Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver yrðu áhrif inngöngu Íslands í ESB á verðbólgu?

Ólafur Margeirsson

Áhrifin á verðbólgu af inngöngu í Evrópusambandið eru líklegast hverfandi. Áhugaverða spurningin í því sambandi er hins vegar hvort upptaka evru mundi hafa áhrif. Í sjálfu sér er óvíst hvort evran sem slík hefði beinlínis áhrif en ljóst er að svonefnd Maastricht-skilyrði sem uppfylla verður til að hægt sé að taka upp evru mundu hafa mikil áhrif á verðbólgu á Íslandi.

***

Í þessu svari verður gert ráð fyrir því að spyrjandi hafi í huga áhrif evruupptöku á verðbólgu á Íslandi í kjölfar hugsanlegrar inngöngu í ESB. Regluverk ESB er viðkemur efnahagsstefnu sambandsins, svo sem reglurnar um fjórfrelsið, hefur nú þegar verið tekið upp að mestu á Íslandi. Því hefði það líklega takmörkuð áhrif á verðbólgu að ganga í ESB og aðlaga íslenskt reglugerða- og lagaverk að fullu að því evrópska – nema það beinlínis banni séríslenska þætti eins og verðtryggingu lána til einstaklinga, sem vissulega hefði áhrif á verðbólguþróun. Áhugaverða spurningin er hins vegar hvort og hvernig evran mundi hafa áhrif á gang íslenska hagkerfisins.

Það eru skiptar skoðanir um hvernig og hvort hin sameiginlega mynt hafi haft áhrif á verðbólguþróun innan evrusvæðisins. Í núverandi evrulöndum lækkaði verðbólga að jafnaði hratt á 10. áratug síðustu aldar, áður en evran var tekin upp sem lögeyrir, og breytileiki verðbólgu milli landanna einnig. Ein af ástæðunum fyrir þessu var fastgengisstefna landanna, sem öll voru þátttakendur í evrópska gengissamstarfinu (e. European Exchange Rate Mechanism), eins konar undirbúningskerfi fyrir evrusamstarfið.

Meðalverðbólga og breytileiki (staðalfrávik) hennar milli þeirra 12 landa sem tóku fyrst upp evru. Báðir þættirnir lækkuðu hratt frá 1991, meðal annars vegna fastgengisstefnu þeirra innan evrópska myntsamstarfsins. Rannsóknum ber ekki saman um hvort upptaka sameiginlegrar myntar, evrunnar, hafi haft teljandi áhrif á þessa þróun. Ársfjórðungsgögn frá OECD. Evrulöndin sem um ræðir: Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn, Þýskaland. Óvegið meðaltal og óvegið staðalfrávik. Byggt á samræmdri neysluverðsvísitölu (e. Harmonised Consumer Price Index).

Rannsóknum ber ekki saman um hvort innleiðing sameiginlegs lögeyris, evrunnar, hafi haft áberandi áhrif á þessa þróun (sjá heimildir neðst). Þá er enn ekki búið að fá úr því skorið hvort evrusvæðið sé svokallað hagkvæmt myntsvæði (e. Optimum Currency Area). Þetta skiptir miklu máli því ef evrusvæðið er hagkvæmt myntsvæði sér sameiginleg mynt til þess að sveiflur í stærðum eins og verðbólgu, atvinnuleysi og launamismun jafnast nánast sjálfkrafa út. Ef evrusvæðið er hins vegar ekki hagkvæmt myntsvæði getur sameiginleg mynt í raun gert illt verra. Aðrar ráðstafanir, svo sem sameiginleg ríkisfjármálastefna, þurfa þá að koma til svo hægt sé að búast við að myntsvæðið verði hagkvæmt.

Út af vafanum um hvort evrusvæðið sé hagkvæmt myntsvæði er ekki víst að áhrif evrunnar sem slíkrar séu teljandi. Verði evran lögeyrir á Íslandi getur verðbólguþróun þó breyst vegna annarra þátta en beinlínis evrunnar sjálfrar. Þessir þættir eru meðal annars Maastricht-skilyrðin sem ríki verða að uppfylla – og í raun viðhalda – ef þau ætla sér að taka upp evru og halda henni sem lögeyri. Í skilyrðunum felst meðal annars að skuldir hins opinbera verða að vera undir 60% af vergri landsframleiðslu, verðbólga má ekki vera meira en 1,5 prósentustigum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur aðildarríkjum sem hafa lægsta verðbólgu og síðast en ekki síst yrði íslenska krónan að vera bundin fastgengi við evruna í að minnsta kosti tvö ár áður en upptaka evru væri möguleg. Það fastgengi yrði varið af bæði Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.

