Lögreglu er heimilt að krefjast þess að maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar.Af ákvæðinu má leiða að lögregla getur almennt krafist þess að menn segi á sér deili, hvort sem um er að ræða Íslendinga eða útlendinga, gangandi vegfarendur eða farþega í bíl og ekki er skilyrði að grunur sé um ólögmæta háttsemi. Eins og önnur stjórnvöld er lögreglan samt sem áður bundin af svokallaðri meðalhófsreglu, samanber 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Reglan felur í sér að stjórnvöld verða að gæta hófs í meðferð valds síns. Í einstökum málum þarf lögreglan því alltaf meta hvort nauðsynlegt sé að taka íþyngjandi ákvörðun eða beita ákveðnu úrræði til þess að ná tilteknu markmiði. Meðalhófsreglan er lögfest í 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga sem og víðar í lögum sem ná til starfa lögreglu. Lögreglu ber því almennt í tilvikum sem þessum að meta hvort nauðsynlegt sé að hafa afskipti af borgurunum. Með hliðsjón af því víðtæka hlutverki sem lögreglu er falið í lögum geta slík afskipti verið talin nauðsynleg af ýmsum ástæðum.

Lögregla getur almennt krafist þess að menn segi á sér deili, hvort sem um er að ræða gangandi vegfarendur eða farþega í bíl og ekki er skilyrði að grunur sé um ólögmæta háttsemi.
Hver sá sem staddur er á almannafæri er skyldur til að segja til nafns síns, kennitölu og heimilis þegar lögreglan krefst þess.Í 32. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um viðurlög við brot á ákvæðinu en þar segir:
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum sbr. 6. gr. laga nr. 36 18. maí 1988 um lögreglusamþykktir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum eða reglugerðum.Hafa þarf í huga að staðbundnar lögreglusamþykktir, sem hafa verið settar í ákveðnu sveitarfélagi, ganga framar þessari reglugerð ef þær eru fyrir hendi auk þess sem þar kunna að vera sérákvæði sem ná til sambærilegra tilvika auk refsiákvæðis. Að lokum má geta þess að í 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er kveðið á um heimild lögreglu til að krefjast þess að ökumaður bifreiðar eða bifhjóls sýni ökuskírteini. Viðurlög eru við broti á ákvæðinu, samanber 1. mgr. 100. gr. laganna, þar sem fram kemur að brot gegn lögunum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í viðauka I við reglugerð nr. 930/2006, um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, kemur fram að sekt við því að hafa ekki ökuskírteini meðferðs sé nú 5.000 kr. Heimildir:
- Lögreglulög nr. 90/1996.
- Lög nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir.
- Reglugerð nr. 1127/2007, um lögreglusamþykktir.
- Stjórnsýslulög nr. 37/1993.
- Umferðarlög nr. 50/1987.
- Reglugerð nr. 930/2006, um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.
- Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin. Skýringarrit. Reykjavík, 1994, bls. 147-159.
- Police - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 26.12.2012).
Ber Íslendingum skylda til að sýna skilríki þegar lögregla biður um það, án gruns um glæpsamlegt athæfi? Til dæmis sem gangandi vegfarandi eða farþegi í bíl?