Er þeir þykjast nógu fjölmennir orðnir setjast þeir niður og allir vopnaðir. Þá lýsir presturinn þinghelgi og hefir hann tyftunarvald á þinginu. En þar næst tekur konungur til máls, eða oddviti, eftir því sem hver hefir aldur til, ættgöfgi, afreksverk eða orðgnótt. Hlýða menn máli hans því betur sem þeim þykja tillögur hans veigameiri, en skipunarvald hefir hann ekki. Ef áheyrendum gest eigi að orðum hans heyrist illur kurr í þeim. En ef þeim líkar vel til hans að heyra fella þeir frenjur saman. Að láta lof sitt í ljós með vopnum þykir hinn sæmilegasti vottur samþykkis.Því má bæta við að þessi siður, að samþykkja með því að slá saman vopnum eða vopnum og skjöldum, mun vera fyrirrennari þess að samþykkja með lófataki. Þegar Ísland byggðist hafa Norðurlandabúar sjálfsagt haft sín þing eins og aðrar germanskar þjóðir. Varla munu vera til neinar samtímaheimildir um það því að norrænir menn voru þá heiðnir og kunnu lítt að skrifa. En síðar á miðöldum er vitað að norska konungsríkið skiptist í umdæmi fjögurra þinga. Ari fróði gerir líka hiklaust ráð fyrir því í Íslendingabók að Gulaþing á vesturströnd Noregs hafi verið fyrirmynd Íslendinga þegar þeir stofnuðu sitt þing. Hann lýsir upphafi íslenskra laga þannig að „þá er Ísland var víða byggt orðið þá hafði maður austrænn fyrst lög út hingað úr Norvegi, sá er Úlfljótur hét …, en þau voru flest sett að því sem þá voru Gulaþingslög …“ Ekki þurfti því neitt sérstakt tilefni til að Alþingi væri stofnað, enda mun ekki vera sagt frá því í sögum; það var bara eitt af því sem fólk þurfti með til að geta lifað í landinu. Heimildir og mynd:
- Íslenzk fornrit. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík, Fornritafélag, 1968.
- Jakob Benediktsson: „Landnám og upphaf allsherjarríkis.“ Saga Íslands I (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1968), 153–96.
- Tacitus: Germanía. Þýtt hefir Páll Sveinsson. Reykjavík, Þjóðvinafélag, 1928.
- Ullmann, Walter: Medieval Political Thought. Harmondsworth, Penguin, 1979 (first published 1965).
- Mynd: Gulatinget - Sogn og Fjordane - Fylkesleksikon - NRK. (Sótt 4. 6. 2013).
Í heild hljóðaði spurningin svona:
Af hverju var Alþingi stofnað? Hvers konar vandamál voru til staðar áður en það var stofnað?