greinasafninu Fagurfræði og miðlun eftir Benjamin: „Hið messíanska rof er í senn sögulegur, tilvistarlegur og fagurfræðilegur þáttur í viðhorfum Benjamins; það vísar til þess augnabliks þegar nýr og ófyrirséður tilverugrundvöllur verður til, ný sköpun möguleg og þar með ný sýn, allt eins þótt hún sé að hluta til komin úr gleymdri fortíð okkar“ (s. 28). Hér skipta ekki síst máli tengslin við fortíðina. Sýnin á nýja framtíð byggir jafnan á óvæntum skilningi á liðinni reynslu sem brýst fram eins og leiftur og verður jafnvel skilin í fyrsta sinn úr þessari sögulegu fjarlægð – þetta er andartak óvæntrar uppljómunar, þegar fortíðin, samtíðin og framtíðin mætast og samband þeirra verður hugverunni skynjanlegt. Þannig felst verkefni söguritarans, að mati Benjamins, í því „að strjúka sögunni á móti háralaginu“ (eins og hann kemst að orði í greinum sínum um söguspeki) og kalla þannig fram það sem leynist undir sléttum feldinum.

Angelus Novus eftir Paul Klee.

Hugmynd Benjamins um hið messíanska andartak kallast með margvíslegum hætti á við þá fagurfræði sem einkenndi bókmenntasköpun í samtíma hans og hann ritaði fjölda greina um lykilhöfunda evrópskra nútímabókmennta. Á meðal þekktra ritsmíða hans um nútímabókmenntir eru greinar sem eru helgaðar Bertolt Brecht, Franz Kafka, súrrealismanum, Marcel Proust og fleiri höfundum. Það er ekki síst hin margbrotna samræða við fortíðina í verkum þessara höfunda sem fangar athygli Benjamins. Í túlkun hans á þessum verkum reynist hugmyndin um hinn fagurfræðilega nútíma fela í sér söguskoðun sem brýst undan ríkjandi framfarahyggju. Eitt þekktasta dæmið um slíka greiningu í verkum Benjamins er þó ekki sótt í bókmenntir heldur myndlist. Í greinum sínum um söguspeki frá árinu 1940 lýsir Benjamin verki eftir Paul Klee, sem ber heitið Angelus Novus, og lýsir engli sögunnar, sem segja má að hafi orðið að einskonar táknmynd fyrir söguhyggju Benjamins:
Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann og teygja sig til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur (s. 30-31).
Í textanum, sem Benjamin skrifaði skömmu áður en hann tók sitt eigið líf á flótta undan nasismanum, birtist sannarlega nokkuð myrk sýn á söguna, en á einhvern annarlegan hátt geymir sagan einnig í sér vísi að nýjum tíma. Þarna liggur hin sérstæða blanda marxískrar söguskoðunar og dulhyggju í skrifum Benjamins, því útópísk framtíðin sem tekur við er í senn andartak pólitískrar umbyltingar og trúarlegrar endurlausnar. Og trúin á umskiptin sem hér er lýst og byggir á staðfastri greiningu á lögmálum sögunnar, er um leið grunnurinn að þeirri lifandi gagnrýni á þjóðfélagsgerð og menningarlega þverbresti nútímans sem er mikilvægasta framlag Benjamins til vestrænnar fræðahefðar.

Nokkrar heimildir:
  • Benjamin, Walter. Fagurfræði og miðlun. Safn greina og bókakafla, ritstj. Ástráður Eysteinsson, aðalþýð. Benedikt Hjartarson. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008.
  • Benjamin, Walter. „Um söguhugtakið. Greinar um söguspeki“, þýð. Guðsteinn Bjarnason. Hugur, 2005, s. 27-36.
  • Cohen, Margaret. „Benjamin’s Phantasmagoria. The Arcades Project“. The Cambridge Companion to Walter Benjamin, ritstj. David S. Ferris. Cambridge: Cambridge University Press, 2004, s. 199-220.
  • Sigrún Sigurðardóttir. „Magðalenukökur: um fortíð og framtíð í sagnfræði samtímans“. Frá endurskoðun til upplausnar, ritstj. Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon. Reykjavík: Miðstöð einsögurannsókna, ReykjavíkurAkademían, 2006, s. 329-347.
  • Witte, Bernd. Walter Benjamin, mit Selbstzeugnissen und Dokumenten. Reinbek bei Hamburg: Rowohlt, 1985.

Myndir:...