Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til þess að forðast misskilning er rétt að útskýra betur hugtökin álft og svanur. Í almennu tali eru þau samheiti enda erum við þá að hugsa um íslenska fugla sem lifa í íslenskri náttúru. Líffræðingar nota orðin hins vegar ekki endilega sem samheiti, heldur er orðið svanur notað um ættkvíslina Cygnus sem tegundin álft, Cygnus Cygnus, tilheyrir. Orðið álft er hins vegar ekki haft um ættkvíslina.
Svanir tilheyra andaætt (Anatidae) rétt eins og endur og gæsir. Íslenska heitið svanur er keimlíkt öðrum orðum í germönskum tungumálum yfir sama fyrirbæri. Á ensku er til dæmis talað um swan, schwan á þýsku, zwaan á hollensku og svan á sænsku. Indóevrópsk rót þessara orða er swen sem þýðir að syngja. Latneska heiti ættkvíslarinnar, cygnus, er hins vegar komið af gríska orðinu kýknos sem þýðir einfaldlega svanur.
Álftir (Cygnus cygnus).
Svanir eru stærstir fugla af andfuglaætt og meðal stærstu fleygu fugla heimsins. Stærstu svanir geta orðið um 150 cm á lengd og vegið allt að 15 kg, með allt að 3 metra vænghaf. Gæsir hafa líkan líkamsvöxt en meginmunurinn er sá að svanir hafa hlutfallslega lengri háls og fætur. Fætur svana eru yfirleitt svartir eða gráleitir fyrir utan tvær tegundir í Suður-Ameríku sem hafa bleiklitaða fætur. Litarhaftið á gogg er breytilegt en norðlægu tegundirnar fjórar hafa svartan gogg með ýmsum tónum af gulum lit en suðlægari tegundirnar eru með svartan og rauðan gogg.
Til Cygnus-ættkvíslarinnar teljast sex tegundir. Þær eru:
hnúðsvanur (Cygnus olor)
svartsvanur (Cygnus atratus)
álft (Cygnus cygnus)
lúðursvanur (Cygnus buccinator)
dvergsvanur (Cygnus columbianus)
svarthálsasvanur (Cygnus melancoryphus).
Hnúðsvanur (Cygnus olor)
Hnúðsvanurinn verpir á tempruðum svæðum í Evrópu og Asíu, alls í 49 löndum. Hann er farfugl á nyrstu varpstöðunum. Hér á landi hefur hann sést í fylgd álfta og í einstaka tilvikum hefur hann reynt hér varp. Heimsstofninn er nokkuð stór eða um 500 þúsund fuglar að hausti (varpfuglar, geldfuglar og nýfleygir ungfuglar). Þar af eru um 350 þúsund fuglar í ríkjum fyrrum Sovétríkjanna. Stærsta einstaka varp hnúðsvana er í óshólmum Volgu í vestanverðu Rússlandi eða 11.000 pör.
Hnúðsvanir eru friðaðar á stærstum hluta útbreiðslusvæðis síns en þó eru ólöglegar veiðar á þeim nokkuð umfangsmiklar á sumum svæðum. Hnúðsvanir eru algengir í ýmsum görðum þar sem þeir þykja tignarlegir fuglar. Þeir hafa sloppið út úr slíkum görðum og hafið varp utan síns náttúrlega útbreiðslusvæðis. Með þessum hætti hafa hnúðsvanir hafið varp og náð að festa sig í fánunni víða í austanverðum Bandaríkjunum, sérstaklega við Vötnin miklu.
Svartsvanur (Cygnus atratus).
Svartsvanur (Cygnus atratus)
Náttúrlegt útbreiðslusvæði svartsvana er í suðaustur- og suðvesturhluta Ástralíu. Svartsvanir lifðu áður á Nýja-Sjálandi en var útrýmt sennilega á fyrri hluta 19. aldar. Nú hafa ástralskir svartsvanir hins vegar fest þar rætur á ný með hjálp mannsins.
Svartsvanir eru mjög vinsælir sem skrautfuglar í vatnagörðum í Vestur-Evrópu, sérstaklega á Bretland. Einhverjir fuglar hafa fært sig um set og hafið varp utan garðanna. Talið er að níu varppör hafi verið á Bretlandi við upphaf aldarinnar og hefur þeim eitthvað fjölgað síðan. Svartsvanurinn telst þó ekki varpfugl á Bretlandi enda varpstofninn ekki búinn að ná stofnfræðilega traustum grunni.
