Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Julian Huxley (1887-1975) er einn af þekktustu líffræðingum Breta á 20. öld. Kom hann víða við en er líklega kunnastur fyrir Evolution, Modern Synthesis (1942). Ritið var framlag hans til sameinuðu þróunarkenningarinnar (e. New Synthesis) um miðja öldina, en þá runnu í eina sæng erfðafræði Gregors Mendel (1822–1884) og kenning Charles Darwin (1809–1882) um náttúruvalið. Rannsóknir hans í fugla- og þroskunarfræði voru einnig eftirtektarverðar. Huxley kom einnig að skipulags- og félagsmálum innan líffræðinnar og var til að mynda framkvæmdastjóri Dýrafræðifélagsins í London, 1935-1942. Á sínum tíma var Huxley líklega kunnastur fyrir alþýðleg skrif sín um vísindi. Á þriðja áratug 20. aldar gegndi Huxley lykilhlutverki í uppgangi tilraunadýrafræði í Bretlandi en á sama tíma kristallaðist sú staðreynd að hann var að ýmsu leyti 19. aldar maður sem lifði á 20. öldinni.
Í kjölfar útgáfu Uppruna tegundanna (1859) eftir Darwin má segja að þróunarkenningin hafi orðið ráðandi innan líffræðinnar það sem eftir lifði aldarinnar. Það þarf því ekki að koma á óvart að þessi mikla áhersla á þróunarkenninguna hafi orðið kveikjan að nokkurs konar andófshreyfingu innan dýrafræðinnar undir lok nítjándu aldar sem kennd var við tilraunadýrafræði (e. experimental zoology).
Upphaf andófsins liggur í tilraunum þýska dýrafræðingsins Wilhelm Roux (1850–1924) árið 1888 og samlanda hans, Hans Driesch (1867–1941), fjórum árum síðar. Tilraunir tvímenninganna vörðuðu leiðina að lífeðlisfræðilegum nálgunum innan dýrafræðinnar, en fyrir þennan tíma hafði beiting efna- og eðlisfræðilegra aðferða við rannsóknir á dýrum að mestu snúist um manninn. Mikilvægi nýju nálgunarinnar fólst í því að einstaklingurinn var hafinn til vegs og virðingar, það er fósturþroskun hans og lífeðlisfræði, og var hún í mótsögn við þróunarfræðilegu nálgunina þar sem einstaklingurinn var fyrst og fremst tæki sem dýrafræðingurinn notaði til þessa að fylla upp í þróunarsöguna.
Tilraundýrafræðin náði fyrst að skjóta rótum innan bandarískra háskóla í kringum aldamótin 1900. Helsta útbreiðslumiðstöð hennar í lok nítjándu aldar var hins vegar dýrafræðirannsóknarstöðin í Napólí, sem stofnuð var af þýska dýrafræðingnum Anton Dohrn (1840–1909) árið 1872 og er enn starfandi.
Breskir líffræðingar heimsóttu rannsóknarstöðina reglulega. Julian Huxley tilheyrði þessum hópi en hann heimsótti Napólí árið 1909, ári eftir að hann útskrifaðist frá Oxford þar sem hann kenndi á árunum 1910–1913. Frá Oxford flutti Huxley vestur um haf þar sem hann vann að því til 1916 að byggja upp líffræðideild Rice-háskólans í Texas. Árið 1919 var hann ráðinn lektor við dýrafræðideild háskólans í Oxford og gegndi því starfi til 1925, er hann var skipaður prófessor í dýrafræði við Kings College í London. Hann sagði því starfi lausu árið 1927 til þess að geta helgað sig alþýðlegum skrifum auk þess að stunda rannsóknir.
Á fyrstu árum þriðja áratugarins gegndu Huxley, dýrafræðingurinn Lancelot Hogben (1895-1975) og nokkrir vinir þeirra lykilhlutverki í uppbyggingu tilraunadýrafræðinnar í Bretlandi með því að standa fyrir stofnun Society for Expermental Biology og málgagns þess British Journal of Experimental Biology árið 1923.
