Rannsóknir á kúlufiskum benda til þess að eitrið sé tilkomið vegna þess að þeir éta smávaxna hryggleysingja sem hafa í sér bakteríur sem framleiða eitrið. Aðallega er um að ræða bakteríur af ættkvíslinni Pseudomonas. Kúlufiskar hafa eftir árþúsunda þróun náð að koma sér upp ónæmi gagnvart eitri þessara baktería. Frægastur kúlufiska er tegund sem nefnist á japönsku torafugu eða tiger blowfish á ensku (Takifugu rubripes). Hann hefur í innyflum sínum og roði talsvert magn af tetrodotoxín (anhydrotetrodotoxin 4-epitetrodotoxin). Þetta eitur er 1200 sinnum eitraðra en blásýra (cyaníð) og er magn eiturs í hverjum fiski sagt geta valdið dauða allt að 30 manna. Þrátt fyrir að vera baneitraðir eru kúlufiskar notaðir í japanskri matargerð. Eins og svo margar aðrar tegundir eru þeir notaðar í sashimi þar sem hrár ferskur fiskur er borinn fram í litlum sneiðum ásamt meðlæti eins og hrísgrjónum. Einnig eru kúlufiskar notaðir í rétt sem nefnist chirinabe en þar er hann borinn fram soðinn. Matreiðslumenn sem útbúa rétti úr kúlufiskum þurfa að fjarlægja eitraða hluta fisksins vandlega og forðast krossmengun við kjötið og aðra hluta fisksins og jafnvel áhöld í eldhúsinu. Svokallaðir fugu-matreiðslumenn undirgangast mjög stífa þjálfun í að matreiða fiskana og eru veitingahús sem bjóða upp á slíka rétti undir stífu eftirliti stjórnvalda í Japan. En það er einnig hægt að kaupa fiskinn á mörkuðum og hafa hlotist af því banvænar eitranir í heimahúsum þar sem fólk hefur ekki gætt að sér í meðferð á hráefninu.
Eitrið er þó ekki bara til óþurftar því vitað er að það getur linað sársauka og er unnið að því að nota það í verkjalyf. Þess má geta að víða í Japan eru fiskeldisbændur sem rækta eiturfría kúlufiska með því að halda bakteríum sem valda eitruninni frá þeim. Myndir:
- Torafugu: GENOME Research. Sótt 14. 11. 2011.
- Matur á diski: Diseno-art.com. Sótt 14. 11. 2011.