Heimsstofninn er nokkuð sterkur og telst að hausti vera um hálf milljón fugla. Svartsvanurinn er því ekki í útrýmingarhættu.
Álft (Cygnus cygnus)
Álftin verpir í Evrasíu, frá Íslandi austur um Rússland, allt til Kyrrahafsstrandar. Íslenskar álftir hverfa á haustin til vetrarstöðva á Bretlandseyjum en aðrar vetrarstöðvar evrópskra og asískra álfta eru meðal annars við strendur Miðjarðarhafs, Svartahafs og í Kína. Hægt er að lesa meira um álftina í öðrum svörum á Vísindavefnum, sjá hér til hliðar.
Lúðursvanur (Cygnus buccinator)
Lúðursvanir eru amerískir svanir, varpsvæði þeirra er í vestur- og miðhluta Norður-Ameríku en einnig er nokkuð stór varpstofn í Alaska. Vetrarsvæðin eru aðallega í Texas og suðurhluta Kaliforníu. Lúðursvanir voru mikið veiddir á 19. öld og fyrri hluta þeirrar 20., bæði vegna kjöts og fjaðra sem voru vinsælar í höfuðfatnað hefðafrúa í Norður-Ameríku og Evrópu.
Lúðursvanir eru afar viðkvæmir fyrir ýmsum þungamálmum, sérstaklega blýmengun meðan þeir eru ungfuglar. Vegna ofveiði voru lúðursvanir orðnir fáséðir víða í Bandaríkjunum en nokkuð stórir stofnar eru enn í Kanada og Alaska. Verndaraðgerðir í Bandaríkjunum hafa þó leitt til þess að lúðursvönum hefur fjölgað, jafnvel um allt að 400% á ákveðnum svæðum. Tegundin er því ekki að deyja út.
Lúðursvanur (Cygnus buccinator).
Dvergsvanur (Cygnus columbianus)
Dvergsvanur hefur stundum verið kallaður túndrusvanur, samanber enska heitið tundra swan. Það vísar í helstu búsvæði hans sem eru túndrusvæðin norðan barrskóganna, aðallega í Rússlandi en einnig eru umtalsverð vörp í Alaska og Kanada. Þar verpir hann á tjörnum og öðru votlendi.
Dvergsvaninum er skipt upp í tvær deilitegundir. Deilitegundin bewickii verpir við strönd Síberíu, frá Kolaskaga austur að Kyrrahafsströnd. Varpstofnarnir vestur af Taimyr-skaganum leita vestur til Danmerkur, Hollands og Bretlandseyja á vetrarstöðvar en dvergsvanir sem verpa austur frá Taimyr og að Kyrrahafi/Beringssundi fara á vetrarstöðvar á strandsvæðum við Kóreuskaga, Japan og Suður-Kína.
Hin deilitegund dvergsvana kallast columbianus og verpir á strandsvæðum í Alaska og Kanada en hverfur á haustin til suðurhluta Bandaríkjanna svo sem Utah og Texas en einnig til norðurhéraða Mexíkó.
Heildarstofnstærð dvergsvansins er um 160 þúsund fuglar. Svo virðist sem tegundinni fari hægt hnignandi í Norður-Ameríku en sé nokkuð stöðug í Asíu.
Svarthálsasvanur (Cygnus melancoryphus)
Svarthálsasvanur er stærstur vatnafugla í Suður-Ameríku. Karlfuglarnir geta verið allt að 140 cm á lengd og vegið allt að 6,7 kg. Svarthálsasvanurinn verpir sunnarlega í Síle, í Patagoníu, Eldlandi og á Falklandseyjum. Þegar vetur gengur í garð á þessum suðlægu slóðum fer hann norður á bóginn, til Paragvæ og á votlendi í suðurhluta Brasilíu.
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af álftum og svönum?“ Vísindavefurinn, 23. janúar 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61038.
Jón Már Halldórsson. (2012, 23. janúar). Hvað eru til margar tegundir af álftum og svönum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61038
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af álftum og svönum?“ Vísindavefurinn. 23. jan. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61038>.