Í sjálfsævisögu Hogbens getur hann þess að á meðan Huxley starfaði í Bandaríkjunum hafi hann haft einstakt tækifæri til þess að kynna sér það nýjasta sem var að gerast þar innan dýrarfræðinnar. Eftir fyrri heimsstyrjöldina kynnti hann þessar nýjungar, sem „enn höfðu ekki haft nein áhrif á breska dýrafræði“, í fyrirlestrum víða um Bretland. Hogben bendir hins vegar á að áhrif Huxleys á upprennandi kynslóð líffræðinga hafi „á engan hátt endurspeglað nýmæli rannsókna hans“. Þetta má glöggt sjá í þeirri staðreynd að á tímabilinu 1921–1925 átti Huxley í nokkrum erfiðleikum með að fá niðurstöður rannsókna sinna birtar.
Vinir hans voru vel meðvitaðir um þetta vandamál. Töldu þeir skýringuna liggja í „endalausum ritstörfum og annarri vinnu sem beindi orku hans“ frá vísindarannsóknum, eins og Hogben komst að orði í bréfi árið 1922. Breski líffræðingurinn George P. Bidder (1863–1953) var ekkert að skafa utan af því í bréfi til Huxleys síðla sumars 1925 þegar hann bað Huxley „í guðanna bænum“ að gera upp við sig
í hvaða grein líffræðinnar þú ert sérfræðingur. Enginn getur núorðið verið allsherjar sérfræðingur, nokkuð sem þykir svo víst að ef einhver reynir að kynna sig sem slíkan, mun fólk að ósekju telja hann ótraustan á öllum sviðum. Þú mátt ekki láta hugdettuna um að herma eftir afa þínum [T.H. Huxley] leiða þig af réttri braut; við ráðum yfir tíu sinni meiri líffræðilegri þekkingu nú en þá, ef til vill tuttugu sinnum.
Hér komum við að kjarna málsins. Þó Huxley hafi verið ötull talsmaður nýju dýrafræðinnar í Bretlandi hlýddi hann ekki kalli samtímans um að kafa djúpt ofan í vel skilgreind rannsóknaverkefni. Það þarf því ekki að koma á óvart að alþýðleg skrif Huxleys og efasemdir um gæði rannsóknavinnu hans komu í tvígang á síðari hluta þriðja áratugarins í veg fyrir að hann næði kjöri í Konunglega félagið í London, virtasta breska vísindafélaginu. Huxley var loks kjörinn árið 1938.
Huxley reyndi með vísindarannsóknum sínum og alþýðlegum skrifum að feta í fótspor nítjándu aldar forvera sinna sem létu sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Á þriðja áratug síðustu aldar voru forsendurnar hins vegar allt aðrar, eins og Bidder benti á í áðurnefndu bréfi. Vísindamenn neyddust nú til þess að marka sér sérstakan bás. Huxley gekk gegn straumi sérhæfingarinnar og fékk fyrir vikið ákúrur frá samtímamönnum sínum. Áhugi Huxleys á samþættingu margra hugmyndastrauma spilaði hins vegar lykilhlutverki í ritinu Evolution, Modern Synthesis (1942), en með því varð Huxley einn helsti hugmyndasmiður sameinuðu þróunarkenningarinnar þar sem hugmyndaheimar Mendels og Darwins og fleiri þættir líffræðinnar runnu saman í eina heildstæða kenningu sem mynda einn af hornsteinum nútímalíffræði.
Heimildir:
Steindór J. Erlingsson. „Hver var Julian Huxley og hvert var hans framlag til líffræðinnar?“ Vísindavefurinn, 27. september 2011, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60745.
Steindór J. Erlingsson. (2011, 27. september). Hver var Julian Huxley og hvert var hans framlag til líffræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60745
Steindór J. Erlingsson. „Hver var Julian Huxley og hvert var hans framlag til líffræðinnar?“ Vísindavefurinn. 27. sep. 2011. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60745>.