Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað merkir hugtakið landslag?

Edda Ruth Hlín Waage

Orðið landslag er rótgróið í íslenskri tungu. Samkvæmt íslenskri orðabók táknar það „heildarútlit landsvæðis, form náttúru á tilteknum stað“ (Mörður Árnason, 2007). Þessi merking orðsins vísar annars vegar til hlutbundinna eiginleika lands og lögunar, hins vegar til þess að landslag er sjónrænt. Samkvæmt Orðabók um íslenska málnotkun tekur orðið landslag gjarnan með sér lýsingarorð á borð við „fallegt, fagurt, tilkomumikið, mikilfenglegt, áhrifamikið, stórbrotið, tignarlegt, svipmikið, stórgert, hrikalegt, tilkomulítið, tilbreytingarlaust, sviplítið, lítilfjörlegt“ (Jón Hilmar Jónsson, 1994). Af þessu má sjá að landslag er jafnframt gildishlaðið hugtak sem vísar til fagurfræðilegrar upplifunar fólks af landi.

Forn ritháttur orðsins er landsleg og er elsta þekkta dæmi þess að finna í Morkinskinnuhandriti (GKS 1009) sem talið er að hafi verið ritað nálægt 1275 (Ordbog over det norrøne prosasprog, n.d.). Orðið kemur þar fyrir í frásögn af falli Magnúsar berfætts Noregskonungs þá er hann gerði strandhögg á Írlandi. Merking þess vísar til yfirborðseinkenna lands:
En þar var svá landsleg sem þeir fóru at í stǫðum váru hrískjǫrr þau ok mýrar nǫkkurar ok sumum stǫðum fen djúp milli hrísanna, ok váru klappir yfir fenin (Morkinskinna, 2011, 2. bindi, bls. 67).

Fjöll eru í fyrirrúmi í merkingu íslenska landslagshugtaksins. Á myndinni sést Stóra-Grænafjall við Fjallabaksleið syðri.

Orðið kemur víðar fyrir í fornum ritum. Annað elsta þekkta dæmið er að finna í Hauksbókarhandriti Eiríks sögu rauða (AM 544 4°), sem ritað var á tímabilinu 1302-1310 (Stefán Karlsson, 1964). Þar segir frá leiðangri Þorfinns karlsefnis og föruneytis í leit að Vínlandi og birtist þar meðal annars þessi lýsing úr leiðangrinum:
Þeir kǫlluðu þar Straumfjǫrð. Þeir báru þar farm af skipum sínum ok bjuggusk þar um. Þeir hǫfðu með sér alls konar fénað. Þar var fagrt landsleg; þeir gáðu einskis, útan at kanna landit (Eiríks saga rauða, 1935, bls. 224).

Merking orðsins hér kynni að vera óljós, ef ekki væri fyrir annað handrit af Eiríks sögu rauða, Skálholtsbók (AM 557 4°) sem talið er vera nær hinum upprunalega texta sögunnar. Í stað setningarinnar „þar var fagrt landsleg“ stendur í því handriti „fjǫll voru þar, ok fagrt var þar um at litask“ (Eiríks saga rauða, 1985, bls. 424-425). Orðið landsleg í dæmi Eiríks sögu rauða vísar því til fjalllendis, með öðrum orðum til lögunar á landinu, og sjónrænnar upplifunar af því, jafnframt því sem talað er um landslagið sem fagurt (sjá nánar Edda R. H. Waage, 2010). Þessi fornu dæmi sýna að merking orðsins á okkar tímum og notkun þess sem hugtaks virðist eiga rætur sínar að rekja minnst sjö aldir aftur í tímann.

Orðið landslag á sér hliðstæður í öðrum tungumálum. Í ensku er það til dæmis landscape, í dönsku landskab, í norsku og sænsku landskap, og í þýsku Landschaft. Þessi orð eru ýmist leidd af eða náskyld norræna orðinu landskapr, sem einnig var að finna í íslensku en er nú úrelt. Merking orðanna landslag og landscape er svipuð að því leyti að bæði vísa þau til náttúrulegra landsvæða og sjónrænnar skynjunar, sem og fagurfræðilegrar upplifunar. Hins vegar táknar enska orðið jafnframt landslagsmálverk (sjá umfjöllun í Þóra Ellen Þórhallsdóttir o.fl., 2010). Þessi merkingarmunur skýrist af ólíkum uppruna hugtakanna.

