Lyfjahópurinn benzodiazepines eykur virkni taugaboðefnisins GABA (e. gamma-amynobutyric acid) sem kemur í veg fyrir streitu með því að fækka ákveðnum taugaviðbrögðum í heilanum, en nákvæm virkni lyfjanna er ögn ólík. Sumar tegundir eru notaðar aðallega sem svefnlyf eða til að minnka daglegan kvíða. Lyfin eru einnig gagnleg til að minnka fráhvarfseinkenni alkóhóls, draga úr vöðvakrampa eða undirbúa sjúkling fyrir svæfingu og eru þau þá kölluð kæruleysislyf. Lyfin koma bæði á uppleystu formi og sem töflur. Fylgikvillar benzodizepines eru til dæmis syfja og vöðvaósamhæfni. Þau eru oftast aðeins gefin til skamms tíma því séu þau gefin lengur geta sjúklingar fengið fráhvarfseinkenni þegar þeir hætta að taka lyfið. Virkt milliefni af benzodiezepine er lyfið flunitrapezam, oftast kallað rohypnol. Það er markaðsett sem slævilyf, krampaleysir, lyf gegn streitu og til að slaka á beinagrindavöðvum, en er mest notað við slæmu svefnleysi. Rohypnol var mikið notað af læknum sem róandi lyf fyrir svæfingu en heldur hefur dregið úr því núna. Ástæðan er sú að lyfið hefur verið misnotað sem nauðgunarlyf og er þá kallað „rúfís“. Þar sem lyfið veldur minnisleysi og gerir einstakling mjög meðfærilegan er það mjög hættulegt, sé það notað í þessum tilgangi. Ef lyfið er tekið í of miklu magni getur það valdið jafnvægisleysi og erfiðleikum með tal, í miklu óhófi getur það svo leitt til þess að hægir á öndun einstaklings sem getur fallið í dá og í versta falli látist. Sé lyfið tekið samhliða áfengi getur það einnig leitt til eitrunar og dauða. Efnasambandið N2O er einnig notað í svipuðum tilgangi og fyrrnefnd lyf og það er líka þekkt sem kæruleysislyf. Annað heiti þess er hláturgas eða glaðgas. Um það má lesa meira í svari eftir sama höfund við spurningunni Hvaða áhrif hefur hláturgas á menn?
Heimildir:
- en.wikipedia.org - Flunitrazepam
- en.wikipedia.org - Benzodiazepine
- Encyclopædia Britannica - benzodiazepine (drug)
- St. John Providence Health System. Sótt 27.9.2011.