Er skráð orðatiltækið að fá snert af bráðkveddu, það er í merkingunni að bregða eða verða mikið um eitthvað?Orðabók Háskólans á þrjú dæmi um nafnorðið bráðkvedda, öll frá miðbiki 20. aldar. Í tveimur þeirra kemur fyrir "snertur af bráðkveddu". Annað dæmið er úr tímaritinu Helgafelli (1942, bls. 221) þar sem verið er að ræða um Alþýðuflokkinn og segir "er raunar engu líkara, en að hann hafi fengið "snert af bráðkveddu"". Hitt dæmið er úr Sálminum um blómið eftir Þórberg Þórðarson: "Sobbeggi afi stóð eftir utan við eldhúsdyrnar með snert af bráðkveddu." Þótt dæmi Orðabókarinnar í ritmálsskrá séu ekki fleiri var orðasambandið mjög algengt um tíma en heyrist sjaldnar nú orðið. Það er notað í óformlegu máli um að verða mikið um eitthvað og er leitt af lýsingarorðinu bráðkvaddur sem aftur er nær eingöngu notað í sambandinu að verða bráðkvaddur 'deyja snögglega'. Þriðja dæmi Orðabókarinnar er úr leikriti eftir Loft Guðmundsson: "Já, ég er þjóðlegur vísindamaður á lækingamátt alls konar jurta og hef fengið pantanir á meðulum alla leið nyrzt og norðvestast af Hornströndum ... við bráðdrepandi bráðkveddu." Þarna er orðið notað um einhvern sjúkdóm sem dregur snögglega til dauða.
Útgáfudagur
6.6.2006
Spyrjandi
Dagný Einarsdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Eru til skráð dæmi um orðatiltækið "að fá snert af bráðkveddu"?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5995.
Guðrún Kvaran. (2006, 6. júní). Eru til skráð dæmi um orðatiltækið "að fá snert af bráðkveddu"? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5995
Guðrún Kvaran. „Eru til skráð dæmi um orðatiltækið "að fá snert af bráðkveddu"?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5995>.