Hvert er íslenska heitið yfir 'grey nurse shark' og hvernig eru þeir flokkaðir?Hákarlategund sú sem kallast grey nurse shark á ensku (Carcharias taurus) nefnist grái skeggháfur á íslensku. Hið sérstæða enska heiti þessara hákarla, "nurse", vísar til þess að þeir “fóstra” fjölda smáfiska á meðan þeir synda um heimshöfin. Þessir smáfiskar lifa á sníkjudýrum á skráp hákarlanna og annarra svipaðra tegunda. Flokkun gráa skeggháfsins er eftirfarandi:
Ríki (Kingdom) | Dýraríki (Animalia) |
Fylking (Phylum) | Seildýr (Chordata) |
Undirfylking (Subphylum) | Hryggdýr (Vertebrata) |
Flokkur (Class) | Brjóskfiskar (Chondrichthyes) |
Ættbálkur (Order) | Hámerar (Lamniformes) |
Ætt (Family) | Sandháfar eða sandtígrar (Odontaspididae) |
Ættkvísl (Genus) | Carcharias |
Tegund (Species) | taurus |
Ættin Odontaspididae inniheldur meðal annars kunnar tegundir eins og sandháf (Odontaspis taurus) og lensuháf (Mitsukurina owstoni). Innan ættarinnar eru þrjár ættkvíslir, Carcharias sem skeggháfar tilheyra, sandháfar (Odontaspis) og Scapanorhynchus. Allt eru þetta tiltölulega stórar skepnur, frá 3-6 metrum á lengd, með tiltölulega flatvaxin trýni og sterklega líkamsbyggingu. Þeir eru brúnleitir að lit og á efri hlutanum eru margvísleg dökkleit mynstur. Ensku heitin á fjölmörgum hákarlategundum geta verið æði ruglingsleg. Til dæmis er Carcharias taurus einnig kallaður ‘sand tiger shark’ eða sandtígrisháfur, en það fer mjög eftir svæðum hvaða heiti er notað. Mun algengara er meðal náttúrufræðinga að kalla tegundina ‘grey nurse shark’. Odontaspis taurus er aftur á móti kallaður ‘sand shark’ og því hætt við að einhverjir rugli heitinu saman við ‘sand tiger shark’. Þessi tegund hefur verið nefnd sandháfur á íslensku. Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um hákarla sem hægt er að finna með því að nota leitarvélina hér til vinstri eða með því að smella á efnisorðin neðst í svarinu. Mynd: Dive Spirit Travel