- Vötn sem fylla jökulsorfnar dældir eru algengust – kunnust eru Lögurinn í Fljótsdal og Skorradalsvatn, en einnig ýmis vötn í nágrenni Reykjavíkur eins og Rauðavatn.
- Jökulker eru dældir eftir ísjaka.
- Sporðlón myndast milli jökultungu og jökulruðnings, til dæmis Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
- Jökullón (jökulstífluð lón) verða þar sem dalur stíflast af skriðjökli, kunnast er Grænalón við vesturjaðar Skeiðarárjökuls.
- Gígvötn standa í eldgígum, til dæmis Kerið í Grímsnesi og Grænavatn í Krýsuvík.
- Hraunstíflað vatn er til dæmis Hlíðarvatn í Hnappadal en
- Hvalvatn inn af Botnsdal í Hvalfirði er afleiðing þess að móbergsstapinn Hvalfell stíflaði dalinn.
- Langisjór og Kleifarvatn eru dæmi um stöðuvötn í dölum milli tveggja móbergshryggja.
- Öskjuvötn taka nafn af Öskjuvatni í Dyngjufjöllum sem varð til í eldgosi 1875.
- Dæmi um stöðuvötn í sigdældum eru Þingvallavatn og Skjálftavatn í Kelduhverfi – Þingvallavatn er raunar einnig stíflað af móbergsfjallinu Dráttarhlíð.
- Flóðið í Vatnsdal er dæmi um skriðuvatn en
- Tjörnin í Reykjavík um sjávarlón – stöðuvatn lokað af malarrifi. Loks nefnir Þorleifur
- bjúgvötn, en þau verða til þegar bugðóttar ár yfirgefa bugður í farvegi sínum, og
- vötn sem stífluð eru upp af aurkeilum við rætur dalahlíða – vötnin í Svínadal í Borgarfirði eru af þessu tagi.
Þá er það spurningin um Reynisvatn. Umhverfi Reykjavíkur einkennist af jökulsorfnum grágrýtisholtum með dældum á milli sem víða mynda stöðuvötn, til dæmis Rauðavatn. Hins vegar er grágrýtið samsett úr mörgum hraunstraumum frá mismunandi tímum, og Reynisvatn er í kvos á mótum hraunstrauma. Útfall hefur verið úr vatninu til norðurs en hlaðið hefur verið í það og vatnsborðið þannig hækkað. Önnur svör á Vísindavefnum um svipað efni:
- Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hver eru tíu stærstu vötn Íslands? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvað er stöðuvatn? Er Kyrrahafið stöðuvatn? eftir EDS
- Þorleifur Einarsson. 1991. Myndun og mótun lands. Reykjavík, Mál og menning.
- Reynisvatn