Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Margskonar vélmenni hafa verið þróuð til að sinna hlutverkum eins og að sjá um eldra fólk, aðstoða verkamenn við byggingarvinnu eða sækja djús í ísskápinn — en þau búa þó flest enn á rannsóknarstofum. „Svarið er því að vélmenni sem hjálpa fólki eru nú þegar til, en þau hafa fæst verið tekin í almenna notkun.
Undanfarin ár hefur vélbúnaði fleygt fram; fyrir um fimm árum voru vélmenni (vélar í mannsmynd) svo dýr að aðeins stórfyrirtæki höfðu efni á að þróa þau og vinna með. Nú til dags standa slíkar vélar almenningi til boða á netinu og á um fimm mánaða fresti kemur fram ný gerð af vélmennum á viðráðanlegu verði.
Þessi framþróun tæknibúnaðar auðveldar okkur að nálgast meginvandamálið, það er gervigreind vélmennanna. Til þess að geta starfað í náttúrulegu umhverfi þurfa vélarnar greind sem gerir þeim kleift að túlka rétt og takast á við þær ófyrirsjáanlegu aðstæður sem upp geta komið; það getur til dæmis falið í sér að túlka fyrirspurn frá eiganda sínum, eða passa að stíga ekki á heimilisköttinn á meðan fyrirmælunum er framfylgt.
Enn er því erfitt að segja til um hvenær vélmenni verða hversdagslegur hlutur í heimahúsum, en víst er að á næstkomandi 10-15 árum verða gríðarlegar framfarir á sviði róbóta og gervigreindar. Þangað til verðum við flest að láta okkur nægja að fylgjast spennt með fréttum af þróun þeirra.
Ef horft er til róbóta annarra en vélmenna, það er þjarka og véldýra, er ljóst að þeir hafa um langt skeið hjálpað okkur mannfólkinu, allt frá því að smíða bíla fyrir okkur í stórverksmiðjum, yfir í að framkvæma erfiðar skurðaðgerðir.
Hér fyrir neðan eru dæmi um nokkra hjálparróbóta, þar með talin vélmenni, en listinn er þó langt frá því að vera tæmandi.
Stórmarkaðskeðjan Æon í Japan varð sú fyrsta í heiminum til að láta vélmenni sinna afgreiðslustörfum. Þetta voru ENON-vélmennin (sjá mynd efst til vinstri). Í verslunum leiðbeina þau fólki, gefa nánari upplýsingar um vörur, flytja hluti og sjá um öryggiseftirlit. Síðustu fregnir herma að Æon-keðjan sé hæstánægð með þessa nýju vinnumenn og hyggist fjölga þeim.
CyberKnife (sjá mynd fyrir ofan til hægri) notar leysigeisla til að fjarlægja æxli, þar á meðal æxli í mænu sem getur reynst mjög erfitt fyrir mennska skurðlækna að meðhöndla. Nákvæmni CyberKnife felst í gervigreind hans, en þjarkinn getur brugðist við ósjálfráðum hreyfingum sjúklingsins á meðan á aðgerð stendur, auk þess að geta greint og fylgst með æxlinu sem verið er að fjarlægja.
Fornleifasafnið Agrigento á Ítalíu tók nýlega í notkun róbótinn Cicerobot (sjá mynd fyrir ofan til vinstri). Róbótinn, sem er 1,5 metrar á hæð og í laginu eins og rör, mun leiða hópa um safnið og segja frá gripum sem þar er að finna. Cicerobot tekur tillit til áhuga og spurninga hvers og eins í hópnum og miðar ferðina út frá þeim.
Roborior (sjá mynd hér til hliðar) er í flokki róbóta sem hannaðir eru til að gæta heimila á meðan eigandinn er í burtu. Þá keyrir Roborior um húsið og athugar hvort allt sé í lagi. Ef hann finnur merki um að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera getur hann sent eiganda sínum ljósmynd eða hreyfimynd með SMS-skilaboðum. Því miður eru flestir róbótar af þessari gerð enn aðeins til sölu í Japan.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Hrafn Þorri Þórisson. „Hvenær koma vélmenni sem geta hjálpað fólki?“ Vísindavefurinn, 9. júní 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6005.
Hrafn Þorri Þórisson. (2006, 9. júní). Hvenær koma vélmenni sem geta hjálpað fólki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6005
Hrafn Þorri Þórisson. „Hvenær koma vélmenni sem geta hjálpað fólki?“ Vísindavefurinn. 9. jún. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6005>.