Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti, ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna, að hann geti eigi stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega.Sambærilegt ákvæði er í 3. mgr. 45. gr. a sem lýtur að ávana- og fíkniefnum en þar segir:
Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna skv. 1. mgr.Í 1. mgr. 45. gr. a, sem þarna er vísað til, kemur fram að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Reiðhjól er skilgreint með sérstökum hætti í umferðarlögum. Þar undir falla í fyrsta lagi það sem mætti kalla hefðbundin reiðhjól það er ökutæki sem knúin eru áfram með stig- eða sveifarbúnaði. Í öðru lagi geta vélknúnir hjólastólar fallið þar undir ef þeir eru ekki hannaðir til hraðari aksturs en 15 km á klst. Í þriðja lagi geta lítil vél- og rafknúin ökutæki talist reiðhjól ef þau eru hönnuð til aksturs á hraða frá 8 km og upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur meðal annars vélknúið hlaupahjól að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hafa verður í huga að umferðarlögin gilda almennt um umferð á vegum en geta þó, eftir því sem við á, átt við um umferð ökutækja annarsstaðar. Af því leiðir að það fer eftir aðstæðum hverju sinni hvort og hvenær lögreglan telur ástæðu til að hafa afskipti af hjólreiðamönnum ef grunur leikur á að þeir séu undir áhrifum áfengis. Því verður að telja líklegra að til afskipta lögreglu komi ef ölvaður hjólreiðamaður er talinn valda hættu við mikla umferðargötu en ef hann ákveður að hjóla hring á túninu heima hjá sér. Brot gegn þeim ákvæðum umferðarlaga sem hér hafa verið nefnd geta varðað sektum. Sú fjárhæð er nú 5.000 kr., sbr. 100. gr. umferðarlaga og reglugerð nr. 930/2006. Heimildir:
- Umferðarlög nr. 50/1987.
- Reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.
- Smithfield Nocturne 2012 - Penny Farthing Racing | Flickr - Photo Sharing!. (Sótt 30.09.2013). Myndin er birt undir Creative Commons Attribution 2.0 Generic-leyfi.