Orðið landscape var innleitt í enska tungu um aldamótin 1600, og þá í merkingunni landslagsmálverk (Oxford English Dictionary, 1989). Þróun landslagshugtakins í Mið-Evrópu er enda samofin sögu landslagsmálverksins, en einnig þeirri samfélagslegu þróun sem varð með tilkomu markaðshagkerfisins og breyttri landnotkun (Cosgrove, 1984). Eldri orðmyndir úr germönskum málum sýna jafnframt að á 16. öld var hugtakið notað yfir afmörkuð landsvæði sem grundvölluðust á rótgrónum siðum og venjum viðkomandi samfélags (Olwig, 1996). Smám saman tók merking hugtaksins breytingum í enskri tungu með samtvinnun lands og málverks. Á 18. öldinni var til dæmis farið að móta sveitir Englands út frá fagurfræðilegum reglum landslagsmálverksins með gerð svokallaðra landslagsgarða (e. landscape garden). Þar umbreyttu efnamiklir landeigendur víðfeðmum landsvæðum sínum í takt við ríkjandi hugmyndir um hvernig náttúran ætti að líta út, og með fagurfræðilega upplifun að leiðarljósi.

Painshill Park er dæmi um enskan landslagsgarð frá 18. öld. Slíkir garðar sýna hugmyndir yfirstéttar Englands þess tíma um hvernig náttúran ætti að líta út. Gerð og mótun slíkra garða var oftar en ekki innblásin af landslagsmálverkum.

Merking hugtaksins færðist þannig yfir á landið sem áður var fyrirmynd málverksins, og var landið með þessu gert að fagurfræðilegu viðfangsefni (Olwig, 2002). Með rómantík 19. aldar og þeirri upphafningu á náttúrunni sem henni fylgdi varð landscape að samnefnara fyrir náttúru. Hugtakinu fylgdi þó sú merking sem í það hafði verið lögð og lá því til grundvallar, það er aðskilnaður milli lands og þess sem á það horfir, jafnframt því sem þessi aðskilnaður felur í sér ákveðið drottnunarvald áhorfandans yfir landinu (Cosgrove, 1984).

Ólíkur uppruni íslenska landslagshugtaksins og hliðstæðra hugtaka í Evrópu bendir til að merkingarmunur sé á þessum hugtökum, þótt við fyrstu sýn virðist sem þau vísi til hans sama.

Heimildir:
  • Cosgrove, D. E. (1984). Social Formation and Symbolic Landscape. Wisconsin: The University of Wisconsin Press.
  • Edda R. H. Waage. (2010). Landscape as conversation. Í K. Benediktsson & K. A. Lund (ritstj.), Conversations with landscape (bls. 45-58). Farnham: Ashgate.
  • Eiríks saga rauða. (1935). Í Einar Ól. Sveinsson & Matthías Þórðarson (ritstj.), Íslenzk fornrit 4 (bls. 193-237). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Eiríks saga rauða - Texti Skálholtsbókar AM 557 4to. (1985). Í Ólafur Halldórsson (ritstj.), Viðauki við íslenzk fornrit, IV. bindi (bls. 401-434). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Jón Hilmar Jónsson. (1994). Orðastaður: Orðabók um íslenska málnotkun. Reykjavík: Mál og menning.
  • Morkinskinna. (2011). Í Ármann Jakobsson & Þórður Ingi Kristjánsson (ritstj.), Íslenzk fornrit, 23-24. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Mörður Árnason (Ed.). (2007). Íslensk orðabók (Fjórða útgáfa byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum). Reykjavík: Edda útgáfa hf.
  • Olwig, K. R. (1996). Recovering the Substantive Nature of Landscape. Annals of the Association of American Geographers, 86(4), 630-653.
  • Olwig, K. R. (2002). Landscape Nature, and the Body Politic. Madison, Wisconsin: The University of Wisconsin Press.
  • Ordbog over det norrøne prosasprog. (n.d.). http://dataonp.hum.ku.dk/index.html.
  • Oxford English Dictionary. (2nd ed.) (1989). Oxford: Clarendon Press.
  • Stefán Karlsson. (1964). Aldur Hauksbókar. Fróðskaparrit, 13, 114-121.
  • Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Þorvarður Árnason, Hlynur Bárðarson, & Karen Pálsdóttir. (2010). Íslenskt landslag: Sjónræn einkenni, flokkun og mat á fjölbreytni. Reykjavík: Háskóli Íslands.

Myndir:

Upphaflega hljómaði spurningin svo:
Hvað er landslag og landslagsvernd? Eru dæmi um verndað landslag á Íslandi?

Höfundur

doktorsnemi í landfræði

Útgáfudagur

7.5.2012

Spyrjandi

María Lísbet Ólafsdóttir

Tilvísun

Edda Ruth Hlín Waage. „Hvað merkir hugtakið landslag?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60713.