Einsetji Íslendingar sér að uppfylla Maastricht-skilyrðin mundi það valda umbyltingu á íslenska hagkerfinu. Nánast öruggt er að verðbólga mundi lækka í kjölfarið. Í fyrsta lagi felst það beinlínis í orðanna hljóðan að ætli Íslendingar sér að uppfylla skilyrðin verður verðbólga að lækka frá því sem hún hefur verið að jafnaði síðustu áratugi; en verðbólga á Íslandi hefur á tíðum verið langt fyrir ofan verðbólgu á evrusvæðinu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Verðbólga meðal nokkurra evrulanda, innan evrusvæðisins sem heildar og á Íslandi. Ársfjórðungsgögn frá OECD. Byggt á samræmdri neysluverðsvísitölu (e. Harmonised Consumer Price Index).

Í öðru lagi verður afgangur á fjárlögum að vera mjög áberandi næstu ár eigi að takast að lækka skuldir ríkissjóðs niður í 60% af landsframleiðslu en þær standa nú í 111%. Til þess yrði mikið aðhald nauðsynlegt í opinberum fjármálum sem mundi þýða að ekki yrðu miklar verðhækkanir af völdum hins opinbera í gegnum lántökur og hallarekstur á meðan. Í þriðja lagi er innflutningsverðbólga – hækkun á innfluttum vörum og þjónustu – mjög áberandi á Íslandi. Fastgengisstefna sem væri varin af bæði Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu mundi hins vegar umsvifalaust draga úr innflutningsverðbólgu, sérstaklega ef íslensk peningayfirvöld þyrftu að reka aðhaldssama peningamálastefnu til að verja fastgengið.

Niðurstaðan er því sú að verðbólga mundi lækka ef stefnt yrði að því að taka upp evru. Þá yrði verðbólgan að haldast lág ætti að takast að halda í evruna sem gjaldmiðil. Hins vegar getur meginástæðan fyrir því falist í Maastricht-skilyrðunum sjálfum en ekki evrunni sem gjaldmiðli.

Heimildir:

Höfundur

doktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi

Útgáfudagur

27.1.2012

Spyrjandi

Kristinn Þór Jakobsson

Tilvísun

Ólafur Margeirsson. „Hver yrðu áhrif inngöngu Íslands í ESB á verðbólgu?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60635.

Ólafur Margeirsson. (2012, 27. janúar). Hver yrðu áhrif inngöngu Íslands í ESB á verðbólgu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60635

Ólafur Margeirsson. „Hver yrðu áhrif inngöngu Íslands í ESB á verðbólgu?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60635>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver yrðu áhrif inngöngu Íslands í ESB á verðbólgu?
Áhrifin á verðbólgu af inngöngu í Evrópusambandið eru líklegast hverfandi. Áhugaverða spurningin í því sambandi er hins vegar hvort upptaka evru mundi hafa áhrif. Í sjálfu sér er óvíst hvort evran sem slík hefði beinlínis áhrif en ljóst er að svonefnd Maastricht-skilyrði sem uppfylla verður til að hægt sé að taka upp evru mundu hafa mikil áhrif á verðbólgu á Íslandi.

***

Í þessu svari verður gert ráð fyrir því að spyrjandi hafi í huga áhrif evruupptöku á verðbólgu á Íslandi í kjölfar hugsanlegrar inngöngu í ESB. Regluverk ESB er viðkemur efnahagsstefnu sambandsins, svo sem reglurnar um fjórfrelsið, hefur nú þegar verið tekið upp að mestu á Íslandi. Því hefði það líklega takmörkuð áhrif á verðbólgu að ganga í ESB og aðlaga íslenskt reglugerða- og lagaverk að fullu að því evrópska – nema það beinlínis banni séríslenska þætti eins og verðtryggingu lána til einstaklinga, sem vissulega hefði áhrif á verðbólguþróun. Áhugaverða spurningin er hins vegar hvort og hvernig evran mundi hafa áhrif á gang íslenska hagkerfisins.

Það eru skiptar skoðanir um hvernig og hvort hin sameiginlega mynt hafi haft áhrif á verðbólguþróun innan evrusvæðisins. Í núverandi evrulöndum lækkaði verðbólga að jafnaði hratt á 10. áratug síðustu aldar, áður en evran var tekin upp sem lögeyrir, og breytileiki verðbólgu milli landanna einnig. Ein af ástæðunum fyrir þessu var fastgengisstefna landanna, sem öll voru þátttakendur í evrópska gengissamstarfinu (e. European Exchange Rate Mechanism), eins konar undirbúningskerfi fyrir evrusamstarfið.

