Er hægt að fá eða kaupa bréf í t.d iðngreinum og ef svo er hverjir veita upplýsingar?
Forsetabréf teljast til stjórnsýslufyrirmæla. Stjórnsýslufyrirmæli geta verið með ýmsu móti en þekktust þeirra eru líklega reglugerðir settar af ráðherrum. Stjórnsýslufyrirmæli teljast hafa lægri réttarstöðu en lög samkvæmt fræðikerfi lögfræðinnar. Það merkir í raun að lögum verður ekki breytt með stjórnsýslufyrirmælum, og rekist lög og stjórnsýslufyrirmæli á verður farið eftir lagatextanum. Nánari útlistun á réttarheimildafræði er hins vegar of langt mál fyrir stutt svar eins og þetta. Forsetabréf eru sem sagt stjórnsýslufyrirmæli sem forseti setur og fela í sér ýmsar reglur sem ætlað er að gildi almennt í samfélaginu. Dæmi um forsetabréf (og forsetaúrskurð sem hafa nánast sama gildi) eru til dæmis Forsetabréf um starfsháttu orðunefndar, Forsetabréf um hina íslensku fálkaorðu, Forsetaúrskurður um fánadaga og fánatíma og Forsetaúrskurður um sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur. Að sjálfsögðu er algjörlega óheimilt að reyna að kaupa forsetabréf eða forsetaúrskurð og væri það refsiverð mútuþægni ef forseti féllist á að gefa út forsetabréf gegn greiðslu. Eins og sést af ofangreindu teljast forsetabréf og forsetaúrskurðir til réttarheimilda eins og lög, reglugerðir, venja og svo framvegis. Bréf í iðngreinum eru töluvert annars eðlis þar sem þau veita starfsréttindi en teljast ekki til réttarheimilda. Um útgáfu slíkra bréfa segir í Iðnaðarlögum nr. 42/1978. Samkvæmt 12. gr. þeirra sér lögreglustjóri um útgáfu meistarabréfa en iðnaðarráðherra um útgáfu sveinsbréfa. Slík bréf eru bundin við nafn viðtakandans og þarf sá sem æskir slíks bréfs að uppfylla tiltekin skilyrði. Sveinspróf er grundvöllur útgáfu sveinsbréfs og einnig til að hefja megi meistaranám. Um skilyrði þess að öðlast sveinspróf er fjallað í Lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996 og aðalnámsskrá framhaldsskóla sem nálgast má á vef menntamálaráðuneytisins. Af þessu öllu er ljóst að menn þurfa að vinna sér inn ákveðin réttindi og uppfylla ákveðin skilyrði til að öðlast iðnbréf og útilokað er að kaupa slík bréf. Svör um skyld efni á Vísindavefnum eru til dæmis:
- Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum? eftir Árna Helgason
- Hvað er réttarregla? eftir Sigurð Guðmundsson
- Hafa allar íslenskar reglugerðir við lög verið teknar saman og gefnar út, almenningi til upplýsingar? eftir Magnús Viðar Skúlason