Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
James Cook (1728-1779) var einn mesti landkönnuður á sinni tíð. Hann sigldi yfir Kyrrahafið þvert og endilangt, fór yfir 70. breiddargráðu bæði í norðri og suðri, var fyrstur manna til þess að sigla umhverfis jörðina á mjög suðlægum slóðum, fann óþekktar eyjur, kannaði aðrar sem áður var vitað um og skildi eftir sig mörg nákvæm kort sem voru í fullu gildi áratugi og aldir eftir hans dag.
James Cook fæddist í þorpinu Marton í Yorkshire 14. febrúar 1728, annað af átta börnum skosks landbúnaðarverkamanns og eiginkonu hans. Hann þótti snemma efnilegur og greiddi vinnuveitandi föður hans skólagöngu drengsins fram til 12 ára aldurs. Þegar skólagöngunni lauk starfaði Cook fyrst með föður sínum en réðst svo sem lærlingur til kaupmanns í fiskiþorpinu Staithes í Norður-Yorkshire. Þar var hann kominn í nábýli við hafið og er talið að þá hafi áhugi hans á sjómennsku og siglingum kviknað. Átján ára gamall fór hann til hafnarbæjarins Whitby þar sem hann réðst sem lærlingur til útgerðar sem var í kolasiglingum.
Næstu árin sigldi Cook á kolaskipum, fyrst aðallega á milli hafna á Englandi en síðan til hafna við Norðursjó og Eystrasalt. Þegar hann átti lausa stund notaði hann tímann og kynnti sér stærðfræði, siglingafræði og stjörnufræði.
Árið 1755, í aðdraganda sjö ára stríðsins þar sem Bretar og Frakkar áttust við ásamt bandamönnum sínum, gekk Cook í breska sjóherinn. Styrjöldin var aðallega háð í Evrópu en einnig í Norður-Ameríku og á hafi úti. Cook tók þátt í sjóorustum og hernaðaraðgerðum beggja vegna Atlantshafsins og komst fljótt til metorða. Á þessum árum kom berlega í ljós að Cook var mjög hæfileikaríkur þegar kom að siglingafræði, landmælingum og kortagerð, hann kortlagði meðal annars mynni Saint Lawrence-fljóts í Kanada en nákvæmt kort af þeim slóðum kom Bretum sér vel í átökum við Frakka þar. Að stríðinu loknu var Cook áfram við strendur Norður-Ameríku og kortlagði alla strandlengju Nýfundnalands af meiri nákvæmni en áður þekktist. Þótti vinna hans svo góð að kortin voru notuð allt fram á 20. öldina.
Verkefni Cooks í Norður-Ameríku höfðu vakið athygli á honum bæði hjá flotamálaráðuneytinu og Konunglega vísindafélaginu (Royal Society). Var hann í kjölfarið ráðinn af þessum aðilum til þess að fara fyrir leiðangri til Kyrrahafsins og var yfirlýstur tilgangur ferðarinnar að fylgjast með þvergöngu Venusar. Í ágúst árið 1768 sigldi skipið Endeavour úr höfn í Plymouth, yfir Atlantshafið, fyrir Suður-Ameríku inn á Kyrrahafið og náði til Tahíti í apríl 1769. Þar var fylgst með Venusi en síðan hófst hið eiginlega verkefni leiðangursins, leitin að óþekkta landinu í suðri.
James Cook var einn viðförlasti sæfari á sinni tíð og sigldi til dæmis lengra bæði í suður og norður en aðrir höfðu farið þá. Fyrsti leiðangurinn (1768-1771) er táknaður með rauðu, annar leiðangurinn (1772-1775) er táknaður með grænu og bláa heila línan sýnir leið þriðja leiðangursins (1776-1779), þar til Cook var ráðinn af dögum en bláa brotna línan er sá hluti leiðarinnar sem farinn var eftir fráfall Cooks.
Um aldir var því almennt trúað að á suðurhveli jarðar væri gríðarstórt meginland, (Terra Australis Incognita - óþekkt land í suðri) sem væri eins konar mótvægi við meginlöndin á norðurhveli. Siglingastórveldi Evrópu höfðu mikinn áhuga á að finna þetta land. Cook tókst ekki að finn landið í suðri en leiðangurinn var engu að síður árangursríkur. Árið 1642 hafði Hollendingurinn Abel Tasman fundið Nýja-Sjáland en hann gerði sér ekki grein fyrir því að um tvær eyjur væri að ræða. Sumir töldu jafnvel að þetta gæti verið hið dularfulla meginland. Nýja-Sjáland var ekkert kannað nánar fyrr en tæpum 130 árum síðar þegar Cook og áhöfn hans komu þar að landi. Í sex mánuði sigldi Cook fyrstur manna umhverfis Nýja-Sjáland, komst að því að þetta voru tvær eyjur og kortlagði strandlengjur þeirra nokkuð nákvæmlega. Þessi sigling sýndi að Nýja-Sjáland gat ekki verið hið eftirsótta Terra Australis.
