Við hreinsunarstörfin ættu menn að varast að snerta kvikasilfrið með berum höndum. Alls ekki er ráðlegt að nota ryksugu til að ná kvikasilfrinu upp því þá geta gufur af efninu dreifst um. Ef föt komast í snertingu við kvikasilfur ætti að farga þeim. Ef líkur eru á því að eitthvað af kvikasilfrinu sé eftir í teppum eða mottum er hægt að nota brennisteinsduft til að binda kvikasilfrið. Brennisteins- og kvikasilfursblönduna ætti síðan að fara með í næsta apótek eða Sorpu. Kvikasilfur er svonefnt frumefni og myndaðist ásamt öðrum frumefnum sólkerfisins í iðrum stórra sólstjarna einhvern tíma á árdögum alheimsins. Einungis tvö frumefni eru þekkt á vökvaformi við staðalaðstæður (eina loftþyngd og 25°C) og er kvikasilfur annað þeirra. Kvikasilfur finnst aðallega í náttúrunni sem steintegundin sinnóber (kvikasilfursúlfíð, HgS). Helstu námurnar eru á Spáni og Ítalíu. Kvikasilfur er meðal annars notað í rannsóknatæki, eins og hitamæla, það er líka sett í amalgam í tennur og í skordýraeitur. Vegna þess hversu eitrað það er reyna menn að komast hjá því að nota það. Í dag fást til dæmis hitamælar með lituðu alkóhóli og plastefni eru sett í tannfyllingar í stað kvikasilfurs. Heimildir, frekara lesefni og mynd:
- Hvar finnst kvikasilfur í náttúrunni? eftir Sigurð Steinþórsson.
- Mercurysafety.com. Skoðað 2.9.2011.
- Doktor.is. Skoðað 2.9.2011.
- Webelements.com. Skoðað 2.9.2011.
- Johnson County, Kansas Environmental Department. Sótt 2.9.2011.