at ráð þitt var gerpiligt, þá er þú vart með goðorð Þorsteins ok veittir mörgum bæði í fjártillögum ok málafylgjum, en nú gefr þér glámsýni …Einnig kemur fyrir viðurnefnið gerpir. Örgumleiði Geirólfssonar gerpis er til dæmis nefndur í 87. kafla Njáls sögu. Mannsnafnið Gerpir virðist koma fyrir í 12. kafla Grettis sögu. Fjögur dæmi um orðið gerpilegur er að finna í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Hið elsta er frá síðasta þriðjungi 18. aldar en þrjú úr þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Öll tengjast þau mannlýsingum. Í einu þjóðsagnadæminu er maður til dæmis „sterklegur og gerpilegur í sjón“. Hjá Sigfúsi er einnig að finna dæmið gerpimenni notað í jákvæðri merkingu: „Þau áttu fjóra syni, alla gerpimenni“, og úr tímaritinu Múlaþingi er einnig dæmi um gerpimenni: „Sigfús var [...] sérstaklega karlmannlegur hvar sem á hann var litið, ósvikið gerpimenni.“ Þessi dæmi má öll rekja til Austurlands. Um hvorugkynsorðið gerpi er elst dæmi í söfnum Orðabókarinnar frá miðri 17. öld og er það notað um heldur lítilfjörlega manneskju. Öll yngri dæmi eru einnig notuð í neikvæðri merkingu um mann.
Öll eru fyrrgreind orð skyld orðinu garpur sem notað er um duglegan mann, hetju, en einnig um þrætugjarnan mann og gæti merking orðsins gerpi verið sótt þangað. Ásgeir Blöndal Magnússon bendir á í Íslenskri orðsifjabók að sögnin garpa í nýnorsku merki ‛gorta, vera rustafenginn í tali’ og að í sænskum mállýskum sé til sögnin garpa í merkingunni ‛skvaldra, gorta, brúka munn’. Því sé upphafleg merking orðsins gerpi ‛vera rostafenginn í tali’ (1989:242). Tengsl eru án efa milli neikvæðu merkingar orðsins garpur, það er þrætugjarn maður’ og orðsins gerpi. Mynd:
- Flickr.com. Birt undir Creativ Commons-leyfi. Sótt 8.11.2011.