Cook og áhafnarmeðlimir hans voru fyrstir vestrænna manna til að koma að suðausturströnd Ástralíu svo vitað sé. Siglt var norður meðfram allri austurströndinni, unnið að kortlagningu og ýmsar athuganir gerðar. Niðurstöður úr þessum athugunum, meðal annars lýsing á aðstæðum í Botany Bay, voru hafðar til hliðsjónar þegar Bretar ákváðu 18 árum seinna að stofna fanganýlendu í Ástralíu og tóku land í Botany Bay (en þá kom í ljós að ekki var alls kostar rétt með farið og aðstæður ekki hagstæðar og því fljótt brugðið á það ráð að flytja nýlenduna til Sydney). Skip Cooks laskaðist á þessari siglingu austur með Ástralíu þegar það skeytti á skeri í Kóralrifinu mikla og þurfti að taka land í sjö vikur meðan unnið var að viðgerð þess. Eftir að hafa helgað konungi sínum alla austurströnd Ástralíu var haldið sem leið lá heim, siglt um Torressund á milli Ástralíu og Nýju-Gíneu og þar með staðfest að þetta væri ekki eitt land, yfir Indlandshaf, fyrir Góðravonarhöfða og komið að ströndum Englands í júlí 1771 tæpum þremur árum eftir að lagt var af stað.
Endurgerð á skipinu Endeavour sem Cook sigldi í sinni fyrstu Kyrrahafsferð. Í áhöfninni voru 95 menn að Cook meðtöldum.
Ári seinna hélt Cook í sína aðra Kyrrahafsferð. Að þessu sinni voru leiðangursskipin tvö, Resolution sem hann stýrði sjálfur og Adventure. Meginmarkmið ferðarinnar var að ganga úr skugga um það í eitt skipti fyrir öll hvort óþekkt meginland væri að finna í Suðurhöfum. Í þessari ferð sigldi hann umhverfis jörðina á suðlægari slóðum en áður hafði verið gert og var líka einna fyrstur manna ásamt áhöfnum sínum til þess að fara yfir suðurheimskautsbaug og enn sunnar, allt suður yfir 70. breiddarbaug. Ferðin tók þrjú ár. Ekkert óþekkt meginland fannst í ferðinni og að henni lokinni gat Cook kveðið niður sögusagnir um Terra Australis.
Aftur stoppaði Cook aðeins í um ár heima á Englandi áður en hann hélt í sína þriðju og síðustu ferð um Kyrrahafið sumarið 1776. Í leiðangrinum voru tvö skip, Resolution og Discovery. Markmiðið að þessu sinni var að leita að því sem gekk undir nafninu norðvesturleiðin, siglingaleiðinni á milli Atlantshafs og Kyrrhafs norður fyrir Norður-Ameríku. Nokkrir leiðangrar höfðu þegar verið farnir til þess að leita þessarar leiðar og þá frá Atlantshafi en í þetta skiptið átti að leita hennar frá Kyrrahafi. Það er skemmst frá því að segja að ferðin skilaði ekki tilætluðum árangri og raunar fannst siglingaleiðin þarna á milli ekki fyrr en í byrjun 20. aldar. En eins og áður kortlagði Cook þær strandlengjur sem hann sigldi hjá, þar á meðal stóran hluta af norðvesturströnd Norður-Ameríku. Á leið sinni til baka tók Cook land á Hawaii. Þar skarst í odda milli sæfaranna og frumbyggja sem endaði með því að Cook var stunginn til bana, 14. febrúar 1779.
Mynd eftir þýska listamanninn Johann Zoffany af dauða James Cook. Myndin er frá því um 1795.
Siglingar James Cooks voru mikilvægur áfangi í könnun hafsins, hann kortlagði áður ókortlögð svæði af mikilli nákvæmni, hann sýndi fram á að hið dularfulla meginland í suðurhöfum væri ekki til og bætti stórum landsvæðum við breska heimsveldið þegar hann helgaði þau krúnunni. Í öllum þremur ferðum sínum um Kyrrahafið fann Cook eyjar sem Evrópumenn höfðu ekki áður komið til og kannaði betur margar eyjar sem áður höfðu „fundist“. Einnig gaf hann mörgum fyrirbærum nöfn sem sum eru enn í fullu gildi.
Á tímum landafundanna var skyrbjúgur einn versti óvinur sæfara og hjó sá sjúkdómur oft stór skörð í áhafnir skipa. Það vakti því mikla athygli að Cook missti ekki einn einasta áhafnarmeðlim í öllum þremur ferðum sínum úr þessum hræðilega sjúkdómi og að almennt var heilsufar manna hans betra en menn áttu að venjast á þessum tíma. Þetta má þakka þeirri áherslu sem Cook lagði á að áhafnir hans borðuðu fæði sem talið var geta komið í veg fyrir skyrbjúg og ástunduðu hreinlæti.
James Cook hefur verið sýndur margs konar sómi í seinni tíð. Mörg fyrirbæri í náttúrunni bera nafn hans, svo sem Cookeyjar í Kyrrahafinu, Cooksund á milli Norður- og Suðureyjar á Nýja-Sjálandi, Cookfjall sem er hæsti tindur Nýja-Sjálands, Cookvogur í Alaska, Cookfjall sem er á mörkum Alaska og Yukon í Kanada og á tunglinu er gígur nefndur eftir honum. Á Hawaii er bærinn Captain Cook, til er háskóli, sjúkrahús og fleira sem kennt er við Cook og þá voru bandarísku geimferjurnar Endeavour og Discovery nefndar eftir skipum úr leiðöngrum hans.
Þess má að lokum geta að James Cook á ekki neina afkomendur. Hann kvæntist árið 1762 konu að nafni Elizabeth Batts (1742–1835) og átti með henni sex börn. Aðeins einn sonur náði fullorðinsaldri en hann lést barnlaus rétt um þrítugt.
Heimildir og myndir:
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var James Cook og hvað hvert sigldi hann?“ Vísindavefurinn, 16. september 2011, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60661.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2011, 16. september). Hver var James Cook og hvað hvert sigldi hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60661
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hver var James Cook og hvað hvert sigldi hann?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2011. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60661>.