Landfræði snýst um sambúð manns og náttúru, sem og ýmsar aðrar hliðar mannlegs samfélags. Náttúrulandfræði fæst við hina ytri ásýnd landsins; landmótun, jarðveg, gróður og veðurfar svo eitthvað sé nefnt. Mannvistarlandfræði fæst við búsetu mannsins á jörðinni og einnig við efnahags- hag- og félagslega þróun staða og svæða. Kortlagning og greining lands og landupplýsinga hefur frá fornu fari skipað veglegan sess í greininni og eru tölvuvædd landupplýsingakerfi, byggð á sérstökum aðferðum landfræðinga, orðin mikilvæg á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Við þetta má bæta að náttúrulandfræði og mannvistarlandfræði eiga sér snertiflöt í umhverfismálum, þar sem nýting náttúruauðlinda og áhrif mannlegra athafna á náttúruna eru í brennidepli. Ferðaþjónusta er önnur ört vaxandi grein þar sem landfræðin kemur mikið við sögu. Eins og sjá má tengist landfræðin bæði félags- og náttúruvísindum og er það misjafnt eftir skólum hvernig hún er flokkuð. Í Háskóla Íslands er landfræði kennd innan Líf- og umhverfisvísindadeildar, eins og ferðamálafræði, líffræði, lífefna- og sameindalíffræði, og þeir sem útskrifast þaðan eru með B.Sc. próf. Í mörgum skólum erlendis er hins vegar hægt að útskrifast með B.A. próf í greininni. Landfræðinga er að finna víða í atvinnulífinu, hjá ríkinu, sveitarfélögum, einkafyrirtækjum og sem sjálfstæða ráðgjafa, en störf þeirra endurspegla fjölbreytni fagsins. Þeir stunda rannsóknir og sinna kennslu á öllum skólastigum. Þeir sinna kortagerð, hönnun og rekstri landfræðilegra upplýsingakerfa, náttúruvernd og ráðgjöf í umhverfis-, skipulags-, atvinnu-, samgöngu- og byggðamálum. Þeir koma að ferðaþjónustu, vinna við fjölmiðla og sinna upplýsingaöflun og miðlun, svo nokkur dæmi séu nefnd. Einn landfræðingur starfar meira að segja á Vísindavefnum. Kort:
Karl Benediktsson prófessor í mannvistarlandfræði við HÍ fær bestu þakkir fyrir ábendingar við gerð þessa svars.