Edda Ruth Hlín Waage. (2012, 7. maí). Hvað merkir hugtakið landslag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60713

Edda Ruth Hlín Waage. „Hvað merkir hugtakið landslag?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60713>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað merkir hugtakið landslag?
Orðið landslag er rótgróið í íslenskri tungu. Samkvæmt íslenskri orðabók táknar það „heildarútlit landsvæðis, form náttúru á tilteknum stað“ (Mörður Árnason, 2007). Þessi merking orðsins vísar annars vegar til hlutbundinna eiginleika lands og lögunar, hins vegar til þess að landslag er sjónrænt. Samkvæmt Orðabók um íslenska málnotkun tekur orðið landslag gjarnan með sér lýsingarorð á borð við „fallegt, fagurt, tilkomumikið, mikilfenglegt, áhrifamikið, stórbrotið, tignarlegt, svipmikið, stórgert, hrikalegt, tilkomulítið, tilbreytingarlaust, sviplítið, lítilfjörlegt“ (Jón Hilmar Jónsson, 1994). Af þessu má sjá að landslag er jafnframt gildishlaðið hugtak sem vísar til fagurfræðilegrar upplifunar fólks af landi.

Forn ritháttur orðsins er landsleg og er elsta þekkta dæmi þess að finna í Morkinskinnuhandriti (GKS 1009) sem talið er að hafi verið ritað nálægt 1275 (Ordbog over det norrøne prosasprog, n.d.). Orðið kemur þar fyrir í frásögn af falli Magnúsar berfætts Noregskonungs þá er hann gerði strandhögg á Írlandi. Merking þess vísar til yfirborðseinkenna lands:
En þar var svá landsleg sem þeir fóru at í stǫðum váru hrískjǫrr þau ok mýrar nǫkkurar ok sumum stǫðum fen djúp milli hrísanna, ok váru klappir yfir fenin (Morkinskinna, 2011, 2. bindi, bls. 67).

Fjöll eru í fyrirrúmi í merkingu íslenska landslagshugtaksins. Á myndinni sést Stóra-Grænafjall við Fjallabaksleið syðri.

Orðið kemur víðar fyrir í fornum ritum. Annað elsta þekkta dæmið er að finna í Hauksbókarhandriti Eiríks sögu rauða (AM 544 4°), sem ritað var á tímabilinu 1302-1310 (Stefán Karlsson, 1964). Þar segir frá leiðangri Þorfinns karlsefnis og föruneytis í leit að Vínlandi og birtist þar meðal annars þessi lýsing úr leiðangrinum:
Þeir kǫlluðu þar Straumfjǫrð. Þeir báru þar farm af skipum sínum ok bjuggusk þar um. Þeir hǫfðu með sér alls konar fénað. Þar var fagrt landsleg; þeir gáðu einskis, útan at kanna landit (Eiríks saga rauða, 1935, bls. 224).

Merking orðsins hér kynni að vera óljós, ef ekki væri fyrir annað handrit af Eiríks sögu rauða, Skálholtsbók (AM 557 4°) sem talið er vera nær hinum upprunalega texta sögunnar. Í stað setningarinnar „þar var fagrt landsleg“ stendur í því handriti „fjǫll voru þar, ok fagrt var þar um at litask“ (Eiríks saga rauða, 1985, bls. 424-425). Orðið landsleg í dæmi Eiríks sögu rauða vísar því til fjalllendis, með öðrum orðum til lögunar á landinu, og sjónrænnar upplifunar af því, jafnframt því sem talað er um landslagið sem fagurt (sjá nánar Edda R. H. Waage, 2010). Þessi fornu dæmi sýna að merking orðsins á okkar tímum og notkun þess sem hugtaks virðist eiga rætur sínar að rekja minnst sjö aldir aftur í tímann.

Orðið landslag á sér hliðstæður í öðrum tungumálum. Í ensku er það til dæmis landscape, í dönsku landskab, í norsku og sænsku landskap, og í þýsku Landschaft. Þessi orð eru ýmist leidd af eða náskyld norræna orðinu landskapr, sem einnig var að finna í íslensku en er nú úrelt. Merking orðanna landslag og landscape er svipuð að því leyti að bæði vísa þau til náttúrulegra landsvæða og sjónrænnar skynjunar, sem og fagurfræðilegrar upplifunar. Hins vegar táknar enska orðið jafnframt landslagsmálverk (sjá umfjöllun í Þóra Ellen Þórhallsdóttir o.fl., 2010). Þessi merkingarmunur skýrist af ólíkum uppruna hugtakanna.

