pallar þrír vera umhverfis lögréttuna, svo víðir að rúmlega megi sitja á hverjum þeirra fernar tylftir manna. Það eru tólf menn úr fjórðungi hverjum er lögréttusetu eigu, og lögsögumaður umfram, svo að þar skulu ráða lögum og lofum. Þeir skulu allir sitja á miðpalli, og þar eigu biskupar vorir rúm.Þessir 48 menn, tólf úr hverjum landsfjórðungi, fóru með löggjafarvaldið, og þeir voru einkum goðar, líka kallaðir goðorðsmenn. Nú var goðorðaskipting landsins þannig að tólf goðar voru í Norðlendingafjórðungi en níu í hverjum hinna fjórðunganna, alls 39. Til að jafna hlut fjórðunganna í lögréttu var bætt við þessa tölu þremur mönnum úr hverjum þeirra fjórðunga sem höfðu aðeins níu goða. Miðpallsmenn, hinir eiginlegu handhafar löggjafarvalds, voru því 4 x 12 = 48, auk biskupa og lögsögumanns, að minnsta kosti ef hann var ekki goði, en ekki er vitað hvort þessir þrír menn tóku beinlínis þátt í að samþykkja lög. Síðan tók hver miðpallsmaður með sér tvo menn til að ráðgast við, sjálfsagt oftast bændur, og höfðu annan á bekknum fyrir framan sig, hinn fyrir aftan sig. Þannig sátu í lögréttunni að minnsta kosti þrisvar sinnum 48 eða 144 menn, auk biskupa og lögsögumanns. Ekki er vitað hvort biskupar og lögsögumaður höfðu líka ráðgjafa fyrir framan sig og aftan. Líklegra er að það hafi ekki verið og lögréttusetumenn því verið 147. Í dómstólum Alþingis sátu bændur sem fylgdu goða sínum til þings og voru tilnefndir í dóma af þeim. Í hverjum fjórðungsdómi sátu líklega 36 menn, í fimmtardómi sátu 48. Ef við gerum ekki ráð fyrir að sömu mennirnir hafi setið í dómum á báðum dómstigum, eða bæði í lögréttu og dómstólum, hafa um 340 manns gegnt starfi á þinginu. Fjölda þingsóknarmanna má svo áætla út frá því að samkvæmt lögum átti níundi hver sjálfbjarga bóndi að ríða með goða sínum til Alþingis. Í Íslendingabók Ara fróða segir að sjálfbjarga bændur hafi verið um 4560 á landinu um aldamótin 1100. Sé deilt í þá tölu með níu kemur út rúmlega 500. Við þá tölu hafa bæst aðilar að dómsmálum sem átti að dæma í á þinginu, einnig tilkvaddir vottar. Þá kemur fram í sögum að menn riðu stundum til þings sér til skemmtunar, þeirra á meðal konur sem tóku ekki þátt í formlegum störfum þingsins. Heimildir:
- Einar Arnórsson: Réttarsaga Alþingis. Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945.
- Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
- Gunnar Karlsson: Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga. Reykjavík, Heimskringla, 2004.
- Mynd: Painting History: January 2012. (Sótt 4. 6. 2013).