Meðalverðbólga og breytileiki (staðalfrávik) hennar milli þeirra 12 landa sem tóku fyrst upp evru. Báðir þættirnir lækkuðu hratt frá 1991, meðal annars vegna fastgengisstefnu þeirra innan evrópska myntsamstarfsins. Rannsóknum ber ekki saman um hvort upptaka sameiginlegrar myntar, evrunnar, hafi haft teljandi áhrif á þessa þróun. Ársfjórðungsgögn frá OECD. Evrulöndin sem um ræðir: Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn, Þýskaland. Óvegið meðaltal og óvegið staðalfrávik. Byggt á samræmdri neysluverðsvísitölu (e. Harmonised Consumer Price Index).

Rannsóknum ber ekki saman um hvort innleiðing sameiginlegs lögeyris, evrunnar, hafi haft áberandi áhrif á þessa þróun (sjá heimildir neðst). Þá er enn ekki búið að fá úr því skorið hvort evrusvæðið sé svokallað hagkvæmt myntsvæði (e. Optimum Currency Area). Þetta skiptir miklu máli því ef evrusvæðið er hagkvæmt myntsvæði sér sameiginleg mynt til þess að sveiflur í stærðum eins og verðbólgu, atvinnuleysi og launamismun jafnast nánast sjálfkrafa út. Ef evrusvæðið er hins vegar ekki hagkvæmt myntsvæði getur sameiginleg mynt í raun gert illt verra. Aðrar ráðstafanir, svo sem sameiginleg ríkisfjármálastefna, þurfa þá að koma til svo hægt sé að búast við að myntsvæðið verði hagkvæmt.

Út af vafanum um hvort evrusvæðið sé hagkvæmt myntsvæði er ekki víst að áhrif evrunnar sem slíkrar séu teljandi. Verði evran lögeyrir á Íslandi getur verðbólguþróun þó breyst vegna annarra þátta en beinlínis evrunnar sjálfrar. Þessir þættir eru meðal annars Maastricht-skilyrðin sem ríki verða að uppfylla – og í raun viðhalda – ef þau ætla sér að taka upp evru og halda henni sem lögeyri. Í skilyrðunum felst meðal annars að skuldir hins opinbera verða að vera undir 60% af vergri landsframleiðslu, verðbólga má ekki vera meira en 1,5 prósentustigum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur aðildarríkjum sem hafa lægsta verðbólgu og síðast en ekki síst yrði íslenska krónan að vera bundin fastgengi við evruna í að minnsta kosti tvö ár áður en upptaka evru væri möguleg. Það fastgengi yrði varið af bæði Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu.

Einsetji Íslendingar sér að uppfylla Maastricht-skilyrðin mundi það valda umbyltingu á íslenska hagkerfinu. Nánast öruggt er að verðbólga mundi lækka í kjölfarið. Í fyrsta lagi felst það beinlínis í orðanna hljóðan að ætli Íslendingar sér að uppfylla skilyrðin verður verðbólga að lækka frá því sem hún hefur verið að jafnaði síðustu áratugi; en verðbólga á Íslandi hefur á tíðum verið langt fyrir ofan verðbólgu á evrusvæðinu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Verðbólga meðal nokkurra evrulanda, innan evrusvæðisins sem heildar og á Íslandi. Ársfjórðungsgögn frá OECD. Byggt á samræmdri neysluverðsvísitölu (e. Harmonised Consumer Price Index).

Í öðru lagi verður afgangur á fjárlögum að vera mjög áberandi næstu ár eigi að takast að lækka skuldir ríkissjóðs niður í 60% af landsframleiðslu en þær standa nú í 111%. Til þess yrði mikið aðhald nauðsynlegt í opinberum fjármálum sem mundi þýða að ekki yrðu miklar verðhækkanir af völdum hins opinbera í gegnum lántökur og hallarekstur á meðan. Í þriðja lagi er innflutningsverðbólga – hækkun á innfluttum vörum og þjónustu – mjög áberandi á Íslandi. Fastgengisstefna sem væri varin af bæði Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu mundi hins vegar umsvifalaust draga úr innflutningsverðbólgu, sérstaklega ef íslensk peningayfirvöld þyrftu að reka aðhaldssama peningamálastefnu til að verja fastgengið.

Niðurstaðan er því sú að verðbólga mundi lækka ef stefnt yrði að því að taka upp evru. Þá yrði verðbólgan að haldast lág ætti að takast að halda í evruna sem gjaldmiðil. Hins vegar getur meginástæðan fyrir því falist í Maastricht-skilyrðunum sjálfum en ekki evrunni sem gjaldmiðli.

Heimildir:...