Þessari spurningu má svara á marga vegu. Þegar við lítum yfir dýraríkið í heild sjáum við miklu færri dýr sem fljúga en hin sem gera það ekki. Þess vegna mætti kannski alveg eins snúa spurningunni við og spyrja: Af hverju ætti fólk að geta flogið? Svo má líka segja: Af því að fólk er hvorki fuglar, flugur né leðurblökur. Þessi svör rista ekki djúpt en við getum komist lengra ef við spyrjum: Hvers vegna eru ekki fleiri dýr sem geta flogið af eigin rammleik? Þá má hafa í huga að það virðist, að minnsta kosti við fyrstu sýn, vera betra fyrir tegundina að geta flogið en að geta það ekki. Tegundir sem fljúga eiga fleiri möguleika í fæðuöflun en hinar og eiga auk þess auðveldara með að komast undan rándýrum. Þetta síðasta á þó ekki endilega við ef rándýrin eru líka fleyg. Meginorsökin fyrir því að svo fá dýr eru fleyg virðist okkur vera sú að flug krefst tiltölulega mikillar orku sem er beint eða óbeint tekin frá öðru sem dýrin gætu gert í staðinn. Jafnframt er ekki sérlega líklegt að dýrategundir þróist í þessa átt. Flug er tiltölulega ólíkt þeim hreyfingum sem dýr á jörðu niðri þurfa á að halda og því verður líkamsbygging fljúgandi dýra mjög ólík hinum. Við getum til dæmis líka tekið eftir því að tegundir sem hafa orðið fleygar halda ekkert endilega áfram að vera það ef þær hafa ekki hag af því. Geirfuglinn og mörgæsin þurftu ekki að vera fleyg vegna þess að það voru engin ógnandi rándýr í umhverfi þeirra á jörðu niðri (það var fyrst og fremst maðurinn sem breytti þessu hjá geirfuglinum, nýtti sér að hann var ófleygur og útrýmdi honum). Kiwi-fuglinn, moa-fuglinn og fleiri fuglar á Nýja-Sjálandi urðu ófleygir af því að þar voru engin rándýr á landi sem ógnuðu þeim. Strútfuglar komast upp með að vera ófleygir af því að þeir hafa aðrar aðferðir en flugið til að komast undan rándýrum. Þannig má líka segja að lokum að við værum ekki fólk ef við gætum flogið og óvíst er hvernig við hefðum orðið hefði þróunarbraut okkar legið í þá átt!?
Af hverju getur fólk ekki flogið?
Þessari spurningu má svara á marga vegu. Þegar við lítum yfir dýraríkið í heild sjáum við miklu færri dýr sem fljúga en hin sem gera það ekki. Þess vegna mætti kannski alveg eins snúa spurningunni við og spyrja: Af hverju ætti fólk að geta flogið? Svo má líka segja: Af því að fólk er hvorki fuglar, flugur né leðurblökur. Þessi svör rista ekki djúpt en við getum komist lengra ef við spyrjum: Hvers vegna eru ekki fleiri dýr sem geta flogið af eigin rammleik? Þá má hafa í huga að það virðist, að minnsta kosti við fyrstu sýn, vera betra fyrir tegundina að geta flogið en að geta það ekki. Tegundir sem fljúga eiga fleiri möguleika í fæðuöflun en hinar og eiga auk þess auðveldara með að komast undan rándýrum. Þetta síðasta á þó ekki endilega við ef rándýrin eru líka fleyg. Meginorsökin fyrir því að svo fá dýr eru fleyg virðist okkur vera sú að flug krefst tiltölulega mikillar orku sem er beint eða óbeint tekin frá öðru sem dýrin gætu gert í staðinn. Jafnframt er ekki sérlega líklegt að dýrategundir þróist í þessa átt. Flug er tiltölulega ólíkt þeim hreyfingum sem dýr á jörðu niðri þurfa á að halda og því verður líkamsbygging fljúgandi dýra mjög ólík hinum. Við getum til dæmis líka tekið eftir því að tegundir sem hafa orðið fleygar halda ekkert endilega áfram að vera það ef þær hafa ekki hag af því. Geirfuglinn og mörgæsin þurftu ekki að vera fleyg vegna þess að það voru engin ógnandi rándýr í umhverfi þeirra á jörðu niðri (það var fyrst og fremst maðurinn sem breytti þessu hjá geirfuglinum, nýtti sér að hann var ófleygur og útrýmdi honum). Kiwi-fuglinn, moa-fuglinn og fleiri fuglar á Nýja-Sjálandi urðu ófleygir af því að þar voru engin rándýr á landi sem ógnuðu þeim. Strútfuglar komast upp með að vera ófleygir af því að þeir hafa aðrar aðferðir en flugið til að komast undan rándýrum. Þannig má líka segja að lokum að við værum ekki fólk ef við gætum flogið og óvíst er hvernig við hefðum orðið hefði þróunarbraut okkar legið í þá átt!?
Útgáfudagur
19.5.2006
Síðast uppfært
17.4.2020
Spyrjandi
Tinna Sif Guðmundsdóttir, f. 1993
Tilvísun
ÞV. „Af hverju getur fólk ekki flogið?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2006, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5946.
ÞV. (2006, 19. maí). Af hverju getur fólk ekki flogið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5946
ÞV. „Af hverju getur fólk ekki flogið?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2006. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5946>.