Orðið landscape var innleitt í enska tungu um aldamótin 1600, og þá í merkingunni landslagsmálverk (Oxford English Dictionary, 1989). Þróun landslagshugtakins í Mið-Evrópu er enda samofin sögu landslagsmálverksins, en einnig þeirri samfélagslegu þróun sem varð með tilkomu markaðshagkerfisins og breyttri landnotkun (Cosgrove, 1984). Eldri orðmyndir úr germönskum málum sýna jafnframt að á 16. öld var hugtakið notað yfir afmörkuð landsvæði sem grundvölluðust á rótgrónum siðum og venjum viðkomandi samfélags (Olwig, 1996). Smám saman tók merking hugtaksins breytingum í enskri tungu með samtvinnun lands og málverks. Á 18. öldinni var til dæmis farið að móta sveitir Englands út frá fagurfræðilegum reglum landslagsmálverksins með gerð svokallaðra landslagsgarða (e. landscape garden). Þar umbreyttu efnamiklir landeigendur víðfeðmum landsvæðum sínum í takt við ríkjandi hugmyndir um hvernig náttúran ætti að líta út, og með fagurfræðilega upplifun að leiðarljósi.

Painshill Park er dæmi um enskan landslagsgarð frá 18. öld. Slíkir garðar sýna hugmyndir yfirstéttar Englands þess tíma um hvernig náttúran ætti að líta út. Gerð og mótun slíkra garða var oftar en ekki innblásin af landslagsmálverkum.

Merking hugtaksins færðist þannig yfir á landið sem áður var fyrirmynd málverksins, og var landið með þessu gert að fagurfræðilegu viðfangsefni (Olwig, 2002). Með rómantík 19. aldar og þeirri upphafningu á náttúrunni sem henni fylgdi varð landscape að samnefnara fyrir náttúru. Hugtakinu fylgdi þó sú merking sem í það hafði verið lögð og lá því til grundvallar, það er aðskilnaður milli lands og þess sem á það horfir, jafnframt því sem þessi aðskilnaður felur í sér ákveðið drottnunarvald áhorfandans yfir landinu (Cosgrove, 1984).

Ólíkur uppruni íslenska landslagshugtaksins og hliðstæðra hugtaka í Evrópu bendir til að merkingarmunur sé á þessum hugtökum, þótt við fyrstu sýn virðist sem þau vísi til hans sama.

Heimildir:
  • Cosgrove, D. E. (1984). Social Formation and Symbolic Landscape. Wisconsin: The University of Wisconsin Press.
  • Edda R. H. Waage. (2010). Landscape as conversation. Í K. Benediktsson & K. A. Lund (ritstj.), Conversations with landscape (bls. 45-58). Farnham: Ashgate.
  • Eiríks saga rauða. (1935). Í Einar Ól. Sveinsson & Matthías Þórðarson (ritstj.), Íslenzk fornrit 4 (bls. 193-237). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Eiríks saga rauða - Texti Skálholtsbókar AM 557 4to. (1985). Í Ólafur Halldórsson (ritstj.), Viðauki við íslenzk fornrit, IV. bindi (bls. 401-434). Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Jón Hilmar Jónsson. (1994). Orðastaður: Orðabók um íslenska málnotkun. Reykjavík: Mál og menning.
  • Morkinskinna. (2011). Í Ármann Jakobsson & Þórður Ingi Kristjánsson (ritstj.), Íslenzk fornrit, 23-24. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Mörður Árnason (Ed.). (2007). Íslensk orðabók (Fjórða útgáfa byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum). Reykjavík: Edda útgáfa hf.
  • Olwig, K. R. (1996). Recovering the Substantive Nature of Landscape. Annals of the Association of American Geographers, 86(4), 630-653.
  • Olwig, K. R. (2002). Landscape Nature, and the Body Politic. Madison, Wisconsin: The University of Wisconsin Press.
  • Ordbog over det norrøne prosasprog. (n.d.). http://dataonp.hum.ku.dk/index.html.
  • Oxford English Dictionary. (2nd ed.) (1989). Oxford: Clarendon Press.
  • Stefán Karlsson. (1964). Aldur Hauksbókar. Fróðskaparrit, 13, 114-121.
  • Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Þorvarður Árnason, Hlynur Bárðarson, & Karen Pálsdóttir. (2010). Íslenskt landslag: Sjónræn einkenni, flokkun og mat á fjölbreytni. Reykjavík: Háskóli Íslands.

Myndir:

Upphaflega hljómaði spurningin svo:
Hvað er landslag og landslagsvernd? Eru dæmi um verndað landslag á Íslandi?

...