Á árunum 1951-2010 voru 74 þríburafæðingar á Íslandi. Í þeim fæddust 215 börn lifandi en 7 börn voru fædd andvana. Á sama tíma fæddust alls 264.862 börn á landinu. Hlutfall þríbura af lifandi fæddum börnum á þessu tímabili var því 0,08% en hlutfall á hverju ári fyrir sig var 0-0,4%. Hlutfall þríburafæðinga af öllum fæðingum á þessu tímabili var hins vegar um 0,03%.
Þríburafæðingar á Íslandi náðu hámarki árið 1994 en þá áttu sex slíkar fæðingar sér stað og 18 þríburar fæddust. Mörg þessara ára fæddust engir þríburar á landinu, svo sem árið 2010. Á tíunda áratug síðustu aldar jókst tíðni þríburafæðinga en líklega má rekja það til aukinnar tíðni tæknifrjóvgana og notkunar frjósemislyfja. Fjölburameðgöngum og -fæðingum fylgir margföld áhætta miðað við þegar kona gengur með einbura, einkum vegna mun hærri tíðni fyrirburafæðinga. Því hafa á allra síðustu árum verið þróaðar nýjar aðferðir við tæknifrjóvganir til að minnka líkur á fjölburum. Heimildir og graf: Mynd af þríburum:
- Wikimedia commons. Sótt 27. 7. 2011.
Vísindavefurinn fékk ábendingu um það frá lesanda að Hagstofan og Fæðingarskráningin noti ekki alveg sömu viðmið varðandi andvana fæðingar. Í töflum Hagstofu Íslands eru andvana fædd börn þau börn sem koma í heiminn án lífsmarks eftir a.m.k. 28 vikna meðgöngu. Styttri meðganga telst vera fósturlát. Fæðingarstofnanir á Íslandi hafa allt frá árinu 1992 sett mörkin við 22 vikna meðgöngu og 500 g þyngd. Þetta kann að leiða til þess að í einhverjum tilfellum er barn talið andvana fætt í skýrslu Fæðingarskráningar en talið fósturlát hjá Hagstofunni.